Fyrirgefið biðina en ég lenti í vandræðum með söguþráðinn. Ég komst að því að hann gekk ekki upp og varð að hugsa upp nýjan. Ég bjargaði sögunni frá glötun en ekki búast við of miklu af mér. Þetta er líka ástæðan fyrir nafnastressinu, hún verður nú að heita eitthvað sagan og helst í sambandi við söguþráðinn. Svo að ég ákvað að héðan í frá mun ekki lengur standa 6. árs áhugaspuni, heldur
Harry Potter og augun.
Gjöðið þið svo vel:

Fjórði kapítuli

Ljósir lokkar

Harry og Hermione gengu inn í verslun Weasleytvíburanna og sáu strax hvar þeir, Ron og Ginny stóðu og spjölluðu. Þau flýttu sér til þeirra í gegnum þvöguna og heyrðu á tali kúnnanna að þeir væru ánægðir með nýju búðina. Fred og Georg komu samtímis auga á þau og hrópuðu upp yfir sig:
„Harry! Hermione! Velkomin í Galdrabrellur Weasleybræðra!“ Þeir þustu á móti þeim og buðu þeim sælgæti þar sem þau voru heiðursgestir ásamt Ron og Ginny. Þau voru nógu vitur til þess að afþakka.
„Jæja, hvað segið þið gott? Búin að hafa það fínt í fríinu? Búin að, ö, jafna ykkur eftir…?“ Þeir lækkuðu róminn.
„Ó, jájá. Ég hef það ágætt miðað við aðstæður,“ svaraði Hermione lágt, „Ég fæ samt einstaka sinnum martraðir um drápara og vakna um miðjar nætur.“
Harry leit snöggt á Hermione. Hann varð að nota tækifærið.
„Já, sömuleiðis hér. Mig dreymdi einn óvenju raunverulegan draum síðustu nótt um það sem gerðist í hringlaga herberginu…“ Hann leit eftir viðbrögðum hinna. Hann sá ekki nein.
„Ég man nú aldrei hvað mig dreymir,“ sagði Ron, „og ef eitthvað, þá hefur mig dreymt minna en vanalega þetta sumar.“
„Þig hefur nú samt ekki dreymt vel, þau skipti sem þig dreymir,“ tók Fred til máls, „ég man nú eftir því þegar þú vaktir okkur öll með ópum og Ginny líka.“
„Bæði í einu?“ spurði Harry or reyndi að dylja áhugann.
„Nei, sem betur fer höfum við ekki lent í því enn þá,“ svaraði Georg.
Þessu fylgdi þögn, því enginn virtist vita hvað hann ætti að segja. Þetta var viðkvæmt mál. Það var Hermione sem rauf þögnina með uppgerðar hneykslunartón:
„Ron! Hvað er þetta eiginlega með þig og ljóshærðar stelpur?“ Hún kímdi lítið eitt og allir litu þangað sem Ron hafði starað. Þar stóð lagleg ljóshærð stelpa að skoða skrópnestisbox. Eyrun á Ron roðnuðu þegar hann virtist ranka við sér.
„Ha? Ég var ekkert að horfa á hana, ég var bara með störu!“
„Já, já, þú segir það,“ stríddi Hermione honum og flissaði. Ron reyndi að svara þessu en kom engu út úr sér nema örfáum hljóðum.
„A, ö, k… ég… ég… Æ þegiðu Hermione!“ tókst honum þó að hreyta út úr sér að lokum.
Við þetta fór allur hópurinn að skellihlæja og adrúmsloftið léttist á ný. Þá þurftu Fred og Georg að fara að sinna strák sem hafði ætlað að stela nammi og var nú með bleikröndótta tungu lafandi niður á gólf, sem er einstaklega óþægilegt, sérstaklega þegar svæðið er troðið. Harry, Ron, Hermione og Ginny lögðu þá af stað í bókaleiðangur og eyddu afgangnum af deginum saman á Skástræti við að borða ís, skoða í búðir og spjalla. Þau hittu nokkra skólafélaga og skiptust á fréttum og höfðu það gott þar til tími var komin fyrir Weasleysystkinin og Hermione að fara heim á leið. Þá kvöddu þau Harry sem snéri aftur á Leka seiðpottinn. Þar borðaði hann kvöldverð með Lupin (sem hann hafði steingleymt) áður en hann fór glaður að sofa.

Sunnudagurinn hafði farið í búðarráp og hangs, því Harry hafði ekkert að gera. Hann heimsótti búð Freds og Georgs aftur og hitti fleiri krakka úr skólanum en að öðru leiti gerðist ekkert. Hann var dálítið hissa á því að rekast ekki á Draco Malfoy og durtana vini hans en hann saknaði þeirra alls ekki.
Síðan kom mánudagurinn. Hann vaknaði snemma og beið eftir Lupin niðri við morgunverðarborðið. Þegar hann kom niður virtist hann úthvíldur, enda höfðu þeir farið snemma að sofa, og þeir voru fljótir að hesthúsa matnum. Svo borgaði hvor fyrir sig og héldu af stað á King’s Cross brautastöðina, brautarpall númer 9 ¾ . Þeir mættu snemma en Ron og Ginny voru samt mætt ásamt frú Weasley. Þegar hún sá hann strunsaði hún til hans og faðmaði hann þétt að sér.
„Ó Harry! En hvað það er gott að sjá þig! Við Arthúr höfðum áhyggjur af þér væni, þú mátt ekki stinga svona af! Lupin, sæll og blessaður. Þú varst fljótur að finna hann, mikið var það gott. Og Harry, mundu að gera þetta aldrei aftur!“ síðustu orðin voru ströng og Harry kinkaði kolli og lofaði því, þótt hann hugsaði með sér að ef svipuð staða kæmi aftur upp, myndi hann ekki hika við að endurtaka leikinn.
Þau biðu á brautarpallinum og fólki með börn, uglur og körtur og toppmjóa hatta fór að fjölga. Brátt iðaði allt af lífi og það sindraði af skarlatsrauðri eimreiðinni sem beið þess eins að geta lagt af stað. Hermione bættist í hópinn og stuttu síðar var flautað inn.
Þau gengu fjögur inn í lestina þar sem Ginny kom auga á nokkrar vinkonur sínar og kvaddi áður en hún fór í klefa með þeim.
„Jæja,“ dæsti Harry og vissi ekki alveg hvernig hann ætti að bera sig, „við sjáumst þá bara á eftir, ekki satt?“
„Jú,“ svaraði Hermione, „við þurfum að fara í umsjónamannavagninn. Kemuru Ron?“
„Nei,“ svaraði Ron skælbrosandi, „ég er ekki lengur umsjónarmaður!“
„Ha? Hvað segiru?“
„Alveg satt. Ég fékk uglu um það í sumar að ég þyrfti þess ekki lengur ef ég vildi það ekki og ég sagði auðvitað upp! Þetta umsjónarstarf átti aldrei almennilega við mig. Og nú get ég gert það sem mig langar án þess að hafa áhyggjur af því að vera léleg fyrirmynd.“
Harry hló að þessu en Hermione virtist ekki eins skemmt.
„Þú skalt sko ekki halda að þú komist upp með hvað sem er, bara vegna þess að þú sért vinur minn, Ron! Og þó að þú sért ekki lengur umsjónarmaður þá áttu samt ekkert með það að haga þér illa, þú ert samt fyrirmynd yngri nemenda. Þeir líta upp til okkar.“
„Ó.“ Brosið á Ron dofnaði.
„Ég þarf að koma mér,“ sagði Hermione, „Hagið ykkur nú vel á meðan ég er í burtu!“ Svo snéri hún sér við til þess að fara fremst í lestina.
„Hagið ykkur nú vel, bla bla bla!“ hermdi Ron eftir henni með lélegri eftirhermu af kvenrödd og gretti sig. „Hún er alltaf söm við sig.“
„Það væri óhugnarlegt ef hún tæki upp á því að skrópa í tímum og sprengja fýlubombur á göngunum,“ benti Harry honum á.
„Jáh, það er kannski rétt. En þá yrði kannski auðveldara að umgangast hana, því hún væri á sama sviði og við.“
Harry velti fyrir sér svari Rons á meðan þeir gengu yfir í aftasta vagninn eins og vanalega og vonuðust til þess að hann væri tómur. Svo var þó ekki. Við gluggan sat stelpa, aðeins yngri ein þeir sjálfir. Hún var með ljósa lokka sem liðuðust rétt niðurfyrir axlir, stór himinblá augu og nokkrar stríðnislegar freknur á nefinu. Hún leit upp í spurn þegar þeir opnuðu og fór dálítið hjá sér. Hún var svo sakleysisleg að Harry brá. Hún var alger engill á að líta. Hún var með silfurhringi í eyrunum og klædd í ljósbláa skyrtu og gallabuxur, enda ekki enn búin að skipta muggafötunum út fyrir skólabúningnum.
„Ö, hæ,“ sagði hann hikandi, „Er nokkuð laust?“
Hún kinkaði kolli.
„Já já.“
„O-ókei.“
Þeir gengu inn og settust við dyrnar og þögðu. Eftir að hafa þagað í smá stund og sent vandræðalegar augngotur hvert á annað, ákvað Harry að taka sig á og heilsa henni, enda yrðu þau líklega ferðamátar á leiðinni til Hogwarts.
„Ehm, fyrirgefðu en… hvað heitiru?“ Stelpan leit beint á þá og aftur undraðist Harry yfir þessum ótrúlega sakeysissvip. Sérstaklega augunum. „Ég heiti Harry Potter og þetta er Ron Weasley.“
„Laufey Needle,“ kynnti hún sig.
„Hæ,“ sagði Ron og hún heilsaði á móti og brosti feimnislega. Harry velti því fyrir sér af hverju hún sæti hérna ein.
„Hérna, eru einhverjir vinir þínir að koma hingað á eftir? Við getum fært okkur ef þú vilt.“
Það kom einhver skrítinn svipur á hana og hún hristi höfuðið.
„Nei nei, það er óþarfi. Sitjið endilega áfram.“ Hún varð niðurlút eitt augnablik.
Harry og Ron litu á hvorn annan. Átti hún enga vini? Eða var eitthvað ósætti svo þau töluðust ekki við? Hvað svo sem það var, þá varð það þögult samkomulag strákanna að fara ekki meir út í þá sálma.
„Á hvaða heimavist ertu?“ spurði Harry til þess að beina talinu annað.
„Slytherin,“ svaraði Laufey, „Ég er að byrja fjórða árið mitt. Eruð þið ekki í Gryffindor?“
„Jú,“ svöruðu strákarnir í kór og kinkuðu kolli. Harry varð hugsað til fjórða ársins síns í Hogwarts og óskaði Laufeyju betra árs en hans hafði verið. Sérstaklega betri skólaloka. Hann hristi af sér þessar hugsanir þegar Hermione opnaði dyrnar á klefanum.
„Hæ Hermione, hvernig var umsjónamannafundurinn?“
Hermione opnaði munnin en tók Ron fram í fyrir henni.
„Harry þó, kanntu þig ekki? Hermione, má ég kynna fyrir þér Laufeyju Needle. Laufey, þetta er Hermione Granger.“
Hermione leit af Ron á Laufeyju og tók í höndina á henni. Í því bankaði konan með söluvagninn upp á og athyglin beindist öll að henni. Þegar allir voru komnir með smá sykur á milli handanna þurfti ekki mikið til þess að fá Laufeyju til þess að gleyma feimninni og fljótlega voru þau öll farin að spjalla um alla heima og geima og skipta með sér sælgæti.