Fyrsti fjöldaframleiddi rafmagnsgítarinn, 1950
Leo Fender bjó í Kaliforníu í Bandaríkjunum og var hljóðfærasmiður. Hann stofnaði fyrirtækið Fender Electric Instruments Company sem varð árið 1948 fyrst í heiminum til að fjöldaframleiða rafmagnsgítar, Fender Broadcaster sem umbylti hönnun á gíturum. Nafn hans var síðan breytt árið 1950 í Fender Telecaster og uxu vinsældir hans þá verulega. Í kjölfar þessa urðu rafmagnsgítarar mun ódýrari en áður og gátu þ.a.l. fleiri átt kost á að kaupa þá. Þetta hafði í för með sér að fjöldinn allur af tónlistarmönnum hóf að nota gítara og ný tónlistarstefna sem var (og er) ríkjandi í dægurtónlist varð til- s.k. rokktónlist. Í dægurmenningu 20. aldarinnar var þessi tónlist ríkjandi og sungið var um hluti sem höfðuðu fyrst og fremst til unglinga, dansarnir voru ögrandi og eldri kynslóðir töldu þessa menningu í besta falli ósiðlega. Gömul gildi og hefðir voru brotin og var þessi tónlistarstefna tákn byltingar í hugsun og mótun dægurlaga þessa tíma og allar götur síðan.