Ég ætla að skrifa aðeins um hljóðfærið mitt :)
Ég er núna að æfa á þverflautu 10. árið mitt. Þetta byrjaði allt þegar ég var 7 ára og sá einhvern spila á flautu í sjónvarpinu. Ég spurði strax hvort ég mætti spila á svona og auðvitað var ég strax skráð í tónlistaskólann þar sem ég er í mjög músíkalskri fjölskyldu. Flestar litlar stelpur æfa á þverflautu af því það er stelpuhljóðfæri og allar vinkonurnar spila á það en ég hef ekki hugmynd um af hverju ég valdi þetta.
Ég æfði fyrst á einhverja hræðilega plastþverflautu (verra en blokkflauta!) En eftir 2 ár fékk ég venjulega flautu í fullri lengd. Ég er búin að vera með mismunandi góða kennara því þegar ég var búin að æfa í 3 ár fékk ég hræðilega leiðinlegan pólskan kennara sem spilaði á fagott (og var perri …) Þá hætti ég að æfa mig heima því ég þoldi ekki kennarann, sem skýrir kannski af hverju ég er komin svona stutt eftir öll þessi ár, en ég vildi ekki hætta því ég elskaði að spila. Svo flutti hann í burtu og ég hef verið með ágæta kennara síðan. Núna er ég komin frekar langt og er núna aðallega að læra tækni og svo fer ég að æfa jazz og blús! Ég hlusta mikið á jazz og blús.
Svo er ég núna aðeins farin að spila á píanó (eða hljómborð) og gítar … En ég kann samt ekki mikið á gítar.
Ég keypti mér Jupiter þverflautu fyrir einu ári sem er mjög góð. Hún er með munnstykki úr silfri og opnum tökkum, en ég held að það séu fáir hérna sem vita neitt um flautur svo það er óþarfi að lýsa henni nánar. Einhvern tímann í framtíðinni þegar ég verð orðin nógu rík (þegar ekki ef :P) ætla ég að reyna að eignast alt þverflautu, en hún er aðeins stærri og dýpri.
Ég á líka Roland hljómborð með systur minni, sem er mjög gott og þægilegt hljómborð. Ég vona að ég geti seinna keypt mér almennilegt píanó og lært á það :)
Ég vona að þið hafið haft gaman af þessu
Takk fyrir mig