Tekið af heimasíðu SA (www.icehockey.is)
Ísland og Tyrkland áttust við í dag í opnunarleik 3. deildar heimsmeistarakeppninnar í íshokkí U18. Leikurinn hófst kl. 15:30 að íslenskum tíma í Ólympíuhöllinni í Sarejevo. Tyrkir voru sterkaði aðilinn í upphafi og náðu fljótt 2ja marka forystu á meðan okkar menn virkuðu óöryggir og hikandi.
Þegar líða tók á lotuna fór að færast meira líf í íslenska liðið og náðu þeir Viktor Höskuldsson og Birgir Hansen að jafna leikinn fyrir lok lotunnar.
Í 2. lotu var allt annað að sjá til íslenska liðsins og tóku þeir fljótt öll völd á ísnum. Gauti Þormóðsson skoraði í tvígang án þess að Tyrkir næðu að svara fyrir sig og því staðan orðin 4 – 2 þegar 3. og síðasta lota hófst.
Í síðustu lotunni skoraði Einar Guðni Valentine eftir sendingu frá Sturlu Magnússyni og reyndist þetta síðasta mark leiksins, lokastaðan 5 – 2 fyrir Ísland. Næsti leikur íslenska liðsins er á laugardaginn kl. 15:30 og þá eru mótherjarnir Ísraelar.