Úrslitin ráðast í kvennahokkí og reikna ég með jöfnum og spennandi leik milli Birnanna og SA.
Birnurnar eru á heimavelli, nýbúnar á skautanámskeiði og með sjálfstraustið í lagi eftir það og jafntefli við Oldboyz.
Þar eru alltaf að verða fleiri stelpur sem skauta vel og Sergei stillir sennilega upp þéttri vörn með fljótar stelpur frammi sem geta sótt hratt.
SA stelpurnar hafa æft vel í 2-3 ár, fá meiri ístíma en birnur og SR stelpur til samans og skilja leikinn vel.
Liðið er þétt en Hulda Sigurðardóttir stendur uppúr enda sennilega spilað meira en allir aðrir leikmenn deildarinnar til samans og gæti verið móðir þeirra flestra (ýkjur).
Einnig hefur Guðrún Kristín verið í markheppnara lagi í vetur, gott ef hún er ekki markahæst í deildinni og á hennar leik má sjá hvað óþrjótandi áhugi og vinnusemi getur skilað miklu.
Flosrún Vaka (vona að ég fari rétt með nafnið) ber uppi leik Birnanna, skautar vel og er banvæn nálægt markinu, sannkölluð martröð fyrir varnarmenn.
Ég reikna með að SA spili af miklum þunga og að leikurinn fari mikið fram í varnarsvæði Birnanna. Það telur þó ekki þegar upp er staðið og mín tilfinning er sú að Birnurnar skori sín mörk í hröðum sóknum og nái að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn á markamun.
Ég vona að liðin spili fleiri leiki á næsta ári og að SR haldi áfram að styrkjast, þá mega hin liðin fara að vara sig því hvergi er áhuginn meiri þessa dagana.
Góða skemmtun í kvöld.
massi