Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hestum frá því ég man eftir mér og var eins og allt snérist um hesta og að geta komist á hestbak og reið ég alltaf berbakt á þeim dögum, annað hvort með taumbeisli eða bara beislislaust. Með taumbeislinu sveiflaði ég taumnum til skiptis yfir höfuðið á klárnum til að stýra honum annað hvort til vinstri eða hægri en beislislaust hallaði ég mér fram á makkann á klárnum og klappaði á hálsinn á honum til að gefa honum merki um að fara annað hvort til hægri eða vinstri og auðvitað var alltaf haldið í faxið. Gott enn í dag þegar með þarf í reiðmennskunni. Svo var riðið upp og niður brekkur á skeiði eða stökki og var eins og maður svifi áfram á klárunum yfir engi og tún. Já, það var gaman að vera ungur þá og upplifa þá frelsisvitund sem hefur fylgt mér æ síðan.
Það má bæta því við að þegar ég var lítil táta og gat ekki með neinum hætti hoppað á bak, greip ég fyrst það úrræði að teyma klárinn, vagnhestinn góða hann Stjarna út á gómsætan grasblettinn til að gæða sér á safaríku grasinu og áður en varði var ég komin á bak öfug eftir að hafa klifrað upp hálsinn á honum og séri mér síðan við án nokkurra vandkvæða. Svona var þetta á þá daga, heimur út af fyrir sig. Það dugar nú víst ekki að deyja ráðþrota.
Svo kom að því að ég var orðin of stór til að hoppa upp á hálsinn á honum Stjarna mínum en hvað átti ég svo að gera velti ég fyrir mér og reyndi að teyma klárinn upp að hestasteininum en ekki gekk það nú vel því að klárinn færði sig alltaf frá svo ég komst ekki á bak. “Hvílík þraut hugsaði ég í barnshjartanu.” Jú, þá kom bróðir minn, tveimur árum eldri en ég og tók í faxið á klárnum og klifraði á eins og ekkert væri en hann var stærri og sterkari en ég. “Þetta ætla ég að gera,” hugsaði ég og lét til skarar skríða en verð nú samt að segja að þetta reyndist mér erfitt í fyrstu en tókst þó að lokum með þrautseigjunni og viljastyrknum. Það var byrjað á að taka í faxið en kom fætinum ekki nógu langt upp til þess að geta rennt mér á bak svo ég steig upp á hnéð á klárnum sem snöggvast lyfti upp hægri fætinum og smellti mér á bak. Góð æfing þetta! Meira
Bætt við 26. júní 2010 - 08:46
vantar klifraði (a bak)