Jæja, þar sem ég er hestamaður verð ég beinlínis að svara þessum spurningum.
1. Af hverju ertu í hestamennsku? -hvað er að þér? Þetta er hættulegt, tímafrekt, lyktar illa og fok dýrt í ofan á lag.
Svar: Jú, þetta er fullkomlega þess virði. Hestarnir 2 sem ég á eru báðir miklir vinir mínir og góðir reiðhestar sem minnkar “hættuna”(hver sem hún er) til mikilla muna. Það getur verið frábært að vera á hestbaki úti í sveit á sumrin(þar sem hestarnir mínir eru í haganum) og ríða uppí sumarbústað, hafa þá þar á lóðinni meðan maður kembir þeim í sumarblíðunni og gefur þeim gamalt brauð.
Þú spyrð tímafrekt. Ja, ef það að stunda hestamennsku er að eyða tímanum sínum í vitleysu, hvenær er maður að gera eitthvað af viti? Núna til dæmis er ég að eyða tímanum mínum í algera vitleysu við að hanga á huga.is og hlusta á tónlist á meðan ég gæti verið að læra heima, moka stéttina eða þrífa hjólið mitt. Að stunda hestamennskuna getur verið jafn mikilvægt og að hafa hreint hjól eða góðar skólabækur.
Og svo með kostnaðinn. Eftir alla þá kosti sem ég hef talið upp í sambandi við það að eiga hesta þá held ég að það nægi sem svar við kostnaðinum.
2. Hver er undirstaðan að góðri reiðmennsku? Hvað er það sem góður knapi hefur yfir hinn venjulega knapa? (Þarna kæmu mjög mismunandi svör fram).
Svar: Það geta verið mýmörg atriði. T.d. að vera góður vinur hestsins og láta hann treysta þér sem vini, vera þaulreyndur á hestbaki, nú eða naskur að sjá þegar hesturinn manns er veikur eða líður illa og þar fram eftir götunum. Allt þetta gerir mann að góðum knapa og hestamanni. Sumum er þetta í blóð borið og haga sér á hestbaki eins og þeir hafi aldrei stigið fæti niður á jörðina, meðan aðrir eru taugaóstyrkir og sitja eins og kartöflupoki á hestinum þótt þeir hafi riðið honum mörgum sinnum.
Rétt eins og þú sagðir í spurningunni, það koma mörg mismunandi dæmi fram.
3. Allir eiga eitthvað eitt “trikk” í hestamennskunni. Eitthvað sem snertir taumsambandið í töltinu, ásetuna í skeiðinu… hvert er þitt “trikk”?
Svar: Þetta er nokkuð erfið spurning. Hesturinn er þannig dýr að það ætti beinlínis ekki að vera eitthvað eitt “trikk” til að smella honum í gang og laða fram hinn ljúfasta gæðing. Það eru frekar mörg minni atriði sem maður lærir smámsaman með reynslu á hestum, sem maður getur sett saman á einhvern hest. Þessi skepna er ekki það einföld að eitt eða tvö brögð dugi á hann.
4. Lýstu besta “mómenti” þínu á baki hests?
Svar: Úff, þessi spurning var sú erfiðasta af þeim öllum. Ég hef riðið það mikið út og farið í það margar hestaferðir að ég á aldrei eftir að geta fundið hina sönnu stund. Sú sem ég man eftir í svipinn er þegar við fjölskyldan vorum í miðri hestaferð í fyrrasumar og komum að Snorrastöðum (sem er bær í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu).
Þar fyrir utan bæinn eru magnaðar leirfjörur sem hverfa allar undir sjó á flóði, en þegar fjarar út blasir við gríðarleg slétta sem er eintóm fjara. Við fórum þangað útá þegar stórstreymt var, og riðum út á Gömlueyri, sem er um 7.km löng og nokkur hundruð metra breið sandströnd sem stendur uppúr fjörunni með hvítum skeljasandi(hugsið ykkur!). Þar áðum við í blankalogni og glampandi sól, og veðrið var engu verra en á sólskinsdegi á Kanaríeyjum! Hvert sem auga var litið var hvítur sandur, sjórinn á aðra hlið og skeljar og sandur á hina, en fyrir ofan var heiðblár himinn og skærgul sólin. Það hugsa ég að hafi verið sú magnaðasta stund sem ég hef upplifað á hestbaki.
Jæja, þetta er orðið svolítið langt og ég er ekki viss um að þið nennið að lesa þetta, en mitt framlag til þess að vera valinn “hestamaður mánaðarins” er þetta.
Hvurslags