Mig langaði til þess að gera hérna smá FAQ grein þar sem að ég hef verslað töluvert að utan. Þessi grein á að sjálfsögðu að vera til fróðleiks fyrir hljóðfæraleikara og aðra í að versla sér að utan og spara sér pening (þar sem að það er algengasta ástæðan fyrir því að fólk verslar sér að utan.

Í fyrsta lagi langar mig til þess að taka fyrir nokkrar verslanir sem eru alveg skotheldar (sem ég hef annað hvort verslað við sjálfur eða þekki fólk sem hefur verslað við) og ber þar helst að nefna http://www.music123.com , http://www.musiciansfriend.com , http://www.thomann.de og http://www.ebay.com .

Music123.com
Ég hef persónulega verslað við music123.com og þeir eru mjög þægilegir í viðskiptum. Þeir senda hins vegar EKKI: ESP, Roland/Boss/Edirol, Fender/Gretsch/Jackson/Guild/Squier, Yamaha, Ernie Ball, Gibson/Epiphone, Paul Reed Smith, Rickenbacker, Behringer, Taylor, Line6, Digitech, DiMarzio, DOD, JBL and Lexicon til Íslands né hluti sem eru mjög stórir (t.d. trommusett). Allar sendingar þeirra eru tryggðar í pósti þannig að þetta er mjög professional hjá þeim.

Thomann.de
Ég hef persónulega verslað mjög mikið við Thomann og þeir eru að mínu mati frábærir. Þeir senda hratt og senda flestar vörur beint til Íslands. Það þarf hins vegar að hafa samband við þá sérstaklega til þess að spyrja hvað kosti að senda hlutinn til Íslands þar sem að það er ekki gefið upp á síðunni hjá þeim hvað kosti að senda hluti á heimsvísu.

Ebay. com
Ég hef líka verslað mikið á Ebay og þar er bæði margt að varast og nokkuð sem maður þarf að vita af. Oft kemur fyrir að seljandi á Ebay sé til í að senda út um allan heim og þá stendur oftast: „Will ship to Worldwide“. Stundum stendur aðeins: „Will ship to USA“ og þá er oft ekki í boði að senda til Íslands. Ég hef líka lent á nokkrum sem eru ekki einu sinni til í að senda á ShopUSA þannig að þegar maður er í einhverjum vafa þá sendir maður seljanda spurningu og spyr hvort að hann sé til í að selja ‘International buyer’ en senda hlutinn til Virginia Beach (VA) þar sem að ShopUSA er.

Ég hef einnig komist að því að USPS (Pósturinn í USA) sendir ekki hluti sem eru stærri en 42” (tommur) nema með Global Express Mail sem er c.a. 4 sinnum dýrara heldur en venjuleg USPS-sending þannig að það getur orðið mjög dýrt að láta senda t.d. gítar eða bassa. Venjulegar hardshell töskur eru allar stærri en 42” þannig að það þarf að hafa það í huga áður en maður kaupir sér gítar eða bassa á Ebay.

ShopUSA
Ég hef látið senda slatta með ShopUSA og hef ekki ennþá lent í vandræðum með það. Maður þarf hins vegar að átta sig á því að það er tekin vaskur (virðisaukaskattur) af heldarverði vörunnar OG sendingarkostnaði auk þjónustugjalda sem þau taka. Þannig að ef maður ætlar að athuga hvað kostar að fá einhvern hlut hingað heim, þarf maður að setja verð + sendingarkostnað í reiknivélina á síðuna hjá þeim. Það sem er reyndar algjör snilld með ShopUSA er að þau bæta EKKERT aukalega við ef hluturinn er stór eða þungur. Endanleg tala er gefin upp með reiknivélinni auk þess að maður getur tryggt vöruna fyrir skít og ekki neitt.

Nokkur dæmi:
1. Segjum sem svo að ég ætli að kaupa mér Epiphone Les Paul Standard (Heritage Cherry Sunburst) frá Thomann.de (Þýskalandi):
Epiphone Les Paul Standard….419€
Sendingarkostnaður……………..133€

Samt. …………………………………552€

Í þessu tilviki veit ég ekki hversu mikill sendingakostnaðurinn er þannig að ég gef mér að það kosti 10.000 krónur að senda einn svona gítar frá Þýskalandi til Íslands.
Eins og gengið er núna þá yrði þetta samtals: 552 x 75 = 41.400 og þá bætist við vsk (virðisaukaskattur) 41.400 x 1,245 = 51.543 kr.
(hér gæti að auki bæst við 1800 kr. ef það þarf að búa til tollaskýrslu sem þau á Póstinum gera fyrir ykkur. Þannig að Epiphone Les Paul kostar 51.543 – 53.343 kr. frá Þýskalandi (svo lengi sem að sendingarkostnaður verður ekki meiri en 10.000 kr.)

2. Segjum sem svo að ég ætli að kaupa mér Epiphone Les Paul Standard (Heritage Cherry Sunburst) frá Music123.com (USA):
Epiphone Les Paul Standard…..$599
Sendingarkostnaður………………….$0

Samt. ………………………………….$599

Í þessu tilviki senda Music123 ekki beint til Íslands þannig að það þarf að senda þennan gítar á ShopUSA og þá setur maður $599 beint í reiknivélina á síðuna hjá þeim og þá fær maður út: 59.341 kr. sem er endanleg tala (reyndar bætast við nokkrir hundrað kallar ef maður tryggir gítarinn hjá ShopUSA og næstum 2000 kr. ef maður lætur senda gítarinn með flugi (ef maður getur ekki beðið).
Þannig að Epiphone Les Paul kostar 59.341 – c.a. 63.000 kr. frá USA (miðað við að gengið haldist svipað).

3. Ég hef keypt nokkuð af strengjum á Ebay, þar sem að bæði verslanir og aðrir eru að selja strengi á Ebay. Maður verður samt að passa sig á því að seljandinn sendi strengina til Íslands og að hann sé með ágætis-‘feedback’ (þ.e. nokkrar sölur og hefur fengið jákvæða umsögn frá þeim sem kaupa af honum).
GHS Boomers .009-.042 (12 sett)…$45.90
Sendingarkostnaður…………………….$10.00

Samt. ………………………………………..$55.90

Strengirnir kosta semsagt 55.90 x 62 = 3.466 3.466 x 1,245 (vsk) = 4.315 kr. (12 sett)
4.315 / 12 = 360 kr. hvert sett.

Þetta eru svona helstu upplýsingar sem þið þurfið að vita til þess að versla erlendis frá og auðvitað eru til fleiri verslanir og auðvitað geta verðin líka breyst með breyttu gengi krónunnar, evrunnar og dollarans. Ég vona bara að þið getið nýtt ykkur þetta eitthvað og ef ekki þá er náttúrulega alltaf hægt að hafa samband við mig og ég get hjálpað ykkur eða lóðsað ykkur eitthvað í gegnum þetta.

-Persónulega nota ég annað hvort http://www.google.com eða http://www.froogle.com til þess að finna hljóðfæri eða aðra fylgihluti.
-Ég versla við http://www.music123.com af því að þeir eru öruggir, fljótir að senda og ódýrastir í USA.
-Ég versla við http://www.thomann.de vegna þess að þeir senda mjög hratt, eru almennilegir og ódýrastir í Evrópu.
-Ég kaupi mér strengi á http://www.ebay.com af því að ég tími ekki að kaupa strengi hérna heima. Maður fær a.m.k. tvö sett á verði eins ef maður kaupir á Ebay.
-Það getur orðið mjög dýrt að láta senda gítar eða bassa með pósti frá USA ef taskan, kassinn eða umbúðirnar eru lengri en 42”. Getur verið að það sé bara ódýrara að láta senda það með ShopUSA.
-Allt sem tengist hljóðfærum á einn eða annan hátt reikna ég sem Hljóðfæri (t.d. í reiknivélinni hjá ShopUSA) þar með talið hardshell taska sem ég lét senda mér um daginn… þetta var tóm taska en ég flokka hana samt sem hljóðfæri, eins og allt sem hljóðfæri tengist (ólar, gítarneglur, pickuppar, pickhlífar, effektar, töskur, gigg-pokar, magnarar… allt hljóðfæri).
-Maður borgar vsk af öllu sem kemur hingað hvort sem það er gert með ShopUSA eða póstinum.
-Gítarmagnarar frá USA eru allir (99,9%) með 110 volta kerfi þannig að það þarf að kaupa spenni (sem breytir 220 V (ísl) yfir í 110 V (usa)).

Spurningar? Komment?