Eins og undanfarin ár verður þekktur stóðhestur til sýnis í Húsdýragarðinum í vetur. Að þessu sinni verður ekki ómerkari kempa en Kolfinnur frá Kjarnholtum I gestur okkar í vetur.

Kolfinnur er fæddur Magnúsi Einarssyni í Kjarnholtum I í Biskupstungum árið 1981, undan hinum þekkta Hrafni 802 frá Holtsmúla og Glókollu 5353 frá Kjarnholtum. Hann hlaut sinn hæsta dóm sem einstaklingur 1990 á Vindheimamelum, þá 9 vetra, með aðaleinkunnina 8,45, 8,05 fyrir sköpulag og 8,84 fyrir hæfileika. Kolfinnur hefur hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi Hann er nú í eigu Hrossaræktarsambands Vesturlands og sex bænda í Húnavatnssýslu.

Kolfinnur er kominn á hús og mun dvelja hér fram á vor gestum og gangandi til ánægju. Hann verður ásamt fleiri hrossum járnaður af meisturum Járningamiðstöðvarinnar sunnudaginn 18. nóvember um kl:13:00, og verða einhverjir hestanna heitjárnaðir.

Auk Kolfinns verða á húsi í vetur hross í eigu Húsdýragarðsins og kennir þar ýmissa lita, m.a. grátt, móvindótt, móskjótt og bleikálótt svo eitthvað sé nefnt. Þá er einnig til sýnis fram í janúar hryssa með folaldi sem fæddist á fyrsta vetrardag.