Kæru félagar!

Nokkuð hefur borið á því að menn vilji tjá sig um þær kannanir sem verið hafa uppi að undanförnu. Er nákvæmlega ekkert að því í sjálfu sér - korkarnir eru einmitt til þess að skiptast á skoðunum. Hins vegar hefur okkur stjórnendum borist kvartanir þess efnis að sumir þræðirnir séu staglkenndir að því leyti að oft eru þeir endurtekningar á því sem þegar hefur komið fram. Viljum við því beina þeim tilmælum til Hugara að reyna að skipuleggja sig betur og láta orð sín falla á viðeigandi stöðum - m.ö.o. að það séu ekki margir þræðir um sama efni. Það hlýtur að vera öllum til hagsbóta að nokkurt skipulag ríki og að skoðanir séu aðgengilegar og á sama stað.

En þá að góðu fréttunum. Við stjórnendur vinnum að sjálfsögðu tittl… nei, einsog motherf… já nei, ehhh, einsog þrælar - já, einsog þrælar við að gera þetta vefsvæði öðrum vefsvæðum betra. Nú eru þær hugmyndir í teikniborðinu að stofna til sérstaks korks sem fylgir hverri könnun um sig. Þar gefist mönnum kostur á að fylgja könnunum sínum úr hlaði með nánari útskýringum ef þeim þurfa þykir og hvað þeir séu að fara með framlagi sínu o.s.frv. Jafnframt yrði þetta vettvangur fyrir menn að gera grein fyrir atkvæði sínu og gagnrýna könnunina ef þeim þykir ástæða til.

Ef okkur tekst að koma þessari hugmynd á koppinn yrði það vonandi til að gefa könnunum aukið vægi, ýta undir skemmtileg skoðanaskipti og leiða til þess að allar umræður um hverja könnun um sig yrðu á einum stað - aðgengilegar - í stað þess að dreifast skipulagslaust á korkana einsog við höfum séð!

Þessi hugmynd er í athugun og í vinnslu og vonandi tekst okkur að gera hana að veruleika. Rétt er að taka fram að þetta er ekki hrist fram úr erminni einn tveir og bíngó! Þangað til bið ég menn að sýna þolinmæði að athuga það sem fyrir ofan stendur því ef menn virða þau tilmæli þá er það öllum fyrir bestu.

Með kveðju,

[GGRN]Rooste