Allir sem eiga hesta þurfa að vera meðvitaðir um heilsu þeirra. Eigi hesturinn að vera góður og meðfærilegur verður honum að líða vel. Því um leið og eitthvað angrar hestinn líkamlega er hætta á því að hann verði ósamvinnuþýður og erfiður viðureignar. Oft er um smávægilegan pirring að ræða sem auveldlega má koma í veg fyrir með réttri umhirðu en stundum er vandinn stærri og meiri, og þá er nauðsynlegt að leita hjálpar hjá dýralækni.
Hér verður farið yfir nokkra algenga kvilla hjá íslenska hestinum, einkenni, orsakir og hvernig má koma í veg fyrir þá og/eða lækna.
Gaddur
Þar sem neðri kjálkinn er mjórri en sá efri á hestum, þá slitna ytri kantar jaxlanna í neðri góm minna sem og innri kantur jaxlanna í neðri góm. Við þetta myndast skarpur tanngaddur út við gómfylluna og inn að tungunni. Þessa gadda verður að raspa svo hesturinn særi sig ekki í munni og einnig til að honum gangi betur að tyggja. Þetta er algengara hjá sumum hestum en öðrum, ágætis regla er að athuga þetta alltaf um leið og hestar eru teknir á hús, suma hesta getur þurft að raspa undantekningalaust strax og þeir eru teknir inn. Yfirleitt þarf að raspa jaxla bæði í efri og neðri góm. Þetta sést yfirleitt ef athugað er upp í hesta en það finnst einnig þegar farið er á bak þeim, þar sem þeir reyna oft að verja aðra hvora hliðina, þeim megin sem þeir eru verri og verða stífir í beisli.
Hækill-Spatt
Spatt er sjúkdómur sem leggst á smáliði hækilsins og veldur því að liðbrjóskið rýrnar og það verða beinmyndanir í þeim. Á fyrstu stigum sjúkdómsins er erfitt að greina hann, en þegar lengra líður, sjást beinmyndanirnar á röntgenmynd. Einkennin geta verið allt frá því að hesturinn finni ekkert fyrir þessu til þess að hann verði stirður í hreyfingum eða haltur með og/eða án beygiprufu. Spatt kemur oft í báða afturfætur en það gerir það að verkum að margir hestar verða ekki greinilega haltir heldur verða smástígir og stirðir í gangi, safna sér illa, fá vöðvaþrota í lendarnar og hæfnin skerðist. Í raun er lítið vitað um ástæður spatts, nefnd hafa verið nokkur atriði eins og fóðurgjöf í uppvextinum, notkun þ.e. tamningaaðferðir, hnakkur og reiðkunnátta knapans, einnig hefur verið talað um að sjúkdómurinn gangi í erfðir, nefnt hefur verið svokallað Orraspatt o.s.frv., en í raun er lítið vitað um ástæður spatts. Ef það kemur í ljós að hestur er spattaður, þá þarf að gefa honum algjöra hvíld í a.m.k. einn vetur, oft geta hestar náð sér og geta verið ágætir reiðhestar í framtíðinni, en ávallt þarf að hafa gætur á því að ofgera ekki hestinum. Annað ráð er uppskurður með mikilli þjálfun á eftir. Ef hesturinn er illa haldinn af spatti getur þurft að fella hann.
Hófsperra
Hestar fá hófsperru þegar ákveðin streptakokkabaktería sem er eðlilegur hluti af þarmaflóru hestsins blæs upp. Bakterían fjölgar sér í þörmunum við snögg fóðurskipti, við of mikið af nýju grasi, við ofát af kraftfóðri o.frv. Bakterían myndar ensím sem hægja á blóðrásinni niður í hófana. Ensímið truflar hið fullkomna en viðkvæma kulda- og hitastýrikerfi í hófunum. Þetta veldur breyttri flókinni atburðarrás sem getur gert það að verkum að hófbeinið losnar inn í hornskónum og djúpa beygsin tekur mjög í og þá getur fremsti hluti hófbeinsins rekist niður í hófbotninn og í mjög slæmum tilfellum gengið í gegnum hann. Þá er sagt að hófbeinið sé snúið. Þetta sést á röntgenmynd. Hófbeinið getur líka sigið niður og þá myndast mjög hvöss og greinileg brún fremst á hófhvarfina. Þetta gerist oftast aðeins á framfótunum en getur þó gerst á öllum fjórum fótunum samtímis. einnig er til að þetta gerist aðeins á einum fæti og sést þá að hesturinn hlífir þeim fæti. Því fyrr sem hófsperran er meðhöndluð, því betri eru möguleikarnir á því að það takist að hefta eða stöðva snúning hófbeinsins. Meðferðin felst í sýklagjöf , bólgueyðandi lyfjagjöf og algjörri hvíld í stíu með þykku undirlagi. Einkenni hófsperru eru helti eða mjög stirðlegur gangur, óeðlilega hár púls í fótum og hiti í hófum, auk eymsla ef komið er við hófbotninn. Einnig getur hesturinn svitnað mikið og mæðst vegna verkjanna. Hófsperra getur orðið það slæm að aflífa þarf hestinn samstundis.
mbk. Böðvar Guðmundsson