Saxafónninn Maður nokkur hét Adolphe Sax og bjó í Belgíu á nítjándu öld. Hann var mjög fjölhæfur náungi og spilaði meðal annars feikivel á klarínettu, eins og rakarinn í Kardimommubænum.
Hann var einnig duglegur hljóðfærasmiður og hannaði ósköpin öll af hljóðfærum, meðal annars heila fjölskyldu af málmblásturshljóðfærum sem kölluðust Saxhorn.
En það er nú önnur saga.
Í dag er hann líklegast frægastur fyrir að hafa búið til Saxófóninn, en hugmyndin að honum er fengin úr mörgum áttum, munnstykki með einu blaði líkt og klarínettan, “kónískt” lag eins og óbó og flygil-horn (flugelhorn) og klappakerfi svipað Böhm-kerfinu á flautunni. Sérstök lögun hljóðfærisins í formi “reykpípu” er hugmynd Adolphe Sax. Þó saxófónninn sé alltaf smíðaður úr málmi flokkast hann sem tréblásturshljóðfæri vegna munnstykkisins og klappakerfisins.

Aðalgerðir saxófónsins eru fjórar: sópransaxófónn, altósaxófónn, tenórsaxófónn og barítónsaxófónn

Saxófónninn er ekki mikið notaður í klassískri tónlist en þess meir í jazz- og dægurtónlist. Frægustu saxófónleikarar síðustu aldar eru án efa Charlie Parker og John Coltrane.
————————————————-