SR - SA 3 - 5 (1-2)(2-1)(0-2)
Fyrsta tap SRinga á leiktíðinni var staðreynd fyrr í kvöld í Skautahöllinni í Laugardal þar sem að þeir tóku á móti SA.
Áður en 10 mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta voru SA menn búnir að skora 2 mörk og staðan 2-0 nokkuð gegn því sem búist var við. SR liðið gerði sig sekt um sofandahátt og kæruleysi því að bæði þessi mörk komu eftir slæm varnarmistök þar sem að varnarmenn SR sendu beint á andstæðingana inn í eigin varnar svæði. Fyrst þakkaði gamli refurinn #9 Clark McCormic pent fyrir sig og skoraði á 2 mínútu og síðan #25 Lubomir Bobik á níundu mínútu. Eftir vandræðalega byrjun var eins og SRingar væru fyrst að uppgötva að leikurinn væri hafin og upphitun búin þegar 10 mínútur voru búnar af leiknum. Pressa þeirra fór sívaxandi og lá spilið nokkuð á norðanmönnum það sem eftir lifði af fyrsta leikhluta. Á 15. mínútu náðu svo SRingar að skora með marki frá #22 Andy Luhovy. Staðan því eftir fyrsta leikhluta 1-2 fyrir SA.
Sringar byrjuðu annan leikhluta með miklum krafti og var allt annað að sjá til liðsins nú, #25 Zednik Prohazka skoraði jöfnunarmark þegar aðeins 13 sekúndur voru liðnar af öðrum leikhluta. SR kemst svo yfir á 35 mínútu með marki #15 Mirek Krivanek, svo virtist sem að að SR liðið væri að taka leikinn i sínar hendur og var um tíma nánast einstefna á mark SA. Þegar líða fór á leikhlutann var eins og SR liðið væri búið að sætta sig við eins marks forskot og greinilegt var að það slakaði verulega á takinu sem þeir höfðu á leiknum. Þá áttu norðanmenn nokkrar snarpar og stórhættulegar sóknir sem að lokum skiluðu þeim jöfnunarmarki sem að #9 Clark McCormik skoraði 19 sekúndum fyrir lok leikhlutans. Staðan eftir þennan hluta var 3-3 verulega kaflaskiptur leikur.
Í þriðja leikhluta var nokkuð jafnræði með liðunum þar til á 50 mínútu að #25 Lubomir Bobik skoraði 4 mark Akureyringa. Við þetta kom nokkuð los á leik SR liðsins og það gerði sig sekt um að hætta að spila eins og lið og helst leit út fyrir að einstaklingar í liðinu hefðu á því trú að þeir gætu klárað þetta upp á eigin spítur. Á 56 mínútu skoraði síðan #21 Marían Melus 5 mark SA og innsiglaði þar með fyrsta sigur þeirra á SR á þessari leiktíð og ljóst er að einhverjir norðanmenn anda nú léttar. Nú var eins og SR liðið vaknaði af blundi og eftir að liðið hafði tekið leikhlé þegar 2,5 mínútur voru eftir af leiknum dróg þjálfari SR, markmann liðsins út úr leiknum og lék með 6 útispilara á móti 5 útispilandi Akureyringum. SR liðið pressaði stöðugt en tókst ekki að skora. SA fékk 3 ágætis tækifæri til þess að skora með langskotum á autt mark SR án árnangurs. Loka úrslit urðu því SR - SA 3 - 5 (1-2)(2-1)(0-2).
Greinilegt er að innkoma þeirra Jans Kobezda og Birkis Árnasonar í lið SA styrkir varnarleik liðsins verulega og ljóst er að nokkuð þungur skriður virðist komin á norðanmenn. SRingar verða hinsvegar að leita skýringa á tapinu í eigin ranni, verulega kaflaskiptur leikur hjá þeim og á köflum kæruleysislega leikinn. Leikurinn var hraður og skemmtilegur á að horfa.
Eftir leikinn nutu leikmenn beggja liða, starfsfólk leiksins, dómarar og fjölmiðlamenn veitinga í boði SR sem að foreldrafélag þeirra sá um. Hangikjöt, kartöflur og uppstúfur, baunir, rauðkál, laufabrauð og drykkir til þess að skola þessu öllu niður. Skemmtileg jólastemming á síðasta heimaleik félagsins fyrir jól og félaginu til sóma.
Leikurinn í tölum:
Mörk/stoðseningar SR: #15 Mirek Krivanek 1/1,#25 Zednik Prohazka 1/1, #22 Andy Luhovy 1/0, #10 Gauti Þormóðsson 0/1, #14 Stefán Hrafnsson 0/1.
Mörk/stoðsendingar SA: #9 Clark McCormik 2/0, #25 Lubomir Bobik 2/0, #21 Marian Melus 1/0, #7 Einar Guðni Valentine 0/1, #24 Björn Már Jakobsson 0/1, #6 Steinar Grettisson 0/1
Skot á mark: SR náði að skjóta 41 sinni á mark SR og skora úr því 3 mörk sem gerir 7,31% nýtingu. SA náði að skjóta 22 sinnum á mark SR og skora úr því 5 mörk sem að gerir 22,72% nýtingu.
Refsingar SR: 1x10 mínútur samtals
Refsingar SA: 8x2 mínútur eða 16 mínútur samtals.
Tekið af heimasíu SR