Á hverju ári fáum við fréttir af ungum röppurum sem falla í valinn. Getur verið að það ríki bölvun yfir tónlistarstefnunni?
Ef það er satt sem fyrirsögnin segir, þá hlýtur Guð að vera mikill aðdáandi hiphoptónlistarinnar. Engin önnur tónlistarstefna hefur þurft að þola jafn mörg stjörnuföll síðustu ár. Þeir sem eftir eru hafa svo verið sérstaklega duglegir við að minna okkur á þær stjörnur sem þegar eru fallnar.
Glæpir virðast elta hiphopið á röndum, og nokkrar stjörnurnar verið myrtar eins og í tilfelli 2pac, Biggie Smalls, og nú síðast Jam Master Jay úr Run DMC. Nokkrir rapparar hafa lent í skotárásum en lifað þær af, eins og Snoop Dogg og 50Cent sem er enn með 9 ör á líkama sínum eftir byssukúlur. Rapparinn Big L var skotinn til bana í febrúar 1999.
Einhverjir hafa þó dáið af slysförum, eins og Aaliyah í flugslysi og Lisa “Left Eye” Lopez úr TLC í bílslysi. Rapparinn Big Punisher lést svo eftir hjartaáfall í febrúar 2000.
ODB Fellur frá:
Þær fréttir bárust okkur svo í vikunni að Ol' Dirty Bastard úr Wu-Tang Clan væri látinn. Hvort dauði hans tengist að einhverju leyti glæpum á eftir að koma í ljós, en það var ekkert leyndarmál að rapparinn átti við alvarleg fíkniefnavandamál að stríða.
Ol' Dirty eða ODB, hét réttu nafni Russell Jones og var einn af stofnendum Wu-Tang hópsins snemma á síðasta áratug. Vinir hans kölluðu hann Rusty. Talið er að hann hafi fengið hjartaáfall, en hann hneig niður í hljóðveri í Brooklyn þar sem hann vann að næstu plötu sinni. Hann hefði fagnað 36 ára afmæli sínu síðastliðinn þriðjudag, hefði hann lifað.
ODB var leystur útúr fangelsi í fyrra þar sem hann afplánaði dóm vegna fíkniefnabrota sinna. Umboðsmaður hans segir að rapparinn hafi verið staðráðinn í því að snúa við blaðinu, og að nýja plata hans hafi átt að vera endurkoma hans í heim hip-hopsins.
ODB stofnar Wu-Tang Clan
ODB stofnaði Wu_tang Clan ásamt frændum sínum Gary Grice(GZA) og Robert Diggs (RZA) í Brooklyn árið 1992. ODB var alltaf frekar óútreiknanlegur eins og sást best á því hversu oft hann breytti um nafn. Hann kom t.d fram undir nöfnunum Dirt MC-Girt, Joe Bannanas, Dirt Dog og Big Baby Jesus. Einnig var það frægt atvik þegar hann ruddist uppá svið á Grammyverlaunahátíðinni árið 1998 eftir að hann tapaði fyrir Puff Daddy. Hann greip þá míkrafóninn og sagðist aðeins hafa komið á staðinn og keypt sér fín föt vegna þess að hann hafi búist við verðlaunum. Annað frægt atvik var þegar hann lét tökulið frá MTV elta sig og börn sín á hjálparstofnun ríkisins til þess að fá matarmiða. Það þótti sérstaklega kaldhæðnislegt að hópurinn ferðaðist í limmósíu á staðinn. Ol' Dirty var alla tíð upp á kant við lögin og var handtekinn fyrir líkamsárás, búðaþjófnað, fyrir að hóta hryðjuverkum og fyrir að eiga og nota eiturlyf. Stærsti smellur hans er líklegast lagið “Baby I got Your Money” sem hann gerði með Kelis árið 1999. Hann var þegar búinn að vinna heilmikið í plötu sinni sem kemur út án efa á næsta ári. Á henni koma margir félagar hans við sögu, m.a. Busta Rhymes, Ludacris, Pharrell og Macy Gray. Ol' Dirty hefur greinilega ekki sungið sitt síðasta.
Eminem vill grafa stríðsaxirnar:
Þó að það sé heldur ólíklegt að Ol' Dirty hafi verið myrtur hlýtur það að teljast áhyggjuefni hversu margir rapparar falla vegna glæpa. Á nýjustu plötu sinni reynir Eminem hvað hann getur, m.a. í laginu “Like Toy Soldiers”, að hvetja hip-hop-heiminn til þess að leggja niður stríðsaxirnar. Það sem byrjar sem saklaus orðastríð hefur endað með blóðsúthellingum, enda lifa rapparar á borð bið 50Cent í stöðugum ótta um líf sitt, vegna þeirra hluta sem þeir hafa látið útúr munni sér á ferlinum.
Morðin á 2Pac og Biggie Smalls á síðasta áratug settu blóðbletti á heim hip-hopsins sem nást líklega aldrei almennilega af. Ástæður morðanna eru mörgum hulin ráðgáta. Það eru svo einhverjir sem halda því fram að 2Pac sé enn á lífi og hafi sett dauða sinn á svið, og það myndi eflaust útskýra þann gífurlega skammt af “óútgefnu” efni sem hefur komið út eftir dauða hans. Það verður þó að teljast harla ólíklegt. Aðrir vilja kenna Marion “Suge” Knight og Death Row Records um dauða 2Pac. Ein kenningin er að plötu útgefandinn hafi ætlast að hagnast á dauða hans, þar sem plötusala færi úr öllu valdi yrði hann drepinn. Á netinu má finna margar samsæriskenningar um málið, og einnig hafa verið gerðar heimildarmyndir sem fjalla um dauða 2Pac og Notorious B.I.G sem einnig er talinn hafa átt þátt í dauða 2Pac.
“Only God Can Judge Me - Tupac Shakur”