Tyrkland - Ísland 5 - 7
Í gærkvöldi (16/03/04) léku Íslendingar sinn fyrsta leik í HM en þessa leiks hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Fyrir leikinn fór setning mótsins fram en borgarstjórinn í Reykjavík, Þórólfur Árnason og Ellert Schram forseti ÍSÍ fluttu ávörp en Murray Costello formaður mótanefndar frá Alþjóðasambandinu setti síðan mótið. Síðan tók alvaran við hjá íslenska landsliðinu, en þeirra beið erfiður leikur við Tyrki. Leikurinn fór vel af stað og strax á 3. mín. skoraði Ingvar Jónsson glæsilegt mark með skoti frá bláu. Sigurður Sigurðsson bætti fljótlega öðru marki við og staðan orðin 2-0. Á 11. mín. varði Gulli mjög vel í “power play” en skömmu síðar skoruðu Tyrkir tvö mörk á 20 sekúndna kafla og jöfnuðu 2-2. Íslendingar létu það ekki á sig fá heldur héldu uppteknum hætti, léku mjög agaðan leik og áður en fyrsti leikhluti var úti höfðu þeir bætt við þremur mörkum. Fyrst skoraði Jón Gíslason, síðan Arnþór Bjarnason eftir glæsilega sókn þar sem Rúnar Rúnarsson og Ingvar lögðu til stoðsendingarnar. Jónas Breki Magnússon bætti svo enn einu markinu við eftir að hafa fengið glæsilega sendingu fram á miðju frá Daða Heimissyni. Staðan orðin 5-2 fyrir Ísland. Jónas skoraði svo aftur í upphafi annars leikhluta sitt annað mark í hraðaupphlaupi - sérlega vel að verki staðið. Tyrkir náðu síðan að klóra í bakkann áður en annar leikhluti var úti. Í þriðja leikhluta bættu svo Tyrkir við tveimur mörkum en Íslendingar einu eftir stórkostlegan samleik þar sem Jónas rak endahnútinn á sóknina eftir samleik við Ingvar og Clark McCormick. Leikurinn endaði því 7-5 fyrir Ísland og hinir fjölmörgu áhorfendur sem fylgdust með leiknum sjálfsagt ánægðir með sína menn.


Sigur Íslands var aldrei í hættu en hefði geta orðið miklu stærri. Röð brottvísanna kom í veg fyrir það því svo virtist sem Tyrkirnir væru alls ekki í eins góðu formi og íslensku strákarnir. Leikurinn var annars í heild sinni mjög vel spilaður af Íslendingum, pökkurinn gekk vel á milli manna og vörnin sló varla ekki feilnótu. Þar fór fremstur í flokki Ingvar Jónsson sem var af öðrum ólöstuðum besti maður Íslands. Í markinu stóð Gunnlaugur Björnsson sem var yfirvegaður allan leikinn. Þá var Jónas Breki og Jón Gíslason góðir í annars mjög jöfnu liði. Hjá Tyrkjum var Cengiz Ciplak (#18) alger yfirburðarmaður, mjög snöggur og vinnusamur. Aðrir leikmenn virtust vera í öðrum gæðaflokki.

Íslenska landsliðið hefur sjálfsagt aldrei verið eins vel mannað og nú, eins og sannaðist í þessum leik. Liðsheildin sterk og leikmenn að spila skemmtilegt íshokkí. Það verður gaman að fylgjast með þeim í næstu leikjum.
Afritað af síðu Skautafélags Reykjavíkur.

langaði bara að láta þetta inn á huga… láta þetta vekja einhverja athygli. Þetta var geggjaður leikur mæli með því að mæta á leik með Íslandi…