Fjölmiðlar og Hip Hop-Tónlistin og menningin! Ég var um daginn að gera heimildaritgerð í fjölmiðlafræði um hip hop ú ú mad shit..check it ;)

Inngangur

Tónlist er stór partur af lífi margra einstaklinga og margir eyða miklum tíma í kringum þetta listform. Til eru margar tónlistarstefnur og fjölmiðlar fjalla mismikið um ýmsar stefnur tónlistar. Í allri þessari umfjöllun eru þó margar stefnur sem oft eru skildar eftir. Það koma tískubylgjur sem valda því að meira eða minna er fjallað um hinar ýmsu stefnur tónlistar. Hip hop er tónlistarsstefna sem hefur mikið fengið að finna fyrir þessum tískubylgjum og hefur verið fjallað um hip hop tónlist í fjölmiðlum eftir því hvernig tískan hefur verið hverju sinni. Ímyndir í hip hop tónlist eru margar og hafa þær mikið breyst í gegnum tíðina. Á Íslandi er hip hop tónlist frekar ný af nálinni og fjölmiðlar hafa verið misduglegir við að fjalla um þessa tónlistarstefnu og umfjöllunin hefur ýmist verið jákvæð eða neikvæð. Þó hafa fjölmiðlar skapað þessari tónlistarstefnu mjög staðlaða ímynd, en hvað er eiginlega hip hop?

1.kafli
Hvað er Hip hop?

Hip hop er listform sem varð fyrst til í Suður Bronx hverfinu í New York um 1970. Það samanstendur af fjórum megin frumefnum, breikdansi, rappi, veggjalist og plötusnúðum. Fyrstu árin var hip hop aðallega í kringum menningarkima svartra og fólks frá Puerto Rico í New York en undanfarin ár hefur það breiðst út víðsvegar um heiminn. Hip hop er af sumum talið hafa hjálpað til við minnkunn glæpa hjá gengjum í New York vegna þess að fólk hefur notað það sem tjáningarform.
Breikdans einkennist af fimum og fjölbreyttum danssporum og á rætur að rekja til afrískrar sjálfsvarnarlistar. Það er ekki vitað hver var fyrsti breikdansarinn en þeir sem voru fyrstir til þess að gera breikdans vinsælan var hópur ungra stráka sem kölluðu sig B-boys og voru meðlimir í hreyfingu sem kallaðist Zulu nation. (1)
Plötusnúðar spila tónlist þannig að hún renni saman í eina heild og nota við það hraðastillanlega plötuspilara og/eða geislaspilara ásamt hljóðblandara (mixer). Um 1980 tóku plötusnúðar upp á því að vera með tvær eins plötur og spila hluta af plötunni sem var með vel leiknum lögum aftur og aftur þannig að úr varð nýtt instrumental lag. Þetta gerðu þeir þegar breikdans var að verða vinsæll og skortur var á lögum sem voru instrumental er best þótti að breikdansa við. Þeir plötusnúðar sem gerðu þetta voru kallaðir “turntabelists” sem hefur verið þýtt á íslensku skífuskankarar. Skífuskank hefur breyst mikið í tímanna rás og nú er það orðið þannig að skífuskankarinn býr nánast til lag úr mörgum lögum og hljóðum. (2)
Veggjalist, öðru nafni graffiti, var í fyrstu notuð af pólitíkusum til þess að koma skilaboðum á framfæri og af glæpagengjum til þess að merkja sér svæði. Þetta byrjaði ekki að vera listform fyrr en um 1960. Algengasta form veggjarlistar kallað “bombing” varð fyrst til í Philadelphiu, Pennsylvaniu á 7.áratugnum, þá voru það tveir veggjarlistamenn að nafni Cornbread og Cool Earl sem voru mest áberandi. Þeir skrifuðu nöfn sín út um alla borgina og vöktu þannig
mikla athygli hjá samfélaginu og fjölmiðlum. Stuttu eftir þetta fóru veggjarlistamenn að verða til í Washington Heights hverfinu i Manhattan, New York. Tímaritið New York Times birti grein um einn veggjarlistamann að nafni Taki 183 og í kjölfarið fór forvitni fólks að aukast á þessari neðanjarðarmenningu. Í fyrstu kepptust veggjarlistamenn við að hafa eins mikið af nöfnum(töggum) og þeir hugsanlega gátu en þegar veggjarlistamönnum fór að fjölga skapaðist þörf á að hafa eigið nafn og það myndaðist grundvöllur fyrir að skapa sér eigin stíl. Verkin sem veggjarlistamennirnir gerðu fóru að vera stærri og litríkari og mismunandi stílar komu fram á sjónarsviðið og þróuðust áfram (3) og í dag lifir þessi neðanjarðarmenning enn góðu lífi víðs vegar um heiminn. (4)
Fjórða frumefni hip hops, rapp, hefur í gegnum tíðina þróast og það sem nú er skilgreint sem rapp var fyrr á tímum skilgreint á allt annan hátt. Nú á dögum er rapp skilgreint á þann hátt að sá sem rappar er að segja texta(rímur) yfir instrumental tónlist og er þetta form hip hops mest útbreitt og rapp hefur því oft verið talið jafngilt hip hoppi. Rapp hefur ekki alltaf verið notað til þess að lýsa þessu tónlistarformi og var í fyrstu kallað emceeing(og er reyndar enn oft talað um emceeing) en það var fyrst um 1979 sem rapp var tengt saman við hip hop þegar tvær plötur voru gefnar út. Fyrsta rapp platan sem kom út var með hljómsveit að nafni Fatback Band og hét platan King Tim III, sú næsta sem er jafnramt frægasta platan var Rapper’s Delight með hljómsveitinni Sugar Hill Gang. Með þessum útgáfum komst rapptónlist í fjölmiðla og ímyndir urðu til í kjölfarið. En hafa ímyndirnar verið eins alla tíð eða hefur einhver breyting orðið þar á? (5)

2.kafli
Ímynd rapptónlistar í fjölmiðlum fyrr og nú

Rapparinn er með derhúfu, klæddur hettupeysu og gallabuxum sem eru ekki víðar. Hann er ekki með marga skartgripi aðeins eyrnalokk í öðru eyranu. Hann er staddur í fátækrahverfi og er að rappa um líf sitt, segir frá konu sem er hrifin af honum og áflogum sem hann lendir í og í enda lagsins hefur hann lent í fangelsi fyrir að hafa drepið mann. Þetta er lýsing á rapptónlistarmyndbandi sem heitir 25 to life og er með rapparanum D-Nice frá árinu 1989. Myndbandið sýnir vel þessa sögu sem hann er að segja í laginu og má í raun líkja þessu tónlistarmyndbandi við stuttmynd. Svona ímynd á röppurum var ríkjandi í kringum þessi ár. Þessi ímynd hefur sjálfsagt ýtt undir fordóma gagnvart þessari tónlistartegund, þar sem margir rapparar eru sýndir sem glæpamenn. Það er þó greinilegt að á þessum árum hafa vinsældir rapps verið að aukast gífurlega og sést það helst á því hversu mikið af röppurum eru að gera tónlistarmyndbönd og hversu mikið af þeim er sýnt í sjónvarpi. Áberandi lítið er um konur í myndböndum frá þessum árum en það sjást aðeins örfáar í myndböndunum ef þær á annað borð sjást. Þegar konur sjást eru þær jafnan sýndar sem hlutir, þær standa kyrrar við hliðina á rapparanum og dást að honum eða eitthvað því um líkt. (6)
Konur sjást dansandi inni á skemmtistað, klæddar í efnislítil föt, þær eru mikið málaðar, með mikið af skartgripum og mjög grannar. Rapparinn er glæsilega klæddur í jakkaföt, með stóra gullkeðju um hálsinn, situr í stól og reykir stóran vindil. Stuttu seinna gengur hann inn á skemmtistaðinn og konurnar fylgjast með honum, aðdáunarfullar. Seinna er hann inni í lyftu og inn gengur kona sem sást fyrr dansandi inná skemmtistaðnum. Allt í einu er sýnt eins og konan og rapparinn séu að fara á stefnumót og sýnt er frá því og mikið er gert úr umhverfinu og hlutum í kringum þau. Til dæmis fara þau um á einkaþotu, hann gefur henni bíla, einn fyrir hvern vikudag, og þau eru í mjög stóru húsi. Svo í endann kemur í ljós að rapparinn var að ímynda sér þetta stefnumót og hann er enn í lyftunni. Lyftan stoppar og þau fara bæði út en ganga í sitthvora áttina. Áður en konan er horfin úr augsýn snýr rapparinn sér við og spyr konuna að nafni og þau fara að tala saman. Þetta er lýsing á nýlegu tónlistarmyndbandi að nafni Excuse me miss með rapparanum Jay-Z. Mikil áhersla er lögð á konur í þessu myndbandi og er rapparinn að rappa um konur og samband sitt við þær. Það er frekar mikið sem gerist í þessu myndbandi og greinilega mikið lagt upp úr gerð myndbandsins, það sést einna helst á því hversu mikið af dýrum og flottum hlutum eru í myndbandinu og hversu vel myndbandið er klippt og ýmis svipuð atriði. (7)
Ef borin eru saman rapptónlistarmyndbönd frá árunum 1989 og 2003 sést tiltölulega mikill munur. Greinilegt er að ímynd rapptónlistarmanna hefur breyst talsvert úr því að vera glæpamenn og yfir í ríka menn sem hafa val á eins mörgum konum og þeim lystir. Meiri áhersla er lögð á konur í myndböndum þær eru orðnar grannari en þær voru og klæðast mun efnisminni fötum. Þær eru ekki kyrrar heldur dansa mikið í takt við tónlistina en eru þó enn sýndar sem hlutir. Það er meira um dýra hluti og merkjarvörur heldur en var. Mikið af flottum bílum og skartgripum og stórum flottum húsum eru sýnd í nýlegu myndböndunum en í þeim eldri eru rappararnir oftast í fátækrahverfum í hettupeysum og gallabuxum og lítið er um skartgripi og aðeins sjást flottir bílar í örfáum myndböndum. Það eru sennilega ekki margir Íslendingar sem hafa séð þessi gömlu rapptónlistarmyndbönd en með tilkomu nýrrar sjónvarpsstöðvar, Popptíví, sem sérhæfir sig í að sýna tónlistarmyndbönd hafa sennilega fleiri Íslendingar séð ýmis nýleg rapptónlistarmyndbönd. En eru einhverjir fleiri íslenskir fjölmiðlar sem fjalla um hip hop? (8)

3. kafli
Hip Hop í íslenskum fjölmiðlum

Það eru aðeins til fáir íslenskir fjölmiðlar sem sérhæfa sig í að fjalla um hip hop. Þó eru þeir fleiri núna heldur en þeir voru eftir að hip hop spratt fyrst upp á Íslandi. Því eftir mikla bylgju sem varð þegar gefin var út íslensk rapptónlist í fyrsta skipti hér á landi árið 1996 hvarf hip hop gjörsamlega úr fjölmiðlum.(9) En nú eru til nokkrar netsíður og ber þar hæst að nefna www.hiphop.is sem fjallar um öll frumefni hip hops og þar er að finna ýmsar greinar um hip hop, tengla á ýmsar heimasíður tengdar hip hoppi, fréttir um viðburði, plötugagnrýni, íslensk rapptónlist á mp3 formi, rapptextar, spjallkorkar þar sem fólk getur spjallað saman um heima og geima, myndir af viðburðum sem hafa átt sér stað, tónleikum og ýmislegt fleira.(10) Önnur netsíða sem er mjög aðgengileg er www.hugi.is/hiphop og þar má finna ýmsar greinar um hip hop sendar inn af ýmsum, tenglar á heimasíður tengdar hip hoppi, fréttir af viðburðum, spjallkorkar og fleira í þeim dúr. (11)
Tveir útvarpsþættir eru reglulega á dagskrá í íslensku útvarpi annar þeirra ber nafnið Kronik og þáttarstjórnendur eru dj Rampage (Robbi) og dj B-Ruff (Benni). Þessi þáttur er á dagskrá á X-inu fm 97,7 á föstudagskvöldum frá klukkan 23:00-01:00.(12) Kronik hefur starfað mjög lengi, fagnar nú sínu 10.starfsári, og hefur stundum verið eini miðillinn fyrir hip hop tónlist á Íslandi.(13) Annar útvarpsþáttur sem sérhæfir sig í hip hop tónlist er þátturinn Óskalög sjúklinga sem er á dagskrá á fimmtudagskvöldum á Rás 2 fm 90,1 frá klukkan 22:10-00:10 og þáttarstjórnandi er Bent. (14)
Undirtónar er tónlistarblað sem er dreift ókeypis á höfuðborgarsvæðinu einu sinni í mánuði. Í síðasta tölublaði var tiltölulega mikið fjallað um hip hop menninguna og tónlistina. Til dæmis var umfjöllun um tónleika,(15) grein sem fjallaði um hip hop menningu hér á landi,(16) viðtal við íslenska hip hop hljómsveit sem er í þann mund að gefa út sína fyrstu breiðskífu,(17) plötudómar á nýjum erlendum breiðskífum,(18) og einnig viðtal við erlendan rappara sem var hér á landi síðastliðin júní og hélt þá tónleika.(19)

Lokaorð

Þegar litið er yfir þróun í hip hop menningunni og rapptónlistinni sér maður að mikið breytist á stuttum tíma. Öll fjögur frumefni hip hops eru enn þann dag í dag til en eru þó í mörgu nokkuð breytt frá því að þau komu fyrst fram á sjónarsviðið. Mikið hefur bæst við menninguna og ýmislegt hefur að sama skapi dottið út. Ímyndir rappara hafa breyst, þeir eru ekki lengur fátækir glæpamenn heldur ríkir kvennabósar. Auðvelt er að sjá þessa þróun í rapptónlistarmyndböndum og eins með því að hlusta á texta í rapplögum. Nokkuð ljóst er að fjölmiðlar hafa mikil völd þegar kemur að því hvað er vinsælt og þeir ákveða nánast einir og sér hvað er vinsælt á hverjum tíma og hugsa um tónlist sem markaðsvöru. Íslenskir fjölmiðlar hafa verið svolítið flöktandi í þessu samhengi, sem sést á því hvernig hip hop hefur verið tekið til umfjöllunar á ýmsum tímabilum og þá orðið vinsælt samstundis og að sama skapi horfið fljótlega aftur þegar fjölmiðlar hafa minnkað eða hætt umfjölluninni. En þrátt fyrir afskiptaleysi og afskipti fjölmiðla á víxl er nokkuð víst að hip hop sem menning og tónlist mun lifa góðu lífi áfram jafnvel þó hún hverfi stundum úr fjölmiðlum.

Heimildir:

1. http://www.daveyd.com/whatishipdav.html
2. http://www.hiphop.is/modules.php?op=modload&name=Sectio ns&file=index&req=viewarticle&artid=7&page=1
3. http://www.at149st.com/hpart1.html
4. www.graffiti.null.is / www.artcrimes.com
5. http://www.daveyd.com/whatisrapdav.html
6. Vídeóspóla með tónlistarþættinum Yo! Mtv Raps, 1 spóla frá árinu 1989-1990, 90 mín
7. Popptíví 26.október 2003 frá klukkan 10:00-11:00
8. Popptíví 26.október 2003 frá klukkan 10:00-11:00 og Vídeóspóla með tónlistarþættinum Yo! Mtv Raps, 1 spóla frá árinu 1989-1990, 90 mín
9. http://www.hiphop.is/modules.php?op=modload&name=Sectio ns&file=index&req=viewarticle&artid=29&page=1
10. www.hiphop.is
11. www.hugi.is/hiphop
12. Útvarpsþátturinn Kronik á X-inu fm 97,7 kl:23:00-01:00 24.október 2003
13. Undirtónar 67.tbl-október 2003 bls.16
14. Útvarpsþátturinn Óskalög sjúklinga á Rás 2 fm 90,1 kl:22:10-00:10 23.október 2003
15. Undirtónar 67.tbl-október 2003 bls.10
16. Undirtónar 67.tbl-október 2003 bls.16
17. Undirtónar 67.tbl-október 2003 bls. 20-21
18. Undirtónar 67.tbl-október 2003 bls.28
19. Undirtónar 67.tbl-október 2003 bls.29

Svo vil ég bara segja að þessi ritgerð er auðvitað ekki tæmandi og fullt fleira væri hægt að segja..og fullt sem vantar þarna inn á milli..en þá yrði ritgerðin bara endalaust löng og aldrei tilbúin ;)
Peace