Efniskostnaðurinn hjá mér hefur slagað upp í verð nýs pedala. Lang dýrustu hlutarnir í mínum pedulum voru kassinn og fótrofinn (DPDT)en það er hægt að komast ódýrar frá þessu. Ég pantaði síðar nokkra fótrofa frá music123 (Fulltone 3PDT, með annarri pöntun) og var það nokkuð ódýrara. Síðan smíðaði ég einfaldan pedala sem ég tengi annan effect í gegnum. Rofinn í pedalanum stjórnar því hvort merkið frá gítarnum fari í gegnum effectinn eða beina leið út þannig að virknin er eins og rofinn væri í effectinum. Kosturinn við þetta er að þá er hægt að nota einn pedala til að kveikja og slökkva og þá þurfa hinir effectarnir engan fótrofa. Næstu effectar munu því verða ódýrari og ef einhver þeirra heppnast sérlega vel þá er alltaf hægt að kaupa fótrofa og setja í hann.
Næsta verkefni hjá mér verður að smíða tilraunabox sem inniheldur brauðbretti (einskonar tilrauna tengibretti, fæst í íhlutaverslunum). Þá get ég raðað upp hvaða effect sem er og prófað. Það sparar vinnu og kostnað við að smíða effect sem gæti þess vegna hljómað hræðilega. Síðan er hægt að prófa sig áfram og skipta út íhlutum þar til hljómurinn er orðinn nógu góður og þá má fara að smíða varanlegan effect.
Ef þú ætlar að smíða wah-wah pedala þá þarftu líklega um um 500mH spólu (a.m.k. í CryBaby). Hana þarftu líklega að panta að utan a.m.k. hef ég hvergi fundið svona spólu hér á landi.