Ég sé að nokkrir hafa verið að skrifa um föll þeirra af hestum… ég hef örugglega dottið nokkrum hundruðum sinna af hestum (var að temja í nokkur ár) en mig langar að skrifa um þrjú alvarlegustu skiptin.
Fyrsta raunverulega alvarlega skiptið gerðist þegar ég var um 12 ára gömul, ég var í útreiðartúr með systrum mínum og vorum við á leið á næsta bæ í sveitinni okkar.
Hluta leiðarinnar þurftum við að vera alveg í vegarkanti vegna mýrar beggja megin við veginn. Þegar við erum rétt komin uppfyrir blindbeygju ákvað ökumaður bíls sem var að koma að brekkunni að flauta á okkur.
Merin sem ég var á (Perla) fældist alvarlega og ég flaug af baki á malbik, ég hélt enn í tauminn hjá henni og var eiginlega hálf föst í taumnum. Merin dróg mig nokkra metra og var ég VERULEGA skrámuð eftir þetta fall… fyrir utan það að ég var hreinlega að deyja í annarri mjöðminni og höndinni sem var flækt í tauminum.
Perla og ég eigum okkur langa sögu af því þegar ég hef dottið af henni eða þá að hún hefur verið að reyna að henda mér af baki, ég fór í fyrsta skiptið á hana þegar hún var fimm vetra og næstum algerlega ótamin.
Næsta skipti er þegar ég var nýlega búin að fermast, ég fékk hest í fermingargjöf sem ég nefndi Storm. Fyrsta skiptið sem ég fór á hann var ég að ríða frá bænum þar sem hann hafði verið fram að fermingunni minni og heim í Dalinn sem ég bjó í.
Hann var hræddur og æstur mikinn hluta leiðarinnar en hafði róast verulega frá því hvernig þetta hafði byrjað. Við hefðum líklegast ekki haft nein vandamál hefði ekki verið glerflaska í grasinu þar sem við vorum að ríða í gegnum sem blikaði á. Hann fældist all verulega og byrjaði að dansa.
Ég endaði á því að detta af honum og í fallinu tókst mér að bráka á mér hægri mjöðmina (komst að því þegar ég fór til doksa eftirá) og nokkra fingur þar sem ég hélt í tauminn hjá honum þrátt fyrir að ég væri dottin af.
Stormur þekkti ekkert til í sveitinni okkar þar sem blóðfaðir minn hafði komið með hann vestur nokkrum vikum áður og ef ég hefði sleppt honum hefði hann líklegast bara hlaupið til fjalla.
Ég gat aldrei setið Storm eftir þetta en hann var samt sem áður yndislegasti hestur í heimi, það gat enginn setið hann nema pabbi minn (stjúpi).
Stormur var í raun besti vinur minn í nokkur ár og ég sakna hans ekkert smá mikið. Það var rosalega sárt að sjá hann fara en það var verra að þurfa að horfa uppá hann þjást.
Þegar hann var felldur fundust mörg mjög slæm ör á honum, ég hafði fundið nokkur ljót ör eftir svipu á honum og þegar hann var felldur fundust fleiri ör.
Þegar blóðfaðir minn keypti Storm handa mér var sagt við hann að hesturinn væri taminn (hann var varla grunntaminn) og að það hafi alltaf verið farið vel með hann… Það sannaðist seinna að svo hefði ekki verið. Mannfýlan sem gerði hestinum þetta ég vona að hún/hann rotni í helvíti.
Ég ætla að skrifa um eitt fall til viðbótar.
Þegar ég var að vinna í Austurríki við að temja íslenska hesta lenti ég í sæmilega slæmu slysi með eina merina sem ég var að temja (Dúkka).
Ég var að gangsetja hana uppi í skógi sem var næstu þar sem ég bjó en ég var vön að fara á hestunum þarna í gegnum skóginn.
Þennan dag ákvað allt að fara úrskeiðis. Merin lét illa í taumi og þegar ég var að hvetja hana áfram ákvað hún að hrekkja, svo þegar smáfugl ákvað að fljúga útúr runna þá rauk hún með mig.
Í þessarri blessuðu roku hljóp merin beint í átt að tréi, ég gat ekki stöðvað hana eða neitt. Merin náði að beygja fyrir tréið en ég endaði á því.
Þegar ég raknaði úr rotinu var merin nokkra metra frá mér og ég með ROSALEGAR blóðnasir!
Ég náði að standa upp en vinstri hliðin á mér var í ALGERU maski!
Sem betur fer var ég með síma á mér og gat hringt á hjálp þar sem ég var ein.
Ég endaði á sjúkrahúsi í Neunkirchen með mjöðmina aftur í maski, stórann skurð á nefinu og leit út eins og hringjarinn í Notre Dame! Það varð að sauma skruðinn sem var á nefinu á mér en hann náði næstum inn að augnkróki :S
Ég hef ekki setið Dúkku eftir þetta en ég flutti til baka frá Austurríki mánuði eftir slysið þegar ég var búin að temja hina tvo hestana sem ég var að vinna með en Dúkka var send til fola daginn eftir slysið.
Þetta er sagan af slæmu föllunum mínum!
Ég hef endalaust oft dottið fyrir aulaskap af baki… eins og þegar hesturinn togar í tauminn, eða skiptir um gang að aftan þannig að rassinn dettur niður… eða þegar hesturinn ákveður að fá sér bita eða drekka…
Ég hef hinsvegar lagt tamningar að mestu á hilluna því að mjöðmin á mér er ekki uppá sitt besta og á stundum erfitt með að sitja hesta í lengri tíma, svo ég er að leyfa þessu að jafna sig almennilega.
Ég hef enn ekki dottið af henni Taran minni sem var tamin seinasta vor en hún er alger demantur. Hlakka bara til að geta setið hana aftur!
Kv. Sveina