Að undanförnu hefur nokkuð verið rætt og ritað um lagningu göngu- og hjólreiðastíga í gegnum svæði hestamanna í Víðidal og nágrenni. Þessi ólánsgjörð er aðeins hluti af stærra vandamáli og ber að ræðast með tilliti til þess. Þetta vandamál er tvíþætt. Af öðrum þræði er hér um að ræða töluvert skilningsleysi borgaryfirvalda á þörfum og högum okkar hestamanna og ákveðin tilhneiging þeirra til að ýta þessari starfsemi stöðugt lengra út úr borginni eftir því sem byggð færist nær. Einnig og ekki síður er hér um að ræða ákaflega dapra hagsmunagæslu hestamannafélagsins Fáks og er það í raun mun dapurlegri staðreynd. Reiðstígamál hér á þessu svæði eru og hafa lengi verið í miklum ólestri sé tekið mið af flestum okkar nágrannasveitafélögum. Sérlagðir reíðstígar eru vart lengri en 2-4 km. Að öðru leiti notast hestamenn við aflagða bílvegi og þjónustuvegi veitustofnana Reykjavíkurborgar. Þessum stígum höfum við svo deilt með öðru útivistarfólki svo sem hlaupurum, hjólreiðarmönnum og það sem verra er vélknúnum ökutækjum , svo sem snjósleðum og númerslausum ótryggðum torfæruhjólum sem þarna fara um að því sem virðist undir lögregluvernd. Alvarlegasta dæmið um skilningsleysi borgaryfirvalda á högum og aðstöðu hestamanna á Víðidalssvæðinu er nýleg lagning göngu- og hjólastíga þvers og kruss yfir reiðstíga sem þarna voru fyrir. Þessi gjörð er stóralvarleg aðför að lífi og heilsu fjölda manns og gildir þar jafnt um hjólandi, gangandi sem og ríðandi umferð. Þarna er stefnt til óvinafagnaðar algjörlega af ástæðulausu og á vítaverðan hátt. Ég vil ekki trúa því að þarna hafi þekkingarleysi ráðið för. Því læðist að manni sá grunur að þarna hafi illur vilji einhverju um ráðið. Sá grunur staðfestist að nokkru er ég las viðtal við gatnamálastjórann í Reykjavík 9. Febrúar síðastliðinn þar sem hann spyr á hrokafullan hátt hvort hestamenn séu hvort eð er ekki alltaf að detta af baki og leggur til að efnt verði til happadrættis um það hvort slysum muni fjölga við þetta. Í sama streng tók formaður umhverfis- og heilbrigðisnefndar Hrannar B. Arnarsson. Það sem gerir þetta mál enn alvarlegra en ella er að í Víðidal eru reknir 2-3 reiðskólar allt árið og er því ungum börnum og byrjendum á öllum aldri stefnt að þessum slysagildrum sem borgin hefur svo sannarlega lagt út. Síst mátti þessi viðkvæma starfsemi við auknu áreiti af umferð sem af þessu hlýst. Það hefur því miður komið berlega í ljós við umfjöllun þessa máls til dæmis á fundi í félagsheimili Fáks að hestamannafélagið Fákur svaf á algjörlega á verðinum í þessu máli og kom það meðal annars fram á umræddum fundi að frammámenn þess félags unnu sér það helst til frægðar að hlaupa út í móa og hundskamma verktaka sem unnu að þessari stígagerð. Sú för var að sjálfsögðu sneipuför. Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem Fákur reynist hestamönnum á þessu svæði ekki sú brjóstvörn sem á þarf að halda í baráttu fyrir bættri aðstöðu. Að undanförnu hefur átt sér stað mikil uppbygging á aðstöðu útivistarfólks og er það vel. Golfáhugamenn hafa til dæmis fengið stór landsvæði undir starfseni sína í sumum tilfellum rándýr byggingarlönd. Göngu- og hjólastígar hafa verið lagðir kringum borgina upp um alla Heiðmörk og Rauðavatnshæðir og er hér hvergi ofgert. En hér skilja leiðir með hestamönnum og öðru útivistarfólki. Lóðir hafa til dæmis ekki verið boðnar undir hesthús síðastliðin 15-20 ár nema ef undan er skilin örlítil þétting byggðar í Víðidal. Í þessu sambandi má nefna að nú um áramót fengu um 200 eigendur 600 hrossa sem haft hafa aðstöðu í Norðlingaholti boð frá borginni um að ríma þessa aðstöðu innan mjög skamms tíma án þess að nokkur úræði væru föst í hendi í staðinn. Byggt verður í Norðlingaholti á næstu 2-3 árum, hringtorg verður sett niður við Rauðavatn og seinna mislæg gatnamót og þar af leiðandi verða undirgöng tekin af samkvæmt upplýsingum gatnamálastjóra í Fréttablaðinu nýlega. Byggt verður á sama tíma í Vatnsendalandi norðan Elliðavatns, þetta þýðir á mæltu máli að Víðidalurinn hefur hlotið sömu örlög og hverfi Gusts í Kópavogi. Sem sé byggð allan hringinn. Það liggur í augum uppi að 2000 manna byggð í Norðlingaholti og vinnuaðsetur hundruða manna á því svæði, breytingar á umferðamannvirkjum við Rauðavatn sem og aukin byggð við norðanvert Elliðavatn hlýtur að auka svo áreiti á og við reiðleiðir þær sem liggja til og frá Víðidalnum að við liggur að þær verði með öllu ónothæfar og jafnvel lokist alveg vegna byggðar. Það hlýtur því í aðdraganda kosninga að vera eðlileg spurning til borgaryfirvalda og hagsmunafélags hestaeigenda Fáks? hvað hafi verið gert til að tryggja það að Víðidalurinn lokist hreinlega ekki af og standi ef til vill í sömu sporum og svæði Fáks á Sprengisandi þegar það var flutt í Víðidalinn?.
VIRÐINGARFYLLST
Þorgeir Benediktsson