Nú fyrir nokkrum dögum kom út nýjasta vara Digidesign, Digi 003. Digidesign eins og flestir vita er leiðandi framleiðandi í hljóðvinnsluheiminum og hefur komið með margar vörur sem hafa verið leiðandi hjá áhugamönnum jafnt og fagfólki. Þar ber að nefna M-boxin vinsælu sem fást nú í nokkrum mismunandi stærðum og eru vinsæl meðal byrjenda og fagfólks sem þarf ekki margar rásir. Næsta level þar á eftir er Digi flokkurinn. Digi 001 var frumburður þess flokks en Digi 002 Rack og Factory tóku við af 001 eftir nokkur ár. Nú er komin ný vara í þessum flokki, Digi 003, sem er til í þremur gerðum; Digi 003 Rack, sem eins og nafnið ber til kynna er hannað til að vera í rack, Digi 003 Rack Factory sem er mjög svipað Digi 003 Rack nema inniheldur fleiri plugins, og að lokum Digi 003 Factory, sem inniheldur alla sömu eiginleika og Digi 003 Rack Factory nema það er stjórnborð, sem ég lýsi sem “speisaðari útgáfu af Command 8 fjarstýringunni”.
Digi 003 er mjög svipað í hönnun og eldri bróðirinn Digi 002. Aðeins örfáar breytingar hafa átt sér stað og varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum með Digi 003. Þeir eiga það sameiginlegt að þeir eru báðir með 8 analog innganga. Þar af eru 4 formagnarar. Auk þess eru þeir báðir með 8 analog útganga, sama fjölda af midi tengjum og báðir með tengi fyrir optical ADAT.
Hinsvegar er munurinn á þeim sá, að Digi 003 er með 2 heyrnartóla tengi, í stað 1 á Digi 002, auk þess sem Digi 003 er með Word Clock, ALT monitor output og Analog Alt input. Annars er þetta liggur við sama græjan. Meira að segja hefur Digi 002 það fram yfir 003 að hafa digital Alt input og einnig digital Alt unbalanced out. (Ég skil vel ef þið skiljið ekki öll þessi hugtök og eru skilgreiningar á þessu neðst í þessari grein.)
Þegar maður pælir í því er voða lítill áberandi munur á Digi 003 og Digi 002, og held ég að margir hafi verið vonsviknir með Digi 003. Ég held einnig að þeir sem eiga Digi 002 eru ekki æstir í að skipta yfir í Digi 003 því það hefur voða lítið upp á sig. Það sem ég hefði viljað sjá í Digi 003 sem hefði leitt til þess að ég mundi kaupa það er eftirfarandi:
• Fleiri formagnara. 8 formagnarar hefði verið tilvalið. Auk 8 TRS eða jack tengja.
• Stuðningur fyrir 2 ADAT tæki. Það er ekkert mál að skella öðrum adat inn- og útgangi, hefði veitt möguleika á 24 rásum inn og út.
• Phantom Power takki fyrir hverja rás. Auðveldar val á rásum fyrir hvern hljóðnema.
Þetta hefði getað leitt til þess að fleiri færi sig úr Digi 002 græjunni upp í 003. En ég sé bara fram á það að ég persónulega færi mig upp í HD í staðinn fyrir Digi 003
Stjórnborðið á Digi 003 er mjög líkt stjórnborðinu á Digi 002 Factory, en það eru aðeins fleiri takkar og möguleikar á 003 græjunni. Þó svo að ég sé mjög lítinn tilgang með svona fjarstýringum finnst öðrum þetta flýta fyrir.
Hugtaka- og orðalisti:
Digi 002: Kom á markað í kringum aldamótin(2002-2003).
Digi 003: Kom á markað 2007.
Command 8: Sér fjarstýring sem hægt er að tengja við ýmis Pro Tools tæki.
Analog: Í þessum skilningi tengingar sem eru ekki tölvutengingar. Tengingar á borð við Jack og XLR tengi.
Formagnari: Magnar hljóðið sem kemur úr míkrófóninum.
Inngangar: e. input, átt við hversu margar rásir er hægt að taka inn í einu.
útgangar: e. output, átt við hversu margar rásir er hægt að taka út í einu.
Midi: sérstök format tengi sem er aðallega að finna á hljómborðum og synthum.
Optical ADAT: Ljósleiðaratengi. Í þessu tilviki er hægt að tengja serstaka adat græju með formögnurum við Digi 002 eða 003 og bæta þar af leiðandi við 8 rásum I/O.
Word Clock: Sérstök tengi sem gerir það kleift að tengja við aðra græju og sínka hana við svo hljóðið passi.
Alt monitor output: Útgangur fyrir annað sett af monitorum.
Alt analog input: Inngangur til að tengja til dæmis við geislaspilara.
Digital Alt Input og Output: Tengi sem hægt er að tengja við ýmsar græjur á borð við DAT upptökutæki og geislaspilara.
TRS: Balanserað jack tengi.
Phantom Power: Straumur til að gefa míkrófónum sem þurfa hann. T.d. condenser micar.
HD: HD systemin(High Definiton) frá digidesign eru mest pro systemin sem hægt er að fá hjá Digidesign.