Hér eftir verður ekki hægt að endursýna Söru 9435 frá Syðra-Skörðugili undir ónefninu Zara, eins og hún væri tuskubúð, svo sem gert var í sumar.
Og erlendir eigendur ræktunarhrossa geta ekki notað nöfn á borð við Amica, Fee, Fight, Gittling, Seth, Tjalga og Tvirvla, svo tekin séu dæmi frá árinu 2001.
Fagráð í hrossarækt hefur ákveðið að taka á nafngiftum hrossa, sem ekki eru í samræmi við íslenzka málvenju.
Verða slík hross ekki tekin upp í Feng öðru vísi en með íslenzkum nöfnum.
Gagnabankinn Hestur hefur raunar aldrei viðurkennt slík nöfn, heldur birt þau í hornklofa, ef hrossin hafa verið sýnd erlendis, og lagað stafsetninguna að íslenzku máli, ef þau hafa verið sýnd á Íslandi.
Fagráð hefur þó ákveðið að virða grátt svæði og undanskilja alþjóðlega viðurkennd nöfn á borð við Mozart og nöfn úr grískri goðafræði á borð við Afródíta.
Spurningin er, hvað fagráðið gerir, þegar menn leita inn á gráa svæðið og heimta að fá að nota heitin Bartók og Katsatúrían, Dvorák og Mussorgsky rétt eins og Mozart eða heimta að fá að nota heitin Mnemósína og Evrínóma, Díónísos og Akteón rétt eins og Afródíta.
Og hvað um biblíuna?