12. gr. almennra hegningalaga
1. mgr. Það verk er refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.
2. mgr. Hafi maður farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar, og ástæðan til þess er sú, að hann hefur orðið svo skelfdur eða forviða, að hann gat ekki fullkomlega gætt sín, skal honum ekki refsað.
Samkvæmt 1. málsgrein 12. gr. má ekki beyta vörnum sem eru greinilega hættulegri en árásin og væntanlegt tjón gefur til kynna. Þá þarf að beyta vörnum áður en árásin á sér stað eða á meðan henni stendur, ekki eftir árásina, eins og maður hefur séð í sumum leikjum. Til að einfalda þetta frekar þá má t.d. ekki beita fyrir sér vopni ef um óvopnaða árás er að ræða og ekki kýla ef manni hefur verið ýtt o.s.frv. Neyðarvörnin má semsagt ekki ganga lengra en árásin sjálf.
Það er samt hugsanlega hægt að notast við 2. mgr. og bera fyrir sig að maður hafi orðið hræddur og forviða, en þá þurfa menn að sýna fram á það þannig að ekki leiki vafi á, t.d. ef maður sem er 200 kg. og rúmir 2 metrar ráðist á 50 kg. písl, þá mætti segja að trúverðugt sé að píslin hafi orðið hrædd.
Hafa ber í huga að sönnunarbyrgðin getur verið mjög erfið ef menn beita fyrir sér neyðarvörn. Þess ber að geta að neyðarvörn á einnig við um ærumeiðingar og meiðyrði. T.d. ef einhver kallar þig öllum illum nöfnum getur þú svarað í sömu mynt á sama eða svipuðum vettvangi en aldrei beitt líkamlegu valdi.
Svona gæti maður haldið áfram að útskýra sjálfsvörnina en ég bara nenni því ekki. Vona að þetta hjálpi einhverjum og jafnvel dragi úr þessum leiðinda slagsmálum í leikjum.
Þá hefur einnig heyrst að í stað þess að bera fyrir sig sjálfsvörn hafi menn einfaldlega kært líkamsárásir í leikjum til lögreglu. Hafa menn jafnvel fengið á sig dóma sem leiðinlegt er að hafa á bakinu það sem eftir er ævinnar.
Svona í gamni læt ég fylgja með 15. og 16. grein sömu laga. Kannski eiga þær við einhverja aðila í íshokkíinu en ég vona ekki:
15. gr. Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.
16. gr. Nú var maður sá, sem verkið vann, andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðilegs misþroska eða annarrar truflunar, en þetta ástand hans er ekki á eins háu stigi og 15. gr. getur, og skal honum þá refsað fyrir brotið, ef ætla má eftir atvikum og eftir að læknisumsagnar hefur verið leitað, að refsing geti borið árangur.
„We are all in the gutter, but some of us are looking at the stars.“