Narfamenn voru eilítið ryðgaðir í upphafi leiks, pínu stirðir og utangátta enda langt síðan sumir höfðu stígið í skautana. Mánuður var liðinn frá síðasta leik og menn dottnir úr “formi”. Ekki komust allir í upphitun t.d. Gulli markmaður sem mætti svellkaldur á ísinn og hafði ekki séð pökk í háa herrans tíð. Af þeim sökum má segja að fyrsta lota hafi verið upphitun hjá Narfanum enda lentum við tveimur mörkum undir, staðan 2 – 0 eftir 1. lotu.
Á milli lota slökuðu menn á, ræddu landsins gagn og nauðsynjar og gæddu sér á sælgæti. Gulli var með bland í poka sem gekk á milli manna og gerði gríðarlega lukku. Inn á ísinn steig nýtt og ferskt lið og nú orðið vel upphitað og smurt. Það er skemmst frá því að segja að Björninn sá aldrei til sólar í þessum leikhluta og voru hreinlega yfirspilaðir af léttleikandi Narfamönnum. Narfi vann lotuna 4 – 0 með þremur mörkum frá Sigurði Sigurðssyni og einu frá Halli Árnasyni. Mark Halls kom þegar 8 sekúndur voru eftir af lotunni en þá hafði pökkurinn borist til hans úr varnarsvæði Narfa og það var ekki að sökum að spyrja, Tasmaníudjöfullinn setti í spólgírinn og tættist í átt að hinum finnska markverði Bjarnarmanna sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, fyrr en pökkurinn söng í netinu og Hallur var næstum því farinn í gegnum rammann fyrir aftan markið.
Staðan var því orðin 2 – 4 þegar 3. lota hófst. Narfi hóf lotuna í powerplay en það dugði skammt því Bjarnarmenn gerðu sér lítið fyrir og minnkuðu muninn í eitt mark. Það var svo fyrst og fremst úthaldið sem réði úrslitum í lotunni og Narfi bætti í frekar en hitt á meðan Bjarnarmenn virkuð þreyttir og þungir. Það voru helst hin útlenska þrenning Nordin, Zak og Ala-Lathi sem sýndu einhverja spretti en þeir áttu hreinlega við ofurefli að etja.
James Devine og JR Jónsson bættu við tveimur mörkum fyrir lok leiksins og lokastaðan því 6 – 3. Narfi stillti upp tveimur línum aldrei þessu vant; önnur línan var skipuð Stefáni Grétari, Sigurði Sigurðssyni og Halli Árnasyni í framlínu og Elvari Jónsteinssyni og Sigurði Sveinmarssyni í vörn. Hin línan var skipuð þeim Jóni Ragnari Jónssyni, James Devine og Helga Gunnlaugssyni í framlínu og Héðni Björnssyni og Erlingi Sveinssyni í vörn. Að gamni voru slegnar saman tvær meðaltölur; Meðalþyng liðsins er 86kg og meðalaldur 29 ár - gegnheilt lið svo ekki sé meira sagt.
Það er óhætt að segja að Narfi kunni vel við sig í Egilshöll en nú höfum við spilað þar 6 leiki í Íslandsmótinu frá stofnun Narfa og höfum unnið 3 leiki – 50% hlutfall er ekki slæmt fyrir byrjendur. Þessi sigur var sérstaklega sætur fyrir Narfamenn ekki síst þar sem okkur hafa verið sendar kaldar kveðjur á heimasíðu Bjarnarins í vetur, ummæli líkt og;
Allt loft virðist nú úr fyrirbærinu Narfa (…) Lítil innistæða virðist hafa verið fyrir því að stofna annað íshokkílið á Akureyri (…) Menn spyrja sig því um ástæður þess að rokið var til og annað lið sett á stofn á Akureyri.
Já svo mörg voru þau orð. Það er spurning að hverju Bjarnarmenn spyrji sig núna hmmm…
Tekið af www.narfinn.tk