Ég hef tekið eftir því að það er soldið spurt um hvernig eigi að tuna trommur, en fann ekki neina grein sem kenndi það. Ég er pottþétt ekki sá besti í þessu, en langar að deila með ykkur hvernig ég geri þetta. Með eftirfarandi aðferð fæ ég sem bestann hljóm úr settinu mínu.
NR 1 Eftir að ég er búinn að taka gömlu skinnin af renni ég með rakri tusku yfir gjörðina og á brúnina á trommunni. Þannig kem ég í veg fyrir að kusk sitji undir eða liggi milli skinns og gjarðar og valdi ójöfnu. (Ef ég nota sama skinnið aftur þá renni ég yfir brúnirnar á því líka, þar vill oft setjast sag)
NR 2 Þegar þessu er lokið tek ég nýja skinnið og legg það ofan á trommuskelina. Það er mín sérviska að ýta skinninu aðeins niður , þeas ýta á brúnirnar. Síðan tek ég gjörðina og legg yfir, og tylli skrúfum í allan hringinn. Síðan skrúfa ég með fingrunum þangað til skrúfuhausinn snertir gjörðina í þeirri röð sem myndin sýnir. (ef að eru 5 skrúfur fer ég í stjörnu)
NR 3 Það fer eftir því hvaða trommu ég er með upp á hvað ég geri næst. Núna grófstilli ég, og fer mislangt í því eftir hvaða trommu ég er með. Með tom t.d. fer ég alveg 1,5 - 2 hringi með hverja skrúfu(misjafnt eftir settum og bara best að hver meti fyrir sig), eða þangað til ég fæ réttan óm í skinnið, þ.e.a.s. að það glamri ekki.
NR 4 Núna byrjar föndrið. Ég styð fingri á mitt skinnið til þess að stöðva óminn í skinninu (sjá stórglæsilega mynd og já augu ykkar blekkja ekki, þetta er hendi). Með fingurinn á miðju skinninu, slæ ég svo á það innan við hverja skrúfu til þess að heyra hversu strekkt skinnið er á því svæði. Ég leita að svæðinu með flottasta hljóminn og vinn mig frá því. Ég tuna í sömu röð og ég tyllti skrúfunum í.
Nokkur atriði: Ég byrja yfirleitt á toppskinni og svo botn. Bassatrommur eru líka svo misjafnar að það tekur því ekki að finna ákveðna aðferð fyrir þær, maður þarf bara að sætta sig við það að þær taka tíma. Svo er þetta auðvitað ekki heilög aðferð og hver og einn þróar sína eigin, en þetta virkar fyrir mig.