Hérna er fréttin sem er á www.hfr.is :
Laugardaginn 3. september var haldin fjallahjólakeppni á Jökulhálsinum Snæfellsnesi. Keppni þessi bar yfirskriftina Jökulhálstryllirinn og ætti nafnið eitt að segja til um hvernig landslagið til hjólreiða er, allt frá möl og upp í snjó.
Kl. 13:15 ræsti bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Kristinn Jónasson, keppendur af stað frá Pakkhúsinu í Ólafsvík til þessarar fyrstu hjólakeppni á Jökulhálsinum sem var tæplega 14 km löng og upp í 712m hæð.
Keppnin var aldursskipt 16-19 ára, 20-39 ára og 40+ bæði í karla og kvennaflokki. Engin kona keppti að þessu sinni en vonir standa til að á næsta ári bæti þær um betur.
Lögreglan í Snæfellsbæ keyrði á undan keppendum og beið uppi við endastöð til að tryggja öryggi keppenda. En vegurinn sunnan megin var lokaður á meðan á keppni stóð.
Keppendum gafst færi á að stoppa eftir 7 km til að svala þorsta sínum en það voru bara heimamenn sem nýttu sér þann möguleikann á leiðinni upp en keppendurnir frá HFR nýttu sér það aftur á móti á leiðinni niður.
Í fyrsta sæti í aldursflokknum 16-19 ára var Kári Brynjólfsson HFR á tímanum 1,01,33, í öðru sæti var Mikael Schou HFR á tímanum 1.02.20, í þriðja sæti var Hlynur Þorsteinsson HFR á tímanum 1,02,21 og í fjórða sæti var Guðjón Ólason HFR á tímanum 1,27,20.
Í fyrsta sæti í aldursflokknum 30-39 ára var Guðni Gunnarsson HSH á tímanum 1,34,02, í öðru sæti var Egill Kristjánsson HSH á tímanum 2,02,52 og í þriðja sæti var Óli Olsen HSH á tímanum 2,07,12. Keppendur höfðu orð á því í lokin að mótvindur hefði verið svo mikill að í þessar fáu brekkur sem hægt er að láta sig renna þá þurftu þeir að hjóla til að stoppa ekki – duglegir drengir þar á ferðinni.
Verðlaunaafhending fór fram í Sundlaug Ólafsvíkur að keppni lokinni.
Keppnisstjóri og dómari var Brynjólfur Magnússon formaður HFR, fyrsti tímavörður var Guðmundur M. Sigurðsson formaður HSH, annar tímavörur var Kristján Á. Magnússon meðstjórnandi HSH og ljósmyndari á vettvangi var Kári Pétur Ólafsson
Til stendur að gera þessa keppni að árlegum viðburði og er tillagan fyrir næsta sumar að við bætist önnur keppni í bruni 3 km niður sunnanmegin.
Það voru Héraðsnefnd Snæfellinga og Héraðssamband Snæfellsness- og Hnappadalssýslu sem stóðu að þessari keppni í samstarfi við Hjólreiðafélag Reykjavíkur en hún var styrkt af NPP og EB
P.S. það er pottþétt skemmtilegra að hjóla þetta en labba…sérstaklega niðu