Allar góðar bækur eru fullar af óþarfa fyrir söguþráðinn.
Og viti menn, mér tókst að skrifa heilan kafla um ekki neitt. Það er alls ekki erfitt! Þetta bara kom algerlega áreynslulaust svo ég ákvað að hafa hann bara með. Þetta er næstum aukakafli í augnablikinu… En nú þarf ég smá hljálp frá ykkur, lesendur góðir, getið þið sagt mér á hvaða ári Quidditchstelpurnar voru? Angelina Johnson, Alicia Spinnet og Katie Bell. Og svo (ég hef bara lesið fimmtu bókina einu sinni svo ég man ekki allt úr þeim ;) kemur einhversstaðar fram hvað búð Freds og Georgs er kölluð?
Það ætti að gerast eitthvað meira í næsta kafla en þar til þá verður þetta að nægja.
Ó já. Er einhver með góða hugmynd að nafni? Ef ekki þá kalla ég söguna bara Ljósa lokka. Eitthvað verður hún nú víst að heita sagan.
Þriðji kapítuli
Grísirnir þrír og Stóri ljóti úlfur
Þegar Harry og Lupin gengu niður í Skástræti morguninn eftir sáu þeir eftir því að hafa ekki farið fyrr á fætur. Eins og Harry hafði spáð fyrir, var mikil mannmergð og varla hægt að komast leiðar sinnar fyrir ungum galdradrengjum og –stúlkum og fjölskyldum þeirra í innkaupaleiðangri. Sem betur fer þurfti Harry ekki að kaupa margt fyrir sjötta árið í Hogwartsskóla, bara nýjan kufl og skikkju auk nokkurra nýrra bóka. Báðir voru þeir grannvaxnir og gátu því án mikilla erfiðleika smeygt sér inn á milli fólksins og inn til Frú Malkins: Skikkjur við öll tækifæri. Það lá þó við að þeir kæmust aldrei að vegna þess að búðin var full af verðandi fyrsta árs nemum sem þurftu nauðsynlega á skólabúningi að halda. Það var heitt og mollulegt þarna inni og Harry var farinn að velta því fyrir sér að láta sig hafa það að vera í of stuttum kufli, þegar frú Malkin kom loksins til þeirra.
Harry var látinn standa uppi á skemli á meðan skraddarakerlingin nældi rétta sídd á nýja búninginn hans og hver einasti tíu og ellefu ára krakki starði á hann. Honum fannst það mjög óþægilegt, honum leið eins og hann stæði á sviði til sýnis, þar sem hann stóð grafkyrr eins og sýningargripur til þess að verða ekki stunginn af títuprjónunum. Allt í einu small við flass og Harry blindaðist af fjólubláum dansandi deplum og missti næstum jafvægið.
„Harry Potter! Viltu árita myndina fyrir okkur?“ spurði áköf rödd og ljóshærður strákur rétti Harry myndina sem hann var að enda við að taka. Harry tók ósjálfrátt við henni og nuddaði augun. Hann sá tvöfallt og riðaði á mjóum skemlinum. Tveir ljósir kollar með stórar tennur góndu á hann í eftirvæntingu.
„A-allt í lagi,“ svaraði hann, „Ertu með penna?“ Hann horfði á myndina sem var að koma í ljós. Hún var tekin að neðan svo að hann leit út fyrir að vera gríðarlega hár þar sem hann stóð með opinn faðminn. Hann minnti á Jesústyttuna í Ríó nema hvað hann blikkaði augunum og riðaði til meðan hendurnar á frú Malkins reyndu að styðja hann. Hann tók við fjaðurpennanum sem honum var réttur og ætlaði að skrifa þegar gall við:
„Viltu skrifa til Eltons og Feltons?“ Harry leit á ljósa kollinn og komst að því að hann sá ekki tvöfalt heldur voru þetta tvíburar. Elton og Felton, hugsaði hann, Guð minn góður! Greyið strákarnir.
„Já!“ sagði hinn andstuttur, „Elton og Felton Creevy!“
Það lá við að Harry missti frjaðurstafinn. Creevy? Voru þetta bræður Colins og Denniss? Hann leit á strákana og sá sama æsinginn og áhugann á honum og hjá eldri bræðrunum. Hann svitnaði enn meir í mollunni. Voru tveir Creevyar í viðbót á leið til Hogwarts?
„Hey, ekki gleyma mér!“ Harry varð sem lamaður og augu hans liðu hægt til hliðar þar til augnaráðið lenti á ákafri, ljóshærðri stelpu sem var óhugnanlega lík Creevystrákunum.
„Ég trúi þessu ekki!“ stundi hann og ekki varð undrun hans minni þegar stelpan kynnti sig:
„Ginny Creevy! Skrifaðu líka til Ginnyjar Creevy!“
Harry flýtti sér að hripa niður það sem þau báðu hann um og flýtti sér svo af skemlinum og til Lupins sem hristist af hlátri.
„Þú hefðir átt að sjá þig standa þarna með alla þessa litlu aðdáendur allt um kring!“ hikstaði hann, „Svipurinn á þér var óborganlegur!“
Þegar nýju fötin voru tilbúin og Harry gat borgað og farið, var hann búinn að gefa þó nokkrar aðrar eignhandaráritanir. Hann hafði aldrei lent í öðru eins áður og minntist á það við Lupin.
„Já, áður varstu þekktur en nú ertu frægur,“ svaraði fyrrverandi kennarinn.
„Hvað meinaru?“
„Nú, hér áður fyrr þekktu allir nafnið Harry Potter og gátu þekkt þig úti á götu ef þeir bara sæju örið. Það vissu allir í hverju þú hafðir lent og að þú hafðir með ótrúlegum hætti lifað af hættulegustu bölvunina og lagt að velli grimmasta galdramann veraldar í leiðinni. En núna síðustu ár, sérstaklega síðustu tvö, hefur þú vakið athygli og komið af stað miklum umræðum og jafnvel sýnt fram á að Þú-veist-hver sé upp risinn á ný. Það hafa verið margar, margar fréttir af þér í blöðunum… með myndum.“ Lupin leit á Harry. „Núna veit fólk nákvæmlega hvernig þú lýtur út, Harry, ekki bara að þú sért sextán ára strákur með eldingarlaga ör á enninu. Það þekkja þig fleiri og það gerir jafnvel ekki neitt gagn að fela örið.“ Lupin var orðinn alvarlegur og Harry sléttaði ósjálfrátt hárið yfir örið. „Ég vil að þú gerir þér grein fyrir því hvað það þýðir. Það verður auðveldara fyrir drápara að þekkja þig, þeir vita líklegast nú þegar hvernig þú lítur út án gleraugna og með toppinn fyrir örinu, og þar með er erfiðara að vernda þig.
Harry, ég hef beðið þig þessa áður og þá hlustaðiru ekki en ég vona að þú hlustir og skiljir betur núna þegar þú ert eldri og hefur reynt meira: Ekki fara og leita uppi vandræðin. Gerðu það fyrir sjálfan þig og minningu foreldra þinna að fara varlega.“
Harry kinkaði undrandi kolli. Honum fannst Lupin ansi fljótur að skipta skapi þessa dagana og velti því fyrir sér hvort að tunglið hefði einhver áhrif á það. Hann reyndi að muna hvernær síðasta fulla tungl hafði verið og komst að þeirri niðurstöðu að það væri slétt vika síðan og því engin hætta á ferðum.
Þeir tróðu sér áfram leið að bókabúðinni og rákust í fólk og fólk rakst í þá. Harry tók eftir því að þegar fólk rakst á þá, sérstaklega ef það var með börn og rakst á Lupin, þá urðu þau oft skelfd eða reið á svipinn og flýttu sér burt. Hann sá líka að þetta virtist særa Lupin því hann gnísti tönnum og starði beint áfram ef þetta kom fyrir. Hann var að velta því fyrir sér hvort að hann ætti að spyrja út í þetta þegar tveir menn gengu ákveðnir að þeim.
„Remus J. Lupin?“ spurði annar.
„Já, það er ég,“ svaraði Lupin.
„Við erum frá Galdramálaráðuneytinu, nánar tiltekið frá Verndardeild galdraþjóðar gegn óvættum.“ Harry fann Lupin stífna upp. „Við þurfum að biðja þig um að fara héðan.“
„Ha?“ hrópaði Harry en Lupin ávítaði hann.
„Hvers vegna þarf ég að fara?“ andvarpaði hann svo dálítið beisklega.
„Okkur bárust uglur um það að það léki varúlfur lausum hala á Skástræti,“ svaraði annar mannanna.
„Og hér er aragrúi af börnum, sem gerir fólkið órólegt, þeim finnst þeim ógnað,“ bætti hinn við.
„Hvað er að ykkur!“ hrópaði Harry hneykslaður, „Það er vika síðan það var fullt tungl og engin hætta sem stafar af honum!“
„Harry…“ reyndi Lupin en Harry hlustaði ekki.
„Hann er bara venjulegur maður, hann er meira að segja að passa mig!“
Mennirnir tveir frá Galdramálaráðuneytinu kinkuðu kolli og sá hærri tók til máls:
„Við vitum þetta, við vinnum við það en fólkið hérna veit það ekki, það eina sem það sér er varúlfurinn sem gekk berserksgang í Hogwartsskóla fyrir rúmum tveimur árum.“
„Gekk berserksgang…“ Harry var agndofa og Lupin notaði tækifærið til þess að svara mönnunnum.
„Ég kem auðvitað með ykkur. Á tímum sem þessum búa allir við óvissu um það hverjum megi treysta og það þarf lítið til þess að allt fari í háa loft,“ sagði hann við Harry, „Og varúlfur er meir en lítið mál.“
„Lupin!“ kallaði Harry hneykslaður.
„Harry, klára þú bara að kaupa bækurnar sem þig vantar og við hittumst í kvöld á Leka seiðpottinum, allt í lagi?“
„A-allt í lagi. Jæja þá,“ stamaði Harry og horfði svo á eftir mönnunum tveimur ganga í burtu með Lupin á milli sín.
„Hæ, Harry. Hvað er í gangi?“
Hermione birtist við hlið hans og horfði á eftir mönnunum með honum.
„Það komu menn frá Galdramálaráðuneytinu og tóku Lupin burt,“ Harry gleymdi alveg að heilsa henni, “af því að fólk er búið að kvarta undan því að það væri mannýgur varúlfur á Skástræti. Og Lupin fylgdi þeim sallarólegur og sjálfviljugur eins og honum væri alveg sama!“ Harry baðaði út höndunum og lamdi óvart í stelpu sem var á leið hjá.
„Úps, fyrirgefðu!“
Hún sendi honum pirrað augnaráð en sagði ekkert. Hermione dæsti.
„Aumingja Lupin, það hlýtur að vera erfitt fyrir hann að vera það sem hann er en hann tekur því með sóma.“
„Já,“ sagði Harry og hristi höfuðið, „Ég skil ekki hvernig hann fer að því.“
„Heyrðu annars, ég sá glitta í eldrauða kolla áðan á leið þangað inn,“ hún benti, „og ég sé ekki betur en að þetta sé nýja búðin þeirra Freds og Georgs. Eigum við ekki að kíkja?“
Harry kættist allur við þessa hugmynd.
„Jú auðvitað! Ég var næstum búin að gleyma því að þeir væru byrjaðir með sitt eigið fyrirtæki.“
Saman gengu þau svo í þá átt sem rauðu kollarnir höfðu farið.