Smá uppdeit á Airwaves.
Haldið verður sérstakt hiphop-kvöld á Gauknum fimmtudagskvöldið 17. október og aðanúmerið það kvöld verður J-Live.
J-Live, sem heitir Jean-Jacques Cadet, sló í gegn sem unglingur, en lenti síðan í hremmingum með ferilinn. Fyrst komst hann upp á kant við stjórnanda útgáfu og fyrir vikið var plata sem hann var nýbúinn að taka upp fyrir þá útgáfu aldrei gefin út. Þegar honum tókst ekki að fá teipin tók hann plötuna upp aftur en þá fór fyrirtækið á hausinn rétt þegar búið var að senda út kynningareintök af skífunni. Við svo búið dró J-Live sig í hlé og sneri sér að enskukennslu en hélt áfram að semja lög. Platan langþráða, The Best Part, kom loksins út opinberlega á síðasta ári, eftir fimm ára bið, en að sögn hefur hún verið gefin oft út sem bootleggur og selst í þúsundum eintaka. Hann var líka á Handsome Boy Modeling School plötunni So How's Your Girl? sem kom út fyrir þremur árum.
J-Live bauðst síðan að gera plötu á vegum nýrrar útgáfu og sú skífa, All of the Above, kom út snemma á þessu ári. Hann er fyrirtaks rímnasmiður og geysiklár enskumaður; greinilegt að kennanaranámið hefur nýst honum vel.