Loksins! Biðin er á enda. Hin langþráða nýja Sesar A plata, „Gerðuþaðsjálfur“
kom út 20. nóvember. Sesar A sannar hér enn og aftur að hann er meðal
framsæknustu og frumlegustu tónlistarmanna á Íslandi.
Í fyrra gaf hann út upp á eigin spýtur fyrstu rappplötuna eingöngu á íslensku:
„Stormurinn á eftir logninu”. Hún hlaut eindæma lof og var valin plata ársins
af mörgum gagnrýnendum. Í vor varð þriggja ára gömul hugmynd hans
„Rímnamín“ rappsafnplatan að veruleika og fékk einnig einstakar viðtökur.
Núna hefur hann farið enn lengra og fengið til liðs við sig: Diddú, Blazroca,
Freydísi, Vivid Brain, Bobba vandræðagemsa, Ibbagogg, Bangsa og Mc
Svarthöfða.
Til að setja punktinn yfir i-ið í tónlist sinni fékk hann Samma og Kjartan, úr
Jagúar, á básúnu og trompet, Hrafn á baritón sax, Hjörleif Jónsson á vibrafón
og Valdimar „Collins” Sigurjónsson á kontra- og rafbassa. Sjálfur spilar Sesar
á B3 Leslie orgel í nokkrum lögum. Einnig er skífuskanki gert hátt undir höfði
eins og endranær hjá Sesari A og sjá DJ Wiz og DJ Magic um það. En DJ Magic
hefur verið í víking með þeim Quarashi-liðum síðustu misseri.
Umslagið er einstakt þar sem handhafi disksins hefur frjálsar hendur
með að „geraþaðsjálfur“. Leiðbeiningar fylgja.
Hér er á ferðinni einstök plata með feitum hipphopphjartslætti vel útsettum
og matreiddum af Sesari A.
Inniheldur lögin: „Gerðuþaðsjálfur” (gestur: Diddú), „Allar hendur“ (gestur:
Bobbi) og „Smellurinn” (gestur: Mc Svarthöfði).
Sesar A: Gerðuþaðsjálfur 12“
Þú hélst að 12” markaðurinn á Íslandi heyrði sögunni til? Sesar A ætlar að
breyta því. Sem 12“ kynningu á nýju plötunni ætlar hann að gefa lagið
„Gerðuþaðsjálfur” (ásamt Diddú) á heimasíðu sinni sesar-a.com. Einnig verða
gefin hljóðdæmi úr fleiri lögum af plötunni.