Jæja, ég ákvað að taka þátt í þessu “óbeina greinaátaki” og segja aðeins frá óhöppum mínum í hestamennskunni í gegnum tíðina.. Man reyndar ekki eftir öllum skiptunum en ætla að segja frá þeim sem ég man best eftir ;)
Fyrsta skiptið:
Fyrsta skiptið sem ég datt af baki var áður en ég eignaðist minn eigin hest og var ég á lánshesti sem hét Gimsteinn. Mig minnir að ég hafi verið svona 7 eða 8 ára og var þetta því örugglega hinn rólegasti barnahestur sem ég var á :) Ég var í reiðtúr með fullt af fólki og það var búið að rigna mikið undanfarna daga þannig að það var mikið drullusvað og þá sérstaklega á einum kaflanum þar sem hestarnir sukku aðeins niður en þó ekki það mikið að við gátum samt verið á hægu tölti eða brokki. Allt í einu festir Gimsteinn framfótinn í holu og flýgur fram fyrir sig. Ég fer fram af honum ofan í drullusvaðið og fæ hann svo ofan á mig.. Hann var nú samt ótrúlega snöggur að koma sér af mér og á fætur. Auðvitað varð uppi fótur og fit í reiðtúrnum og allir stukku af baki til að sjá hvort það væri í lagi með mig, kona frænda míns sem var með í reið er gamall íþróttakennari og tók hún það að sér að athuga hvort ég væri ekki alveg heil með því að láta mig standa upp og gera nokkrar leikfimisæfingar, þar á meðal að hoppa með hendur og fætur sundur saman og svona :) Meðan við vorum hoppandi þarna saman sagði hún við mig að nú væri ég sko orðin alvöru hestakona fyrst ég væri búin að detta af baki, líklega bara til þess að mér liði betur ;) Sem betur fer var ég rosalega heppin og komst alveg heil frá þessari byltu :)
Fyrsta byltan af Ljúf:
Fyrsta skiptið sem ég datt af honum Ljúf mínum, fyrsta hestinum mínum sem ég fékk þegar ég var 10 ára, var í reiðtúr rétt hjá Gusti með fjölskyldunni þegar ég var um 11 eða 12 ára. Þennan dag kynntist ég mjög vel hversu góðhjartaður þessi hestur er. Við vorum á greiðu tölti á reiðstíg og allt í einu er stór kræklótt grein á veginum sem Ljúfur sá ekki fyrr en við vorum komin alveg að henni. Honum brá svo að hann tók undir sig stökk út á hlið og ég varð eftir í loftinu :S
Þar sem ég var 11-12 ára var ég frekar lítil í mér og brá svolítið þannig að það komu nokkur tár, en á meðan mamma var að hugga mig kom Ljúfur til mín og setti snoppuna alveg að hausnum á mér eins og til að hugga mig og biðjast afsökunar. Ég var ekki lengi að jafna mig og stökkva aftur á bak eftir þetta :)
Smalamennska haustið 2006:
Á hverju hausti fer ég í sveitina “mína” og hjálpa til við að smala kindum, þar sem þær eru á stóru heimalandi við sveitabæinn. Ég fer oftast á Ljúf þar sem ég treysti honum algerlega fyrir lífi mínu eftir þessi 11 ár sem við höfum átt saman og það er oft svolítill hasar svona í endann á þessu öllu saman :) Við vorum rúmlega hálfnuð með smalamennskuna þegar ég kem meðfram smá hæð, en hinum megin við hæðina var smá dalur. Þegar ég kem fyrir hæðina sé ég tvær rollur inn í þessum dal en dalurinn var frekar þverhnýptur báðum megin svo það var ekki auðvelt að komast meðfram honum. Ég ákveð að fara öðrum megin þar sem var brött grasbrekka, Ljúfur var frekar pirraður að þurfa að fara til baka og langaði miklu frekar að snúa við og skilja rollurnar bara eftir.. Við förum samt á stökki inn dalinn og var mín komin í svaka fíling þegar Ljúfur allt í einu snarsnýr sér niður í brekkuna (á stökkinu) og ég alls ekki viðbúin því þannig að ég flýg af. Það sem bjargaði mér eigilega var það að ég sleppti ekki taumnum því annars hefði ég líklega rúllað niður brekkuna bara.. hehe :P Þarna fékk ég líklega óþægilegustu meiðsli mín eftir byltu, fékk smá hnykk í hálsinn en það jafnaði sig fljótt :)
Þetta eru þær þrjár sögur sem mér datt í hug en ég hef samt dottið mun oftar, langoftast af Ljúf þar sem ég hef svo oft verið eitthvað að fíflast á honum, fara á hann berbakt úti á túni eða skella vinkonu minni á bak með mér á hann og eitthvað svona..
Fyrir utan svona byltur hefur maður lent í öðruvísi óhöppum eins og að fá spark í sig eða eitthvað þannig. Einu sinni ætlaði ég t.d. að vera rosa hetja og bjarga hesti frænda míns úr gaddavír en hann steig beint í miðjuna á upprúlluðum vírnum. Ég fór og ætlaði að leiða hann úr vírnum en áttaði mig ekki á því að ég hafði stigið aðeins inn í vírinn í leiðinni, hesturinn kipptist við og dró vírinn aðeins með sér (meiddi sig samt ekkert, vírinn fór bara í hófana), vírinn kippti undan mér fótunum og ég endaði flækt í honum þegar hesturinn losaði sig. Uppskar mjög fallegt skorið X á ennið ásamt nokkrum skrámum hér og þar, var mest fegin að enginn sá þetta því þetta hefur örugglega verið mjög fyndið að horfa á.. :P