Ég fékk ábendingu um það um daginn að það væri ekki nógu mikið talað um blásturshljóðfæri hérna. Ég ákvað að eyða tímanum sem ég ætti að vera að læra, í það að skrifa smá um þessi “klassísku” hljóðfæri (þótt þau þurfi ekki alltaf að vera notuð í klassík).
Ég er að læra á þveflautu og hef lært á hana í bráðum 10 ár. Kennarinn minn sem hefur verið að kenna mér í vetur er Bandarískur og hefur mjög mikla reynslu í tónlistabransanum. Hann talar mjög mikið í tímum og ég hef lært mikið um hljóðfæri í þessum tímum. Ég ætla bara að segja smá af því sem ég man.
Í síðasta tíma spilaði ég eiginlega ekkert því kennarinn talaði allan tímann. Hann var að fræða mig um framleiðendur og tegundir hljóðfæra. Hljóðfæri eins og þverflautur og saxófónar eru framleidd í stórum verksmiðjum í Asíu. Það er einhver verðmunur milli tegunda, en í rauninni eru þetta flest sömu hljóðfæri, gerð eftir sama módeli. Þetta finnst mér skrítið því það ætti að skipta meira máli hvaða tegund maður kaupir. Þessi hljóðfæri eru líka mjög sjaldan handunnin eins og áður. Það er samt eftir eitt fyrirtæki sem framleiðir handunna saxófóna, Martin. Það er eitt sérstakt við handunna saxófóna, bjallan (það sem er breiðast) er ekki slétt heldur eru eins og örsmáar tröppur (sést ekki með berum augum). Þetta er mjög mikilvægt fyrir hljóminn.
Hljóðfæri eins og fagott eru hinsvegar oftast handunnin, þ.e.a.s. ef það eru góð hljóðfæri (ekki svona “skólahljóðfæri”. Maður kaupir ekki endilega nýtt fagott á einum degi. Maður þarf kannski að bíða lengi eftir að það sé búið að búa það til. En það eru auðvitað miklu betri hljóðfæri.
Einu sinni framleiddu Bandaríkin mikið af hljóðfærum en núna eru flest framleidd í Taiwan, Kína og öðrum Asíulöndum með ódýrum starfskrafti. Mörg hljóðfæri eru líka gerð í Japan, t.d. fiðlur og selló.
Annað sem kennarinn minn talaði um var hvernig nótur og nótnabækur voru gerðar áður fyrr.
Einu sinni voru bara gerðar sérstakar plötur til að prenta nótur á blöð. Í stríðum glötuðust þær oft og einhver hirti plöturnar og notaði þær til að prenta út upp á nýtt. Þessir menn kunnu oft ekki mikið fyrir sér í tónlist og tóku þess vegna ekki alltaf eftir villum á plötunum (sem voru kannski illa farnar) Þá var einhver fenginn til að leiðrétta þetta með penna! Hugsið ykkur.
Áður en tölvur urðu til var líka erfitt að búa til almennilegar nótur því það þurfti að handskrifa allt. Kennarinn minn vann við þetta og stundum þurfti hann að eyða heilu klukkutímunum í að reikna út hvernig átti að skipta milli lína og blaðsíðna, finna hentugan stað til að fletta. Þetta hefur ekki verið auðvelt, auk þess að skrifa fallega og skiljanlega og skilja frumritið sem var kannski illa skrifað.
Þar sem klukkan er of margt get ég ekki munað meira í bili en látið mig bara vita ef þið viljið meiri svona fróðleik eða fleiri “öðruvísi” greinar.
Takk fyrir mig!