Mélalaus beisli hafa mikið verið í umræðunni inni á hestasíðum núna síðustu daga, og rakst ég einmitt á umræðu um þau hér inni á Huga. Hvaða álit hefur fólk almennt á þessu beisli? Finnst öllum þetta mjög sniðugt, eða finnst fólki þetta bara algjört rugl?
Svo ég segi fyrir mitt persónulega álit, þá fannst mér þegar að ég las greinina hér fyrir neðan um þessi mélalasu beisli, að öll vandamál hestsins lægju í mélunum. Þar var verið að segja: “Fáið ykkur mélalaus beisli, og hesturinn þinn verður vandamálalaus”. Svo einfalt held ég að það sé ekki, og eins og kemur fram í greininni þá hafa mél verið notuð upp í hesta síðan á bronsöld, sem að er mjög langur tími. Ég held að fólk væri nú búið að komast að því mun fyrr, ef að staðreyndin væri þessi, að mél væru eins og djöfullinn. Svo mikið hefur komið af þessum mélalausu beislum, þótt að það sé kannski ekki búið að rannsaka þetta svona mikið áður, eins og Dr. Cook hefur gert.
Svo að það sé nú alveg á hreinu þá líst mér mjög vel á þessi beisli, og væri ég alveg til í að eignast eitt, finnst þetta mjög sniðugt, en að nota eingöngu þetta, veit ég ekki alveg um. Skoðun mín er sú að ef að fólk er næmt og er ekki alltaf í einhverju reiptogi við hestinn þá eru mél ekki þessir skaðræðisgripir sem þau eru sögð vera í þessari grein. Ég held að ef að þau væru það, þá væru hross ekki svona sátt og ánægð, eins og maður sér bara á þeim hrossum sem að hafa verið að standa ofarlega á sýningum og mótum, það geislar af þeim ánægjan. Og er það vegna þess að fólk er með mélalaus beisli á þeim?
Getur þú safnað hesti með mélalaust beisli? Getur þú gangsett hest með mélalaust meisli, með jafn góðum árangri og með mélum? (Taka skal fram að greinarhöfundur hefur enga reynslu af þessum beislum, og veit þess vegna ekki hvert svarið er, en bendir spurningunum til þeirra sem að hafa einhverja reynslu af þeim og hafa kannski eitthvert svar, og hafa samanburð, þ.e.a.s. hafa notað bæði málalaust beisli sem og beisli með mélum til þess að gera upptalda hluti)
Því spyr ég þig, lesandi, til hvers notar þú beisli með mélum? Er það til að meiða hestinn, eins og við öll vitum að hægt er að gera með mélum, eða er það til þess að stjórna hestinum, án þess að vera í reiptogi við hann?