Ég held að þetta sé aðalega spurning um hvað maður venur sig á. Ef þú venur þig á að vera alltaf með blaðið fyrir framan þig þá getur verið mjög erfitt að mæta á tónleika án þess að hafa neinar nótur með sér. Maður stressast upp og skemmir fyrir sjálfum sér með því að hugsa of mikið um hvað kemur næst í staðin fyrir að treysta bara á eyrun og það sem maður kann.
En þó svo að maður sé vanur að hafa alltaf nótur þá er vel hægt að venja sig á að hafa þær ekki. Aðal málið er bara að breyta um hugsunarhátt og nálgun þegar maður lærir nýtt efni. Það tekur tíma en málið er bara að byrja á því sem fyrst, það verður alltaf léttara og léttara.
Þeir sem eru rythmískt menntaðir eiga yfirleitt mun auðveldara með þetta heldur en klassíkst menntaðir. Einfaldlega vegna þess að áherslan er meiri á að læra lög utanbókar í jazztengdu námi heldur en klassísku þar sem hljóðfæraleikarinn er alltaf með nóturnar fyrir framan sig.
Ég kom úr klassík yfir í jazz og fannst mjög erfitt að læra lögin utanaf í fyrstu, tók langan tíma og þurfti alltaf að vera að rifja upp. En eftir því sem þú lærir fleiri lög því auðveldara verður það og áður en þú veist af hefurðu ekkert fyrir því að læra lög utanaf.
…En til að svara spurningunni þá held ég að það sé frekar persónubundið hvernig fólk tæklar þetta.
Ég byrja á að hlusta vel á lagið sem ég ætla að læra og fá góða tilfinningu fyrir því, get aldrei kunnað neitt utanaf nema ég geti sungið alla laglínuna inní hausnum eða út. Síðan byrja ég á að pikka upp laglínuna. Getur haft nóturnar til hliðsjónar en ég mæli með því að reyna að læra sem mest eftir eyranu, það tekur tíma fyrst en margborgar sig að pína sig í gegnum það. Mér finnst maður læra þau lög best og á auðveldast með að muna sem maður pikkar upp sjálfur.
Þú getur skipt laglínuni í búta og tekið bara einn kafla í einu td. 4 takta, einn frasa eða fyrst A og svo B kaflann, hvernig sem þér finnst þægilegast. Mér finnst betra að einbeita sér að einhverju einu í lengri tíma heldur en mörgu í of lítinn. Svo er bara að spila með upptökunni og pikka jafnvel upp hljóma og sóló líka.
Til að venja sig af nótunum er hægt að hafa þær fyrir framan sig í fyrstu en reyna eins og maður getur að horfa ekki á þær nema í nauðsyn og fá þannig tilfinningu fyrir því hvar maður er í laginu, síðan geturðu gert það sama á tónleikum. Þegar maður er orðinn öruggur í því er best að hoppa bara í djúpu og mæta með engar nótur og treysta bara á það sem maður kann, eyrun og sjálfan sig. Maður mun allveg klúðra einhverju til að byrja með en ég held að það sé líka nauðsynlegur partur af ferlinu, hver veit kannski klúðraru aldrei neinu. Aðal málið er bara að þjálfa eyrun og treysta á það sem maður kann og þá kemur hitt að sjálfu sér.
Þetta er bara mín nálgun á málið og það hafa allir sína leið en ég vona að þetta gríðarlega langa svar komi þér að einhverjum notum. Hef oft velt þessu fyrir mér en gat bara ekki komið þessu í tvær setningar.
Kveðja, Aron