Flest folöld eru tekin undan mæðrunum í byrjun fyrsta vetrar. Rúm stía, valið fóður, hreinlæti, góð umhirða og útivera í góðu veðri er skilyrði þess að folaldauppeldið heppnist vel.
Fyrst eftir að folöldin koma inn eru þau miður sín og snerta hvorki fóður né vatn. Ekki örvænta því eftir u.þ.b. viku fara þau að ná sér á strik, hætta að kalla á móður sína og fara að hafa betri lyst. Folöld þurfa kjarngott fóður og eftir um mánuð má ætla þeim sama magn og fullorðnum hestum. Það þarf að gefa þeim tvisvar ef ekki þrisvar á dag.
Þegar kemur að útiveru þá er best að folöldin fylgi hinum hestunum alveg út og inn og ef að það eru spakir hestar í hópnum ætti þetta ekkki að verða vandamál. Ungviðið þarf mikla hreyfingu til að þenja lungun og stæla vöðvana svo þau þroskist eðlilega.
Gefa þarf ormalyf a.m.k. þrisvar meðan folöldin eru á húsi, fyrst þegar þau koma inn, um miðjan vetur og áður en er sleppt að vori.
Nauðsynlegt er að kenna folöldum að bera stallmúl og láta binda sig. Þetta kemur sé vel þegar á að fara að gelda sem er venjulega gert um eins árs aldurinn. Einnig kemur þetta sér vel þegar trippin eru tekin inn eftir dvöl úti á mýri, kannski með stóði.
Þegar mýla (setja múl) á folald í fyrsta skipti er það sett á hentugan bás, best er ef tveir hjálpast að, annar stendur fyrir aftan til að varna folaldinu að ganga aftur úr básnum eða snúa sér við á básnum, hinn stendur fyrir framan og laumar múl á folaldið, síðan er það bundið við stallinn. Nú reynir litla krílið að losa sig og tekur á af öllu afli, en þessi átök standa sjaldnast lengi. Það má alls ekki yfirgefa hesthúsið í þetta fyrsta skipti því að folaldið gæti reynt að snúa við í básnu eða hendast fram á stallinn, svo best er að vera á staðnum ef folaldið kemur sér í sjálfheldu.
Ekki þarf að hafa folöldin bundin lengi í einu en næstu daga er gott að binda það við stallinn smástund í einu og fyrr en varir verður folaldið sátt við múlinn og bindinguna.
Það þarf að tálga hófa áður en sleppt er að vori því að fyrsta veturinn vaxa hófarnir mjög mikið. Hafa verður í huga að þessi tálgun er mikilvæg því að ef eitthvað fer úrskeiðis þá verður sennilega aldrei hægt að laga það þegar hrossið er fullvaxið. Þannig að best er að fá fagmann með reynslu í tálgun folaldahófa í verkið.
Nú hefur folaldið lært að standa við stall stað og stund, það hefur fengið ormalyf og búið er að tálga hófa og fax og tagl hefur verið snyrt. Nú látum við folaldið vera. Það er í lagi að kemba svolítið og strjúka folaldinu en bara í því skyni að láta það verða vanara snertingu manna. Ég lenti í því sjálf að þegar folinn minn var folald þá varð hann að gæludýri og ég er að sjá það núna að það verður afar erfitt að höndla hann því hann er svo ofdekraður og frekur, svolítið eins og ofdekrað ríkt barn. Passið ykkur bara á þessu.
Mest að efninu var tekið og breytt úr bókinni ,,Að temja" eftir Pétur Behrens annars var líka sumt sem kemur algerlega frá sjálfri mér. Njótið vel.
Með kveðju frá hestafríkinni…