Sælir CS félagar.
Ég hef fylgst með þeim hugmyndum sem verið hafa í gangi uppá síðkastið um val í landslið vort. Þar hafa komið fram margar merkar tillögur en mér hefur þó þótt vanta ýmislegt í þær. Það á að nota tækifærið og koma okkar hagsmunum á hreint með stofnun nokkurs konar félagi sem sér um skipulagningu okkar mála.
Svona félög á að byggja upp svipað og fyrirtæki þar sem valið er í stjórn félagsins árslega. Stjórnin ber svo ábyrgð á rekstri félagsins, eins og ráðningu þjálfara og annarra nauðsynlegra hluta. Fyrst um sinn yrði að sjálfsögðu lítið um laun önnur en heiðurinn og ánægjuna, en ef rétt er haldið á spöðunum gæti þetta félag séð um mót og annað slíkt í framtíðinni og aflað sponsora og annarra tekna líkt og önnur íþróttafélög. Einnig væri þá mögulegt að senda út lið í stærstu keppnirnar ef vel tekst til að byggja þetta upp.
Hægt væri að leggja upp með að spilarar verði hluti af félagi CS spilara gegn vægu gjaldi (t.d. 500 kr.) og sé það forsenda fyrir því að fá að kjósa í stjórn félagsins árlega og sömuleiðis öðlist menn þátttökurétt á mótum þeim sem haldin verða á vegum félagsins.
Forsenda svona félags er að það sé ekki rekið með hagnaðarsjónarmiði heldur eigi helsta stefna þess að vera að auka veg og virðingu CS á Íslandi sem og erlendis. Það sem þarf að gera er að kynna sér vel og vandlega hvernig íþróttasambönd eru uppbyggð fjárhagslega og rekstrarlega.
Ef þið haldið að það sé rangt að blanda peningum á þennan hátt inn í þessa landsliðshugmynd og sömuleiðis mót í framtíðinni þá segi ég þann sama barnalegan að hugsa með sér að svona nokkuð verði nokkurn tímann gerlegt svo vel sé án þess. CS sem “íþrótt” mun aldrei verða tekinn alvarlega af nokkrum manni nema hann sé með traustann bakgrunn og byggi á fjárhagslegum grunni sem miðar markvist að uppbyggingu hans.
Því tel ég að við sem samfélag eigum að byrja núna í ljósi þessarar umræðu sem upp er kominn að stefna leynt og ljóst að stofnun okkar hagsmunasambands.
Aðal vandamálið er að velja réttu mennina á sanngjarnan hátt í fyrstu stjórn félagsins því þar þarf mun meira en góða kunnáttu í CS til að vel megi fara. Vanalega er best að byggja upp svona félög með 3-5 mönnum í stjórn sem sjá svo um að semja stefnuskrá félagsins og reglur. Menn verða bara að muna að öllum reglum er hægt að breyta og það þarf einhvers staðar að byrja ef menn eru ósáttir. Þarna þyrfti að veljast menn með misjafna hæfileika, og er hægt að rökræða um hvaða bakgrunn menn þurfa í svona stöðu.
Fínt væri að nota hugmyndirnar sem komu í hinni greininni um að 1 maður yrði valinn frá hverju klani eldra en 3. mánaða til að hittast á irc og útfæra þessar pælingar nánar og velja útfrá því ca 5 manna undirbúningshóp til að semja reglur og stefnu þessa félags. Útkomuna úr því væri svo hægt að leggja fram fyrir cs samfélagið og sjá svo til um framhaldið útfrá viðtökum almennt.
Landsliðsmálin væri fínn byrjunarreitur fyrir svona hóp og þar gæti fljótlega komið reynsla á hvernig best sé að standa að okkar málum í framtíðinni.
Menn verða að muna að það eru menn á öllum aldri og með alls konar menntun og reynslu að baki sem að spila cs. Ég tek sjálfan mig sem gott dæmi því ég er 31 árs fyrirtækjaeigandi með reynslu af rekstri í nokkur ár. Það eru eflaust margir þarna úti sem hafa bæði reynslu, kunnáttu og vilja til að taka þátt í svona í sínum frítíma og væri gaman að heyra frá þeim sem hönd vilja leggja á plóginn.
Kveðja
Senior | Lurkmann