“Tekið af icehockey.is”

“Í gærkvöldi mættust kvennalið Bjarnarins og SA í æsispennandi viðureign í skautahöllinni í Laugardalnum. Rakel Gunnarsdóttir kom Bjarnarstúlkum yfir eftir sendingu frá Sigrúnu Agötu strax á 4. mínútu og reyndist þetta eina mark lotunnar þrátt fyrir góð marktækifæri á báða bóga.


Í 2. lotu var áfram allt í járnum en SA-stúlkum tókst svo að jafna á 14. mínútu lotunnar en þar var að verki Sólveig Smáradóttir. Rúmri mínútu síðar náði Flosrún Vaka aftur forystunni fyrir heimamenn með fallegu marki en SA jafnaði leikinn fljótt aftur með marki frá Huldu Sigurðardóttur eftir sendingu frá Sólveigu.


Staðan var því 2 - 2 þegar leikmenn stigu inn á ísinn fyrir 3. og síðstu lotu og gríðarleg spenna í loftinu. Fyrsta mark lotunnar kom ekki fyrr enn á 11. mínútu þegar Jóhann Sigurbjörg Ólafsdóttir skoraði fyrir SA eftir góðan einleik og kom SA yfir í fyrsta skiptið í leiknum. Jónína Guðbjartsdóttir jók svo muninn skömmu síðar, en vegna mistaka á leikskýrslu var markið dæmt af, en Jónína var ekki skráð með rétt númer.


Bjarnarstúlkur neituðu að gefast upp og skoruðu tvö mörk með stuttu millibili og náðu forystunni aftur með mörkum frá Rakel Gunnarsdóttur og Sigrúnu Agötu. Jóhanna Sigurbjörg jafnaði svo leikinn fyrir gestina þegar rétt um tvær mínútur voru eftir af leiknum, en fleiri urðu ekki mörkin og niðurstaðan því jafntefli 4 - 4.


Úrslitin á Íslandsmótinu ráðast um næstu helgi þega SA tekur á móti SR í Skautahöllinni á Akureyri, í síðasta leik tímabilsins í kvennadeildinni. Takist SA að vinna tryggja þær sér Íslandsmeistaratitillinn þriðja árið í röð, en SA og Björninn er nú jöfn að stigum, hvort lið með 5 stig.


Mörk / stoðsendingar


Björninn: Sigrún Agata Árnadóttir 1/2, Rakel Gunnarsdóttir 2/0, Flosrún Vaka 1/0
SA: Jóhanna Sigurbjörg 2/0, Sólveig Smáradóttir 1/1, Hulda Sigurðardóttir 1/0, Steinunn Sigurgeirsdóttir 0/1.


Brottvísanir


Björninn: 24 mín
SA: 14 mín
Aðaldómari: Viðar Garðarsson”