Dagur 1 í Tékklandi
Leikur dagsins var sennilega Finnland-USA (Group B). Mikilvægur leikur fyrir bæði liðin, því þau eru bæði líkleg til að komast upp úr riðlinum, og því stig úr þessum leik mkilvæg. Finnar blóðþyrstir eftir arfaslakt gengi (að eigin mati) í síðustu stórmótum, en Kanarnir einnig staðráðnir í að sýna að þeir geta betur en þeir gerðu í Finnlandi í fyrra. Kanarnir með sterkara lið á pappírunum og hafa töluverða yfirburði í stærð og þyngd í samanburði við finna.
Finnar byrjuðu leikinn fullir af krafti, komu mjög framarlega með varnarleikinn, tókst mjög vel að trufla uppspil kananna. Kanarnir tóku á móti af yfirvegun, sættu sig við að spila meira og minna í sínu eigin varnarsvæði og nýttu sér líkamlega yfirburði í ákeyrslum og þæfingi. Finnar náðu nokkrum skotum og góðri pressu í powerplay um miðja 1. lotu. Rétt þegar Kanar fengu kallinn sinn inná klúðraði Janne Niinimaa bigtime á bláulínunni, missti pökkinn og kanar komust 3 á móti 1, og það þarf varla að spyrja að leikslokum, Jeff Halpern (Jeff Jillson sendi) kom Könum örugglega í 1-0. Fimm mínútum seinna gerðu finnar aftur mjög slæm varnarmistök, í þetta sinn í eigin varnarsvæði, Richard Park sendi á Chris Dury sem kláraði færið af yfirvegun, beið eftir að Mika Noronen færi á hnén í finnska markinu og sett'ann svo upp. Eftir þetta voru finnar hálf aumingjalegir, hættu þessum aggressíva varnarleik og biðu bara eftir að komast í leikhlé.
Í byrjun 2. lotu fengu kanar 2 powerplay í röð, í því fyrra náðu þeir góðri pressu, en í því seinna áttu finnar besta færið. Eftir að hafa staðið af sér þessa raun náðu finnar smátt og smátt undirtökunum í leiknum. Þeir héldu áfram framsæknum varnarleik og erfiðið bar árangur. Mike Dunham átti í stórræðum í markinu, en Jukka Hentunen sá við honum á 35. mínútu (Sami Salo sendi). Þetta hleypti nítróinu í finnana og það tók minna en 2 mínútur að jafna leikinn. Ville Peltonen sólaði kanana hvern á fætur öðrum, fór bakvið markið og sendi svo virkilega flotta bakhandarsendingu
afturfyrir sig beint í spaðann hjá Olli Jokinen sem þakkaði pent fyrir sig. Finnar voru nú á fulli blússi, búnir að jafna og kanarnir búnir að missa allt niður um sig. En þeir tóku sig nú saman í andlitinu og restin af lotunni var gríðarlega spennandi, færi á báða bóga, en ekkert skorað.
3. lota byrjaði af krafti, finnar komu framarlega, höfðu undirtökin og áttu mörg stórgóð færi, en Dunham varði mjög vel. Halpern fékk líka dauðafæri eftir að Antti-Jussi Niemi missti pökkinn klaufalega aftan við eigið mark. Finnar voru mjög hreyfanlegir og vinnusamir og skoruðu verðskuldað á 53. mínútu. Það var Lasse Pirjetä sem átti þrumufleyg eftir að Antti Laaksonen dróg bakkarana nánast upp að markinu og sendi svo aftur fyrir sig á Pirjetä. Nú þurftu kanarnir nauðsynlega að skora. Þeir fengu gott tækifæri þegar Sami Kapanen fékk 2+10 fyrir mjög ljótt Cross-checking. Kanar náðu samt engu almennilegu færi í powerplayinu, finnar vörðust skynsamlega. Þegar 2 mínútur voru eftir var uppkast í finnska varnarsvæðinu, kanar tóku markmanninn útaf, og spiluðu með 5 sóknarmenn og 1 varnarmann. En línuvörðurinn var varla búinn að sleppa pekkinum þegar Halpern fékk 2 mínútur fyrir High Sticking, mjög heimskulegt. Þá var leikurinn nánast búinn fyrir kanana, finnar náðu þó að skora á 59. aftur Pirjetä eftir sendingu frá Laaksonen, í þetta skipti var það óverjandi úlnliðsskot, aftur eftir að báðir bakkararnir voru komnir heimskulega nálægt markmanninum. Einhver sagði að þeir væru í vandræðum vegna þess hve breitt svellið er (það er víst óvenju breitt í Ostrava,
meira að segja á evrópskan mælikvarða).
Finnar unnu semsagt í gríðarlega mikilvægum, jöfnum og spennandi leik, voru hreyfanlegri, vinnusamari og áttu miklu fleiri færi. Þeir misstu samt oft pökkinn kæruleysislega á hættulegum stöðum, þetta er vandamál sem að þeir hafa átt við að stríða í allan vetur. Kanar sýndu að þeir eru með gott, yfirvegað lið og Dunham var mjög sterkur í markinu.
Hinn leikurinn sem ég sá var Tékkland - Lettland (Group A).
Lettar mættu brosmildir með Curt Lindström við stýrið en Tékkar komu mikið sterkari á svellið. Þeir komust í 3-0 á fyrstu 10 mínútunum, Martin Straka átti 2 og Jaroslav Spacek eitt. Seinni loturnar spiluðu Tékkar af hálfum krafti, þannig að þetta varð ekki sú flugeldasýning sem 18.000 áhorfendur í glænýrri Sazka Arena voru að vona. Jagr komst ekki á blað nema fyrir hooking (að mig minnir), þrátt fyrir nokkra góða spretti og snúninga í hornunum.
Lettar hömuðust eins og rjúpa við staurinn í 3. lotu og náðu að minnka muninn, það var Pantelejevs sem skoraði. Í 2. lotu hafði einmitt þessi sami Pantelejevs fengið svaka skell (alveg clean samt) og sá bara stjörnur þegar hann var virkilega dreginn af svellinu.
Önnur úrslit í dag:
Group A:
Þýskaland 4 - Kazakhstan 2
Group B:
Slóvakía 2 - Úkraína 0
Group C:
Danmörk 1 - Svíþjóð 5
Group D:
Frakkland 0 - Austurríki 6
Fylgist með á heimasíð u mótsins