Hún er að verða 4 ára í apríl, og er voðalega spennt fyrir hestum.
Ég sá fyrir einhverja rælni auglýsingu um hestanámskeið fyrir börn á aldrinum 3-6 ára og greip tækifærið, ég vissi ekki að það væru námskeið fyrir svona stubba.
Hún var reyndar veik í fyrsta tímanum en mætti hress og spræk um seinustu helgi, og mikið rosalega var ég ánægð með hvernig er að þessu staðið.
Þeim er kennt að kemba hestunum áður en þau fara á bak, og svo gefa þau “sínum” hesti smá nammi.
Síðan er lagt á, reyndar bara hnakkdýnur sem að ég held að sé betra, engin ístöð og þau læra fyrst og fremst að halda jafnvægi.
Þau gera æfingar með höndunum, sleppa hnakkdýnunni og lyfta höndunum upp á hjálminn og fleira.
Það er ein manneskja sem teymir hestinn og svo labbar foreldri eða forráðamaður meðfram hestinum og heldur í band sem er bundið um mitti barnsins, til að geta gripið það ef það dettur af baki.
En það er aðallega léttleikinn sem ræður ríkjum þarna, þetta er bara eins og leikur en ekki skóli, þau semja sögur á meðan þau labba hring eftir hring í gerðinu, þykjast vera uppi í sveit að smala rollum, og þeim var líka kennt að teyma hestinn.
Þeim er einnig kennt hvað líkamshlutar hestsins heita, og að þekkja í sundur ýmsar gerðir af skeifum.
En fyrir ykkur sem eigið börn á þessum aldri, þá mæli ég innilega með þessu fyrir þau. Þetta eflir sjálfstraustið og er mjög gott fyrir jafnvægið hjá þeim.
Án þess að vera að auglýsa neitt sérstaklega þá er þetta reiðskólinn Faxaból í Víðidal.
Þakka ykkur fyrir að hafa nennt að lesa þennan mont pistil minn :)
Zallý
———————————————–