Góðan daginn
Ég frétti af þessum þræði í morgun og var að lesa hann yfir. Þar sem ég hef verið beðinn um að kenna á þessu námskeiði, velja magnaratýpu/tegund og mæla með stað til að kaupa efnið á, langar mig að leggja orð í belg.
Fyrst af öllu langar mig að segja frá því að ég hafði samband við fjölda aðila í USA og Kanada í leit minni að bestu verðunum, bestu þjónustunni og með það fyrir augum að vera með sem allra flottastan magnara þegar upp væri staðið. Ég vil taka skýrt fram að skólinn kaupir allan efnivið beint frá Trinity Amps og leggur ekkert ofan á. Námskeiðið er á hreinu kostnaðarverði þegar búið er að taka tillit til efniskaupa, auglýsinga, aðstöðu og kennaralauna. Allt kostar þetta peninga.
Hér er verið að tala um 15 Watta “combo” lampamagnara með einum 12 tommu hátalara. Hann er „handvíraður“ eins og það er kallað á Íslensku, ”Point to Point“ á Ensku. Í þennan magnara eru settir allir bestu íhlutir sem fáanlegir eru. Kassinn utan um hann er handsmíðaður úr Birki og felldur saman á hornunum með gamalli aðferð sem kölluð er ”finger joint“ á ensku. Hann er tauklæddur og lakkaður.
Þessi magnari er smíðaður eftir einum þekktasta gítarmagnara sögunnar, Fender Tweed Deluxe. Byrjað var að framleiða hann ca. 1955 og var hann á þeim tíma hugsaður til að ná miklum hávaða án bjögunar!
Nú a tímum er hann hins vegar eftirsóttur fyrir hinn frábæra hljóm sem hann gefur þegar hann er kominn á mikinn styrk og farinn að bjaga! Meðal þeirra listamanna sem hafa gert þennan hljóm að sínum ”signature“ hljómi eru Neil Young og Don Felder hinn frábæri gítarleikari Eagles.
Þetta er gríðarlega fjölhæfur magnari sem hægt er að nota í stofunni heima, á æfingum eða láta hann öskra uppá sviði í Laugardalshöllinn í gegnum hljóðkerfi! Og hljómurinn er engu líkur!
Einhver vanmetnasti þátturinn í því að smíða svona magnara er einmitt þessi; að fá alla, og rétta íhluti á sama staðnum. Mjög lítið af því sem til þarf er til hér á landi og svo er þetta þannig úti að einn aðili sérhæfir sig í rafmagns íhlutum annar í hátölurum og ”cabinettum" á þriðja staðnum gætirðu þurft að kaupa málmkassann utan um sjálfan magnarann og svo þarf handföng, takka, rétta tegund af vír + það sem ekki er til hjá hinum aðilunum o.s.frv. o.s.frv. Eg er búinn að ganga í gegn um þetta og það getur verið ótrúlega dýrt og erfitt, Stundum situr maður svo uppi með einhverja hluti sem passa ekki, eitthvað er gallað eða maður bara skemmir eitthvað óviljandi og þá þarf að pant einu sinni enn.
Með bestu kveðjum
Þröstur Ingólfur Víðisson
Bætt við 31. ágúst 2008 - 12:29
Gleymdi að þakka fyrir hlý orð í minn garð frá Gunna Waage og Moog. Einnig að taka fram að öllum er velkomið að hafa samband við mig beint ef einhverjar spurningar vakna.
“Talking about music is like dancing about architecture”