Þetta er ekki endilega (bara) svar við þínu pósti, en…
Íslendingar eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar; stjórnarskráin bannar setningu laga sem hefta þann rétt, en með undantekningum þó (vitaskuld). Hér er 73. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands:
<i>Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi.
Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.</i>
Þessi grein ver þegna landsins sem sagt fyrir lögbundinni ritskoðun og skerðingu á tjáningarfrelsi. Prentfrelsi er svo annar liður í téðu frelsi; réttur <b>eigenda fjölmiðla</b> til að birta þar efni eftir eigin geðþótta, en því frelsi fylgir að sjálfsöðgu ábyrgð (ritstjórnarábyrgð). Menn geta þannig þurft að ábyrgjast orð sín fyrir dómi, til að mynda ef þeir eru sekir fundnir um rógburð eða ærumeiðingar.
Lykilatriði í þessu er hins vegar að Hugi er miðill í einu Símans Internet sem <b>ritstýrt</b> (ekki ritskoðað) er af ritstjóra, og fulltrúum sem hann skipar sér til aðstoðar (stjórnendum). Þannig á enginn <b>rétt</b> á að koma skoðunum sínum á framfæri á Huga, frekar en t.d. á síðum Morgunblaðsins eða í þáttum á Stöð 2.
Ákvarðanir um hvað fær að birtast, hvað fær að standa, og hverju er eytt eru teknar af ofangreindum aðilum, í samræmi við hvað þeir telja best þjóna hagsmunum þess samfélags sem hér hefur orðið til. Prófið t.d. að nota leitarfítusinn á Huga, og þið sjáið að mjög lítið er um (ef eitthvað) að ritstýring Huga miðist við hagsmuni eigenda vefsins (Simnet); kvartanir yfir hinu og þessu og fjörleg (misjákvæð!) umræða um málefni tengd Simnet og Símans er að finna á við og dreif um vefinn.
Allt öðru gegnir hins vegar um hversdagslegt skítkast og nöldur, off-topic efni, trolls, persónuárásir o.s.frv. Slíku efni er jafnan eytt, enda er það til þess eins fallið að rýra gildi miðilsins sem gagnlegs samskiptavettvangs og áhugamálavefs.
Þetta var kannski svolítið löng leið til að segja “málfrelsi kemur Huga nákvæmlega ekkert við!”, en reynið að setja ykkur í spor þeirra sem þurfa að taka þessar ákvarðanir. Oft á tíðum eru þær nefnilega alls ekki auðveldar. Ef ykkur mislíkar svo mjög aðgerðir einstakra admina, og teljið framgöngu þeirra beinlínis til þess fallna að skaða samfélagið/Huga.is, er tilvalið að benda ritstjóra á málið; til hans svara jú aðrir stjórnendur á Huga. En hugsið ykkur vel um, það eru margar hliðar á hverju máli. :)
Kv,
Smegma