Til umsjónarmanna Huga!

Ég hef nú um hríð tekið virkan þátt í cs-heiminum hér á landi bæði sem spilari (því miður með takmörkuðum árangri) en ekki síður sem þátttakandi í umræðunni og þá fyrst og fremst sem ritstjóri [GGRN]Frétta.

Ýmislegt varðandi þennan leik kemur mér spánskt fyrir sjónir einsog gengur og gerist, einkum er tvennt sem snýr að umgjörðinni sem veldur mér verulegum heilabrotum.

Hið fyrra snýr að ritstjórnarstefnu Huga. Ég skipti mér ekki oft af umræðunni á cs-korkinum en drep þó niður penna af og til sérílagi ef umræðan er spennandi. Og tvívegis hefur þráður, þar sem ég hef fylgst spenntur með, verið felldur út. (Nú síðast mikil og athyglisverð umræða sem fylgdi í kjölfar umdeildrar tilraunar ccp|TomB til fréttamennsku.)

Og þá koma spurningarnar: Hver ræður því hvað er fellt út og hvað ekki? Er einhver ritstjóri cs-korksins? Hver þá? Hvað ræður því að einn þráður er felldur út og annar ekki? Og: Þegar um er að ræða að fella eitt efni út en láta annað lifa þá erum við að tala um ritstjórnarstefnu. Því spyr ég: Hver er ritstjórnarstefna umsjónarmanna Huga?

Ástæða þess að ég spyr er einfaldlega sú að mér finnst furðulegt að lifandi umræðu virðist oft bolað út meðan lágkúru á borð við “owna”, “lol” og “:(, er gert hátt undir höfði.

Ég veit ekki hvort seinna atriðið hefur nokkuð með umsjónarmenn Huga að gera en viðra þó hér spurningar því tengt í von um að einhver hlutaðeigandi lesi þetta og kunni svör.

Hvaða snillingi datt í hug að reyna að ritskoða servera í leik sem snýst um að murka líftóruna úr andstæðingnum á allan hugsanlegan og óhugsanlegan hátt? Hvaða mannvitsbrekku datt það í hug að hægt væri að betra leikmenn með idjótískum aðferðum á borð við fátæklegan orðabanka sem snýr að því að útiloka barnaleg ensk blótsyrði á borð við fuck en ræður að sjálfsögðu ekki við orð á borð við ”skitaklepri“ eða ”vidbjodur"?

Ég spyr því mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að tengja þetta tvennt counterstrike og undarlega kjánalega ritskoðun.

Með bestu kveðju,
[GGRN]Rooster