Þetta er fengið af síðu Önnu Heiðu. Grein eftir þennan neikvæða mann, Anthony Holden.

„Verið heima annan laugardag. Helstu götur allra borga verða troðnar foreldrum og börnum sem eru ekki að ryðjast út til að fá sér nýjasta leikfangið eða tölvuleikinn, heldur bók. Þið vitið, þennan gamaldags hlut með fullt af orðum prentuðum á skrjáfandi hvítar blaðsíður sem eru bundnar saman á milli harðra spjalda. Í flestum öðrum tilfellum væri þetta efni til að gleðjast yfir. Að bókin sé ekki dauð, lengi lifi bókin, o.s.frv. En satt að segja veltur það á bókinni. Ef fólk þyrptist að til að kaupa hina stórgóðu þýðingu Seamus Heaney á Bjólfskviðu, eða stórbrotna sögu Berlioz eftir David Cairn eða jafnvel mína eigin atburðaríku ævisögu Shakespeares, þá þætti mér tilefni til þess að opna kampavínsflösku og reisa fána að húni til heiðurs breskum bókmenntum." (Það skortir ekki á sjálfsálitið hjá honum - innskot AHP)

„En svo er ekki. Harry Potter og úrslitakeppnin í örlagaseið er frekar fyrirbæri en bókmenntaverk. Markaðssetningarfyrirbæri. Hefur Bloomsbury (þ.e. útgefandi HP á Englandi - innskot AHP) ekki selt nógu mörg eintök af fyrstu þremur bókum Rowlings án þess að þurfa að efna til forkynningar sem er eins og trúðaleikur? (Þetta þýði ég lauslega, Holden segir „worthy of a Wonderbra“ eða undrabrjóstahaldara og það er breskt orðatiltæki - innskot AHP). Sú leynd sem hvílir yfir efni bókarinnar hefur kynt undir eftirvæntingu almennings, svo og þær upplýsingar að ein söguhetjanna muni deyja. Engin kynningareintök hafa verið send út. Höfundurinn veitir engin viðtöl. Á útgáfudaginn mun höfundurinn ferðast í lest um landið til að undirrita bókina.“

„Látið nú ekki svona: af hverju er hún ekki seld sem bók og ekki blásin út eins og nýjasti geisladiskur Kryddpíanna? Kannski vegna þess að hún er í raun ekki svo góð. Ég kalla yfir mig reiði milljóna manna með þessari yfirlýsingu en það þarf ekki háleitan gleðispilli til að sjá hvað þessar bækur eru að gera bókmenntasmekk milljóna ungra lesenda.“

„Markaðsverð hlutabréfa í Bloomsbury hefur þrefaldast síðan Potter bættist á bókalista þeirra. Starfsmenn markaðssviðs fyrirtækisins eru að hugsa út slagorð og söluherferðir fyrir síðustu þrjár bækurnar (þær verða sjö alls - innskot AHP) og fela sig bakvið óyggjandi hugsjónayfirlýsingar eins og: „Anything that gets children reading has to be A Good Thing.“

„Mér er sama þótt fólk kalli mig ofur-Mugga, en ég er ekki sammála. Það er áreynsluminni heilaleikfimi að lesa Harry Potter bók en að horfa á Nágranna í sjónvarpinu. Og þeir þættir fjalla að minnsta kosti um raunveruleikann. Þetta eru einfaldar barnabækur, Disney-teiknimyndir færðar í orð og ekkert annað. Það er áhugaverð mótsögn að því vinsælli (eða söluhærri) sem fullorðinsbók er, t.d. bækur Barböru Cartland eða Jeffrey Archer, þeim mun ólíklegra er að hún teljist til fagurbókmennta, en hins vegar þegar barnabók nýtur vinsælda, þá lofar bókmenntafólk hana í bak og fyrir. Hvað Harry Potter varðar er þetta vandræðaleg staðreynd.“

„Ég hefði sennilega aldrei lesið neina af barnabókum J.K. Rowling ef þess hefði ekki verið krafist af mér (og ég fengið greitt fyrir það) að lesa þriðju bókina, Harry Potter og fangann frá Azkaban, þar sem ég sat í dómnefnd Whitbread-verðlaunanna. Hún kom mér gífurlega á óvart. Í upphafi var ég ákafur að komast að því hvað hafði valdið svo miklum usla og hlakkaði til að ferðast á töfrateppi um frumlegan ævintýraheim í ætt við Lísu í Undralandi, Treasure Island eða Peter Pan, sem vekja kitlandi spurningar um lífsgildi fullorðna fólksins frá sjónarhorni barnsins. Þess í stað þurfti ég að pína mig til að lesa allt til enda drepleiðinlega og klaufalega skrifaða útgáfu af Billy Bunter á galdraprikinu sínu.“

„Margir dómnefnarmanna voru mér sammála. Í samanburði við The Illustrated Mum eftir Jacqueline Wilson - sem er þverskurður af raunveruleikanum og vekur áhuga hjá ungum lesendum á þeirri flóknu veröld sem þeir lifa í - var saga Harry Potter prédikunarsaga, ákaflega íhaldssöm, mikil stæling á öðrum bókum, og niðurdrepandi „nostalgísk“ eftir því gamla góða Bretlandi sem var aldrei til nema í Greyfriars and St Trinian's (breskir íhaldssamir heimavistarskólar - innskot AHP). Og við vorum, þegar allt kom til alls, að velja bók til verðlauna fyrir innihald hennar, ekki markaðssetningu.“

„Þar sem aðrir létu orð mín í luktu herbergi Whitbread-dómnefndarinnar, sem á að vera bundið þagnareið, leka til fjölmiðla, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að ég upplýsi að Wilson var mjög nálægt því að sigra Rowling í barnabókaflokknum - og þar með að eiga möguleika á að verða Bók ársins - þar til reglunni um meirihluta atkvæða var skyndilega breytt á miðjum fundi. Flestir dómnefndarmenn völdu Potter í annað sætið og þess vegna lenti hún naumlega í fyrsta sætinu, og komst þar með í úrslitakeppnina um 20.000 punda aðalverðlaunin.“

„Heildarreglum Whitbread hafði einnig verið breytt áður en keppnin fór fram þannig að vinningshafinn í barnabókaflokknum gæti nú átt möguleika á aðalverðlaununum (Bók ársins) ásamt hinum bókunum, þ.e. vinningshafanum í flokki fagurbókmennta, sögulegra verka og ljóða. Þess vegna vissum við að við gætum átt von á enn einu markaðsbragðinu frá aðstandendum Harry Potter.“

„En þetta var ekki það sem hvatti mig til þeirra mótmæla sem slegið var upp í fjölmiðlum næsta dag. Það var forundrun mín yfir því að einhverjum skyldi detta í hug að setja verk Rowling samhliða verkum Heaneys eða Cairns. Ég vildi ekki láta nafn mitt tengjast þess háttar brjálæði og lét þess getið. Allt fjölmiðlafárið fór af stað.“

„Þar sem ég lá í valnum (en áður en ég var nefndur „montrass“ í sjónvarpi) kom mér hræðilega á óvart að heyra tvo heimsþekkta dómnefndarmenn (Jerry Hall og Imogen Stubbs) lýsa því yfir hvað börnin þeirra hefðu gaman af því að lesa Harry Potter bækurnar. Ég spurði með þjósti hvort börnin þeitta ættu að velja Bók ársins. „Þið ættuð að lesa Bjólfskviðu fyrir þau,“ sagði ég hvassyrtur til að egna þeim. „Efni hennar er mjög svipað, hetjur sem fást við dreka og allt það, en rithátturinn er miklu skemmtilegri.“ Ég segi Hall og Stubb það til hróss að þau voru mér sammála í kurteisisskyni og lofuðu að lesa Heaney fyrir börnin sín og á endanum leyfðu þau honum að njóta sigursins. Varla svo.“

„Þessa helgi var breska þjóðin nærri því að fá sameiginlegt taugaáfall þegar sunnudagsblöðin deildu um að hvort við værum Bretland Bjólfskviðu eða Bretland Harry Potter. Að sjálfsögðu erum við hvorugt. Við tilheyrum landi þar sem læsi er á undanhaldi og við erum stöðugt á leiðinni niður á við vegna þeirra sem halda að okkur hugsanalausri afþreyingu í stórum stíl. Vinsældir Harry Potter eru bara enn ein sönnunin um þessa forheimskun („dumbing down“) sem Murdoch stendur fyrir og það sem Hensher kallar „smábarnaaðlögun fullorðinskúltúrs“ („the infantilisation of adult culture“).“

„Ég beit á jaxlinn og píndi mig í gegnum fyrstu tvær bækurnar áður en ég felldi dóm yfir þeim og ég var agndofa yfir vinsældum þeirra. Fyrstu þrjár bækurnar hafa selst í 21 milljón eintaka í Bandaríkjunum og aðrar 7 milljónir í Bretlandi og öðrum enskumælandi löndum. Ég óska Joanne Rowling velgengni, en hún hefur þegar - með hjálp markaðsfræðinga - aflað auðæfa sem áætluð eru um 15 milljónir sterlingspunda (hátt á annan milljarð íslenskra króna) og þessi auðæfi munu tvöfaldast þegar Steven Spielberg gerir myndirnar (Holden veit ekki betur - innskot AHP).“

„Mér hlýnar um hjartaræturnar að sjá hvað hún tekur frægðinni með mikilli hógværð og heldur sig til hlés eins og henni er mögulega unnt. Hún hefur auðsjáanlega einnig verið talin á að láta sig hafa þá vanvirðingu að fela sig á bakvið upphafsstafi sína til að hlífa ungum lesendum af karlkyni gegn þeirri niðurlægingu að láta sjást til sín lesa bók eftir kvenmann.“

„Og mig grunar að það sé ekki henni að kenna að goðsögnin um Potter hafi tekið þennan háskólamenntaða rithöfund af millistétt sem valdi að yfirgefa portúgalskan eiginmann sinn og rangfært hana sem yfirgefna verkakonu og einstæða móður sem vann hörðum höndum í skosku risherbergi.“

„Ég er hins vegar á móti þessum almenna og málfræðilega ranga ritstíl sem gefur mér ekkert nema höfuðverk og ég fæ það á tilfinninguna að góðu tækifæri hafi verið kastað á glæ. Ef Rowling býr yfir þeim einstæða eiginleika að eiga greiðan aðgang að sál unga fólksins vildi ég bara óska þess að hún hefði nýtt sér hann betur. Persónur hennar eru allar svart-hvítar en raunverulegt fólk er það ekki. Söguþráðurinn er fyrirsjáanlegur, spennan er í lágmarki og væmnin tröllríður hverri síðu. (VARÐ Harry, eins og svo margar söguhetjur í barnabókum, að vera enn einn munaðarleysinginn?)“

„Enn leiðinlegri er þessi aðferð hinnar útsjónarsömu einstæðu móður, sem var á atvinnuleysisbótum á meðan hún skrifaði fyrstu bókina, að senda þessa týpísku „Molesworthian“ hetju (hér vísar Holden til aðalhetjunnar í einni vinsælustu bresku barnabók síðari tíma, Wind in the Willows - og hún er voðalega „bresk“ - innskot AHP) í gamlan og góðan heimavistarskóla fyrir útvalda. Hvers vegna í ósköpunum gat Hogwarts (nafnavalið sýnir takmarkað hugmyndaflug hennar) ekki verið skóli fyrir almenning eða gamaldags grunnskóli - svona skóli eins og flestir af þessum milljónum ungra lesenda gætu þekkt og skilið? Hvers vegna, mitt í þessari útslitnu hefð enskra barnabókmennta frá því fyrstu heimavistarsögurnar komu út, varð hún að senda Harry í fornfálega heimavist, þar sem löngu útdauðar hefðir eins og stigskipt kerfi (með undarlegum nafngiftum) og heimabruggaðar íþróttir með óskiljanlegum reglum eru við lýði?“

„Meginhluti Harry Potter sagnanna hefðu allt eins vel getað verið skrifaðar á sjötta áratugnum eins og Suzanne More bendir á: „Hvaða nútímabarn þekkir þú sem borðar „rock cakes“ (þýðandi HP á íslensku kallar þetta „jólaköku“ en hún er ekki svona hörð undir tönn - þetta eru frekar smákökur - innskot AHP) og talar um skóhlífar? Engin furða þótt Bandaríkjamenn séu hrifnir af henni.“ Gamla ævintýralandið England, með alvöru Tudor-súlum og drottningu sem ferðast um í gylltum hestvagni: það er ekki bara eins og umheimurinn lítur okkur heldur eins og Potterítar vilja láta okkur líta út.“

„Þetta eru nokkrar af ástæðunum fyrir því að ég sagði, bæði fyrir og eftir Whitbread-dóminn, að sigur Harry Potter „myndi senda heiminum skilaboð, eins og einveldið og „the Dome“ (sennilega nýja hvolfbyggingin í London - innskot AHP), að Bretland sé land sem neiti að vaxa úr grasi og taka sjálft sig alvarlega.“ Ég sagði ekki, eins og menn halda fram, að barnabækur geti aldrei talist til mikilla bókmenntaverka. Auðvitað geta þær það ef þær eru vel skrifaðar, reyna á hugmyndaflug lesandans og opna ungar sálir fyrir töframætti orða.“

„Þrátt fyrir langa skugga hinna ýmsu varmenna í Harry Potter bókunum, er heimurinn sem þær bjóða upp á kunnuglegur og af þeim sökum öruggur yfirferðar ungum lesendum. Þegar hætta er yfirvofandi er spennu þeirra haldið í skefjum með vissunni um að dyggðin sigrar að lokum - engar hættur í anda Roald Dahl hjá Rowling - og hugir þeirra haldast ómengaðir af umhugsunarhléum í atburðarásinni sem gætu hvatt þau til að meta rangt eða rétt í því sem er að gerast.“

„Veröld Potters býður ekki upp á margt sem heillar heimspekinga hvað siðfræði varðar. Hinir látnu foreldrar Harrys eru óviðjafnanlega góð. Hin illa móðursystir og maðurinn hennar eru óumdeilanlega ill, svo og yfir-illmennið Voldemort. Með sínu einfalda málfari enda bækurnar með því að lesa sig sjálfar. Þær kenna börnum ekkert um þá unun sem bókmenntir geta veitt eða hvetja þau til að efast um svokallað öryggi í daglegu lífi þeirra.“

„Barnabókmenntir eru það sem þær eru: uppfinning annars heims sem er tælandi, og sýnir, ef vel er gert, sannleikann um hegðun fullorðinna séðan með augum sakleysisins. Harry Potter hefur ekkert af þessum yfirveraldlegu ævintýrum að bjóða. Hann er barnahetja hins menningarsnauða nútíma sem setur flóttann undan veruleikanum ofar upplýsingunni.“

„Ég vildi óska þess að nýjasta bindi Rowlings afsannaði þessa kenningu mína, að hún hafi fangað athygli lesenda sinna með því sjónarmiði eingöngu að hefja þá - á miðpunkti sögunnar - frá ömurlegum raunveruleikanum sem þau eru föst í upp í undraveröld þar sem sál þeirra fer á flug. Samkvæmt öllum sönnunargögnum sem þegar hafa verið sýnd er þetta fjarlæg hugmynd. Þegar Harry kemst á táningsaldur - bókaflokkurinn nær yfir sjö unglingsár - breytist hann vafalaust í bólóttan, lítinn galdramann sem fær stúlkuna á endanum.“

„Við þá 150 þúsund fullorðinna sem borguðu aukalega til að fá bókina í menningarlegri kápu til að þurfa ekki að skammast sín fyrir að lesa hana á almannafæri (eða jafnvel heima fyrir), langar mig að segja „get a life“. Mig langar að vitna í orð George Walden fyrir ykkur: „Harry Potter bækurnar eru það sem þær eru: sögur fyrir börn. Ólíkt Lísu í Undralandi eða Just William eða Simpson-fjölskyldunni, sem allir aldurshópar geta notið þar sem þær eru vel skrifaðar og rista djúpt, rista Harry Potter bækurnar mjög grunnt“.“

„Fyrsta bókin hefst á setningunni: „Dursleyhjónin á Runnaflöt númer fjögur hreyktu sér gjarnan af því að vera sérdeilis og algerlega eðlilegt fólk“ (á ensku: „Mr and Mrs Dursley of number four, Privet Drive, were proud to say that they were perfectly normal, thank you very much“). Hvaða fullorðinn einstaklingur sem hrekkur ekki í kút þegar hann heyrir orðin „thank you very much“ er sennilega áskrifandi að Beano með uppáhaldsteppið sitt í fanginu. Það er allt í lagi að komast í samband við barnið innan í sér en að þrjóskast við að leggja til hliðar þá hluti sem tilheyra barnæskunni - eins og önnur metsölubók benti á fyrir löngu - er annað mál.“

„Það eina sem maður getur óskað eftir er að þær milljónir ungra aðdáenda sem hafa alist upp við Harry Potter eyði ekki því sem eftir er lífsins sitjandi föst í eins konar tímaleysi. Það er, eins og fullorðins höfundur orðaði það einhvers staðar, annar heimur þarna úti.“

Meiri karlremban maður sá. Vil endilega heyra álit hinna hugarana á greininni, kveðja, sverrsi.