Ég er búin að vera í hestunum með annan fótinn frá því ég man eftir mér. Ég byrjaði á mínu fyrsta námskeiði snemma og gekk afar vel. Það var mikið talað um að ég ætti gott með hesta og væri fínn reiðmaður. En því miður fékk ég aldrei hest. Einu skiptin sem ég fékk að fara á bak fyrir utan reiðnámskeiðin voru á einhverjum truntum hjá hinum og þessum. Ein þeirra truntna gerði það að verkum að ég gat ekki farið á bak í 3 ár og lifi enn með vissa hræðslu þegar ég fer á bak.

Ég hef stundað hestamennskuna þó nokkuð núna síðustu tvo vetur með kærasta mínum. Ég hef fengið að vera með hest frá tengdapabba sem heitir Prins og er gullfallegur töltari. En ég þráði alltaf að eignast eigin hest.

Svo í apríl þá dreymdi mig skemmtilegann draum. Mig dreymdi að ég væri búin að eignast bleikt hestfolald. Að tengdapabbi hefði gefið mér folaldið sem merin þeirra var að kasta! Ég var himinlifandi í draumnum en þegar ég vaknaði hvarf sú ánægja, því jú þetta var ekki raunverulegt.
Ég sagði tengdapabba mínum og kærasta frá þessu. Þeim fannst þetta þó nokkuð skemmtilegur draumur og þá sagði tengdó: Hér með átt þú fylið sem Dögun gengur með !

Í fyrra vor var Segull geltur, 3ja vetra foli sem kærasti minn á. Ástæðan fyrir því að hann var enn ógeltur var að annað eistað átti eftir að koma niður. En tengdapabbi minn fékk þá hugmynd rétt áður en það átti að fara að gelda hann að láta folann fara á meri sem þeir eiga helming í, Dögun frá Syðra-Velli. Það var gert.

Þar með var ég að fara að eignast minn fyrsta hest, sem var þó ófæddur !:D

26. maí 2007 hringdi tengdó í mig og tilkynnti mér það að merin hefði kastað um morguninn og ég ætti að drífa mig uppí haga til hans og sjá ! Ég og kærastinn minn drifum okkur og vorum ægilega spennt!

Þegar við komum uppí haga sá ég að merin stóð og hjá henni bleikt folald!! Tengdó var búinn að athuga með kynið og það var hestur! Ég var í skýgjunum, fékk að strjúka honum aðeins en létum hann svo bara vera í friði með mömmu sinni, svona nýr og sætur :D

Ég var lengi að finna nafn á hann, en loks ákvað ég nafnið Kópur. Mamma mín átti hest þegar ég var lítil sem var hvítur og hét Kópur. Þetta var fyrsti hesturinn sem ég fór á bak á og uppáhaldið hennar mömmu.

Kópur er ægilega fallegt folald. Hann er skemmtilega byggður og allar líkur til að hann verði mjög fallegur. Hann er undan Segli frá Selfossi sem kærasti minn á og Dögunni frá Syðra-Velli sem þeir feðgar eiga helminginn í. Foreldrar Kóps eru bæði frekar lítil en mjög góðir töltarar! Dögun er sannkallaður viljagammur!

En svo gerðist það leiðinlega atvik örfáum dögum eftir að hann kom í heiminn að það var hringt í kærasta minn, það var frændi hans sem hringdi og sagðist hafa verið í haganum. Hann hafi komið að merinni órólegri á ákveðnum punkti og hann hafi auðvitað farið og athugað með það, þá kom í ljós að Kópur lá þar afvelta, fastur á milli þúfna og var búinn að missa allan mátt til þess að reyna að losa sig, en það hafðist nú að koma honum á fætur og allt fór vel. Ég fékk reyndar ekki að vita af þessu fyrr en daginn eftir þegar við vorum búin að fara út í haga að heilsa upp á Kóp, ástæðan var sú að kærasti minn og tengdapabbi vildu ekki að ég væri að fara að hafa áhyggjur út af þessu fyrr en eftir á. Þeir voru reyndar löngu búnir að koma mér í skilning um það að það gæti alltaf eitthvað komið fyrir, og vissi ég það frá upphafi. En Kópur er fyrsta folaldið hennar Dögunar þannig að þegar hann var nýkastaður þá var hann eðlilega lítill og kraftlaus. En allt fór vel að lokum og er ég yfir mig ánægð með það að sjálfsögðu :D

Kópur verður tekinn inn í vetur á hús og því mun ég getað fóðrað hann vel og gert hann taumvanann:) Ég er mjög spennt fyrir því :D

Takk:)