Ég hef margoft orðið vitni af því að menn annað hvort hata, eða elska eitthvað eitt merki. Sjálfur tel ég búnaðinn minn vera nokkuð breiðan, og alþjóðlegan, merkjalega séð þannig að ég get nokkuð samviskubitslaus hlegið af þessum vitleysingum sem allir eru uppstrýlaðir í snobbmerkjunum hverju sinni.
Ég hef lent í leiðangrum með mönnum sem voru í dýru göllunum sínum og eftir erfiðan dag voru þeir ekkert betur settir en maðurinn sem var í appelsínugula 66°N gallanum.
Ekki taka þetta þó þannig að ég sé að segja að gúmmígallinn sé jafn góður ferðafatnaður og Goretex gallarnir, umræddur dagur var frekar slæmur og því kannski lítið að marka samanburðinn. Ég hefði aldrei fyrir mitt litla líf lifað af daginn í gúmmíinu eins og þessi kappi gerði.
Mér fannst þetta bara gott dæmi um það hvað búnaðurinn skiptir litlu máli samanborið við úthald og reynslu ferðamannsins.
En merkjasnobbið hefur alltaf verið til staðar og mun seint hverfa, sem er svosem hið besta mál svo lengi sem peningarnir duga.