Á föstudagskvöldið(12apríl) fór fram 3. og jafnframt síðasti leikur úrslitakeppni Íslandsmótsins í íshokkí. Keppt var í Skautahöllinni í Reykjavík og var umgjörð og skipulagning Skautafélags Reykjavíkur öll til fyrirmyndar. Bærilegur fjöldi mætti í húsið, leikskrá gefin út, plötusnúður ráðinn og stutt “show” í upphafi leiks gerðu viðburðinn pínulítið sérstakan og eftirminnilegan. Árni Albertsson var kynnir og fórst verkið vel úr hendi, kynnti keppendur og upplýsti áhorfendur um gang leiksins ásamt því sem hann reyndi að skapa stemmningu á pöllunum.
Já það var allt vel skipulagt og allt gekk upp… nema leikur liðsins, því þeir voru skotnir í kaf strax á upphafsmínútum leiksins. Kenny litli Corp var búin að skora þrjú mörk áður en 10 mínútur voru liðnar af leiknum og lofttæmdi við það SR-ingana sem sáu aldrei til sólar í leiknum. Staðan var orðin 5 - 0 eftir fyrsta leikhluta og áhorfendum jafnt sem keppendum var þegar orðið ljóst hvert stefndi og var nánast um formsatriði að ræða að ljúka leiknum.
Í 2. leikhluta kom eina mark sunnlendinganna og þar var að verki Ingvar Þór Jónsson en það dugði skammt, Íslandsmeistararnir áttu eftir að skora 6 mörk áður en yfir lauk og stærsti sigur Skautafélags Akureyrar á Skautafélagi Reykjavíkur í vetur í höfn, lokastaðan 11 - 1.
Líkt og venjulega í leikjum vetrarins hitnaði aðeins í kolunum eftir því sem leið á leikinn og áttu einhverjir í vandræðum með að hafa stjórn á hormónaflæðinu og voru norðanmenn þar sínu verri - …og gilti einu í hvoru liðinu þeir voru. Líkt og hefð er orðin fyrir lenti Stefáni stríðsmanni hinn rauða og Gústa danska saman og lauk þeim viðskiptum þannig að sá síðarnefndi rak stríðsmanninum rokna högg í höfuðið með kylfunni, mikið þarfa verk það og ekki laust við að Stefán sé aðeins skárri á eftir. Kenny Corp, fóstbróðir og kviðmágur stríðsmannsins misbauð framferði þess danska og hugðist hefna að víkingasið og úr varð ein alsherjar sápuópera sem enn sér ekki fyrir endann á.
Kenny og Gústi fengu sturtuna og sömu leið fór Halli Vilhjálms fyrir að gefa Jónasi Rafni fautalega á kjaftinn. Mikil umferð var í refsiboxinu á þessum tímapunkti og voru það, eins og fyrr sagði, aðallega Akureyringar sem þangað voru sendir - langflestir verðskuldað nema kannski hann Erlingur Sveinsson sem fór sjálfviljugur í boxið án þess að hafa hlotið dóm og var rekinn þaðan út af dómaranum. Hvað eftir annað kom upp sú staða að SR-ingar voru 5 á móti 3 SA-ingum, en allt kom fyrir ekki, pökkurinn fór ekki framhjá Kobezda eða Bigga og m.a.s. gerðu SA-ingar gott betur og skoruðu 4 ef ekki 5 mörk einum til tveimur færri.
Þar sem leikskýrslan liggur ekki fyrir á þessu stigi er ekki hægt að birta nákvæmar upplýsingar um gang leiksins hér en mörk SA skoruðu; Kenny Corp 4, Tibor Tatar 2, Jón Gíslason 2, Sigurður Sigurðsson 1, Rúnar Rúnarsson 1 og Haraldur Vilhjálmsson 1.