Knapi ársins engum á óvart var valinn af hestafréttamönnum hinn tvöfaldi heimsmeistari Vignir Jónasson. Vignir skilaði glæstum árangri á árinu og þar ber að sjálfsögðu hæst sigur hans í fimmgangi á Klakki frá Búlandi á heimsmeistaramótinu í Austurríki en auk þess varð hann þar stigahæstur keppenda. Þá varð hann þriðji í gæðingaskeiði á mótinu.
Hann varð einnig Íslandsmeistari á Klakki og á báðum þessum mótum setti hann einkunnamet. Þá keppti Vignir á fjölda annarra móta og sýndi hross í kynbótadómi með góðum árangri.

Nú í fyrsta skipti voru veitt undirverðlaun í fimm flokka sem hófapressan valdi einnig. Þar var Vignir að sjálfsögðu með bestan árangur á hestaíþróttamótum en Sigurður Sigurðarson þótti bera af þeim bestu í sýningu gæðinga á árinu og Logi Laxdal gulltryggði sér kappreiðaknapaverðlaunin með Íslandsmeti í 150 metra skeiði á Þormóði ramma frá Svaðastöðum en þar fyrir utan var hann með sérlega góðan árangur í skeiði á kappreiðum sumarsins, sérstaklega í 150 metra skeiði.

Fremstur knapa í kynbótasýningum var valinn ókrýndur konungur kynbótasýninganna Þórður Þorgeirsson. Hann hefur borið ægishjálm yfir aðra knapa á þessu sviði og orðið löngu tímabært að veita honum viðurkenningu á þessum vettvangi. Þá var að síðustu kölluð upp Berglind Rósa Guðmundsdóttir sem valin var bjartasta vonin á vetttvangi hestamennskunnar. Hún hefur lengi verið í eldlínunni, byrjaði í barnaflokki en er nú komin í ungmennaflokk. Átti hún góðu gengi að fagna í sumar þar sem frábær frammistaða á Íslandsmótinu á Varmárbökkum var hápunkturinn hjá henni.

Þessi aukaverðlaun eða viðurkenningar öllu heldur voru nú reynd í tilraunaskyni mæltust vel fyrir og má búast við að þær verði veittar áfram.

Þá er ónefndur einn sigurvegari kvöldsins nefnilega Flosi Ólafsson sem var veislustjóri og dekkaði einnig ræðumann kvöldsins. Hann brást ekki frekar en fyrri daginn, alltaf jafn fyndinn og skemmtilegur. Sagði hann sögur af sjálfum sér eins og þegar hann vann við hestaleiguna hjá Þorkeli Bjarnasyni en það var þegar hann var hændur að brennivíni eins og hann orðaði það. Sagðist hann hafa verið fullur alla daga og undrast mjög að Þorkell skyldi líða honum þetta. Spurði hann Þorkel síðar hvernig hafi staðið á því hann þessi staki bindindismaður skuli hafa þolað þetta framferði hans. Svar Þorkels var eitthvað á þessa leið: “Ég hélt Flosi minn að þú værir bara svona.”