Klarínettan Klarínettan kemur fyrst fram um árið 1700, þegar maður að nafni Johann Denner bjó til hljóðfæri upp úr gamla hljóðfærinu chalumeau, sem var ekki ósvipað blokkflautunni, en hafði þó munnstykki með einföldu blaði. Nafnið “clarinet” kom þó ekki fyrr en síðar, dregið af ítalska orðinu “clarino”, sem þýðir “littla clarion” eða litli trompet, því hljóðin úr úr þessu hljóðfæri þóttu líkjast trompet á háa tónsviðinu. Reyndar þótti klarínettan ekkert sérstaklega hljómfögur eða lipur í snúningum borið saman við flautur og óbó þess tíma.

Fyrstu klarínetturnar höfðu átta göt og tvo klappa, en smá saman fjölgaði klöppunum og bjallan varð víðari og hljómmeiri. Margir menn og konur tóku þátt í þróun klarínettunnar þar til August Buffet ásamt Hyacinthe Klosé komu fram með sína gerð um miðja nítjándu öld. Það hljóðfæri hefur oft verið nefnd Böhm-klarínetta, því það byggir að miklu leyti á klappakerfinu sem Þeóbald Böhm fann upp fyrir flautuna nokkru áður. Nútímaklarínettan byggir á þessu hljóðfæri og hefur oftast 24 göt og 17 klappa. Oftast er hún smíðuð úr tré en flest nemendahljóðfæri eru úr plasti.

Bassaklarínettan hljómar áttund neðar en venjuleg B-klarínetta og er mikið notuð í sinfóníuhljómsveitum. Hún gefur fallegan breiðan tón, sérstaklega á dýpra tónsviðinu.
————————————————-