I ran like hell faster than the wind
U-18 hvíldardagur
Í dag var frí frá keppni hér í Kína, en það breytti engu um það að menn fóru snemma á fætur, því ferðinni var heitið á Kínamúrinn strax eftir morgunmat. Þegar þangað kom var tekið til við að ganga upp og segjast verður einsog er að þetta var heljarinnar puð. Sumir leikmenn sögðu að þetta væri verra en verstu tröppuæfingar. Þessi rúmlega 6.000 kílómetra veggur er náttúrulega “algjör bilun” einsog einhver komst að orði. Menn voru samt ánægðir með að hafa komið á þetta mikla mannvirki og eitthvað var verslað af minjagripum. Uppúr klukkan tvö vorum við komnir heim aftur og þá var farið í hádegismat og síðan var fundur með þjálfurum og leikmönnum. Eftir það var tekin hvíld en uppúr klukkan sex var farið á stutta æfingu og síðan heim á hótel í kvöldmat. Á meðan sátu fararstjóra fund með mótshöldurum og fulltrúum alþjóða íshokkísambandsins þar sem farið var yfir eitt og annað. Í þetta sinnið voru menn fljótir að hespa þessu af, þvi fundurinn tók ekki nema um tvær klukkustundir. Eftir matinn fór liðið á herbergi til að slappa af og svo lá leiðin í háttinn. Þjálfarar ákváðu að sleppa morgunæfingunni í fyrramálið og fara þess í stað í gönguskokkferð í garð sen er nálægt skauthöllinni. Á morgun er mjög svo þýðingarmikill leikur þar sem allt verður lagt undir til að sigur náist. Leikurinn hefst klukkan 16.30 að staðartíma, þ.e. þremur og hálfri stundu fyrr enn fyrri leikir okkar. Við munum að sjálfsögðu reyna að koma fréttum af gangi mála hér á heimasíðuna. Kveðja frá Kína.