Ég spila á blásturshljóðfæri (gettu hvað ?! ;) og er í 7.stigi og svo er ég líka með 4. stig á flautu og saxafón (frá Tónó, ekkert svindl stig) og get spilað eina og hálfa áttund á trompet, kann vinnukonugripin á gítar, get spilað upp í 4. stigs verk á píanó þó ég hafi bara lært í eitt ár, ég á líka fiðlu og kann alveg að spila/ískra lög á hana í nokkurn veginn réttum tónbilum. Þannig að ég hef nokkuð breiðan skilning á þessu og hef oft verið að spá í hvaða hljóðfæri sé erfiðast. Hér er minn listi:
Málmblásturshljóðfæri: Það er auðvelt útaf bara þrem tökkum en margar nótur hafa sama gripið og maður þarf að hafa gríðarlega gott vald á vörunum og að hitta akkúrat á g' en ekki c' eða c“ er alls ekkert auðvelt. En svo er aftur á móti hægt að spila á flest hin brasshljóðfærin ágætlega ef maður kann á trompet.
Tréblásturshljóðfæri: Margir takkar en á td. klarinett lærir maður tólfund, e til b' og þá kann maður næstu c” til c''' en svo verða gripin líka frekar flókin og mismundandi hvaða grip henta eftir hljóðfærinu sem maður er að spila á. Svo er það blaðið sem skiptir öllu máli, það er ekki hægt að spila vel á lélegt blað og oft eru ekk nema 3-4 af tíu sem virka. Á flautu og saxafón er það áttund sem gildir, á saxafón er bara einn takki sem breytir um áttund en á flautu þarf maður að yfirblása og það getur verið erfitt. Óbó er drulluerfitt að geta blásið og fengið fallegan tón, tekur nokkur ár að ná því. Svo við tölum ekki um loftið, það er einna erfiðast að blása því það þarf svo lítið loft en mikinn stuðning og oft er nú grínast með það að allir óbóleikarar séu svona skrítnir því þeir fái loftbólur á heilann því loftið sem þeir anda að sér komist ekki út og fari í hina áttina. Fagott er erfitt sökum þess að þumalputtarnir vinna mestu takkavinnuna og fólk þarf að þjálfa það mjög vel til að ná færni. Svo er auðvitað málið með blaðið, á óbó og fagott þarf maður að smíða blöðin sín sjálfur að mestu leyti og er það mjög flókið að ná góðu blaði og oft er eitt blað gott fyrir staccato en annað gerir fallegan tón og ömurlegt staccato. Og svo er það blokkflautan sem flestir halda að sé bara fyrir forskólakrakkana en nehei. Sumir læra meira og þá getur það orðið mjög erfitt.
Slagverk: Er nú bara eitt það mikilvægasta fyrir hverja hljómsveit með stjórnandanum. Og ímyndið ykkur ábyrgðina að allt liggur á þér varðandi að halda hraðanum og þú berð mesta ábyrgð á ritardando og accelerando og allar hraðabreytingar liggja undir þér. Svo er auðvitað frekar erfitt að gera flókna takta og þyrftu þeir stundum að hafa þrjár hendur til að ná því fram sem tónskáldið vill hafa.
Strengjahljóðfæri: Það er auðvitað erfitt að spila vel og að læra hvar nótan er akkúrat rétt, ekki fölsk og á strengjasveitaæfingum fer mestur tíminn í að hreinsa hljóma. Svo tekur oftast langan tíma að ná að gera vibrato, flestir vilja hreyfa báðar hendurnar en ekki bara aðra.
Píanó: Margir eru þeim misskilningi haldnir að píanó sé mallet, það er að maður ýtir bara á takka og þá komi tónninn. En það er svo ekki satt. Maður þarf að æfa lengi að ná upp færni í báðum höndum, að gera eitt með annarri hendi og annað með hinni, það er ekki eins auðvelt og mætti halda. Að ná fram réttum blæbrigðum er bara býsna erfitt oft og oft eru píanóleikarar að spila margar nótur í einu og þurfa að æfa hvert verk vel, hvaða fingur sé best að nota á hverja nótu og þar fram eftir götunum.
Gítar: Þar finnst mér erfiðast að halda inni strengjunum, öll þessi grip sem teygja á fingrunum og svo þau þar sem maður þarf helst að hafa sex til átta putta.
Bassi: Því miður veit ég ekkert um bassa. Sorrý.
Söngur: Röddin er auðvitað hljóðfæri líka. Þar þarf maður fyrst og fremst að hafa góða rödd, vera lagviss og nú til dags þarf maður að hafa eitthvað nýtt. Flest er til og til þess að verða eitthvað þarf maður að koma með eitthvað nýtt.
Auðveldasta hljóðfærið: Að mínu mati held ég að tölvan sé auðveldasta hljóðfærið. Það getur nefnilega hver sem er keypt sér laimass tónlistarforrit í næstu búð og þóst vera að semja tónlist. Ekki eins margir geta tekið upp hljóðfæri og spilað eitthvað af viti.
Erfiðasta hljóðfærið: Er bara öll hin, ef maður ætlar að verða eitthvað góður þarf maður að hafa þolinmæði og einbeitni og nógan tíma til að æfa sig. Það er hægt að taka upp hvaða hljóðfæri sem er og spila á það ef maður kann nokkurn veginn basic stöffið eða hefur einhverjar leiðbeiningar (gripatöflu fyrir gítar td eða … och jag bækurnar fyrir blásturshljóðfæri)
Svo að mitt svar við hvað sé erfiðasta hljóðfærið að æfa á er bara þau öll !!!