Mér finnst alveg óþolandi að vera með hjálm. Sérstaklega ef það er heitt úti, svona sleppur ef það er alveg skítkalt, þá heldur þetta hita á hausnum ;-) Ég hef stundum verið að pæla í því að sleppa bara þessum andskotans hjálmi. Ég hef nú ekki dottið af baki í ein 8-10 ár og í þau fáu skipti sem ég hef dottið af baki þá hef ég hvorki slasast ( nokkrum sinnum misst andann reyndar ) né dottið á hausinn.. Svo er maður alltaf að sjá alla þessa frægu ( fyrirmyndirnar ??) og ófrægu hestamenn ríðandi út hjálmlausir. Svo til hvers í ósköpunum að hafa hjálm á hausnum ??
Þegar ég hugsa svona þá hugsa ég til þess þegar ég var einu sinni á hestamóti Trausta á Laugardalsvöllunum. Ég og vinkona mín vorum að ná í hestana okkur úr girðingunni þegar við sáum stelpu koma á svaka hraða í áttina að girðingunni, augljóst að hesturinn var að rjúka og hún réði ekkert við hann. Hún fauk svo af baki aðeins nokkra metra frá okkur og *búmm* með hausinn á hestakerru. Mig hryllir við að hugsa til þess hvað hefði gerst ef hún hefði ekki náð að setja hjálminn á hausinn því í byrjun þá hélt hún bara á honum en var rétt búin að setja hann á hausinn þegar hún lenti á hestakerrunni. SEM BETUR FER !!! En aftur á móti hverjar eru líkurnar á að þetta komi fyrir mann ?? Að lenda með hausinn á hestakerru ?? Ekki miklar… En ég hef alltaf verið mikið fyrir það að hafa öryggið í lagi og ekki mikið fyrir “hvað ef” svo ég hef hlýðin sett á mig hjálminn.
Núna í fyrradag var ég að ríða út á hesti sem er alveg ferlega skapmikill en ég hef alltaf haft fulla stjórn á honum en er sú eina sem ríð honum því allir á heimilinu vilja rólegri hest.
Hann hefur alltaf tekið því illa ef ég hef verið að teyma hest með honum. Hefur átt það til að prjóna og vera með smá læti en alltaf hef ég tollað á baki og var eiginlega viss um að það myndi ekki gerast að ég gæti dottið af baki af þessum hrossum okkar. Svona er þetta að vera orðinn aðeins of fullviss um hæfileika manns á hestbaki.
Í fyrra dag var ég bara að teyma hann með og ætlaði ekkert á hann. En hesturinn sem vinkona mín var á heltist svo ég ákvað að fara á hann og teyma hestinn sem var haltur með. Sumir urðu nú ekkert kátir með það og hann bara byrjaði að stinga sér á fullu. Mér leið eins og í ródeóbíómyndunum. Á endanum fauk ég af baki ( var einum of örugg með mig og á nýjum hnakki sem ég var að prufa í fyrsta sinn og var ekki með jafnvægið alveg í lagi )og viti menn lenti á hausnum og tognaði illa á hálsi. Mig langar hreinlega ekki til að vita hvað hefði gerst ef ég hefði tekið þá ákvörðun einhvern tíman að hætta að vera með hjálm.
Svo góðu hestahugarar sama hvað þið teljið ykkur vera góða á hestbaki þá er enginn svo góður að möguleikinn á að detta ekki af baki sé enginn. Þó það hafi liðið mörg ár síðan síðast þá er aldrei óhætt að halda að svo haldi áfram.
Svo þið sem hatið að hafa hjálma á hausunum haldið því endilega áfram og þið sem notið ekki hjálma…. Viljiði taka áhættuna ???
Kv. catgirl með illa tognaðan háls, sært stolt og ákveðin í að halda hjálminum alltaf á hausnum !!!!!!!!!