Hesturinn á rætur sínar að rekja milljónir ára aftur í tímann. Hann hefur þróast og mótast af umhverfi sínu og aðstæðum hverju sinni og er í dag mjög vel líkamlega aðlagaður þeim kringumstæðum sem hann býr við. Íslenski hesturinn er til dæmis loðinn og samanrekinn til að geta tekist á við óblítt veðurfar og miklar árstíða- sveiflur. Hann er sérstaklega fótviss enda helsta samgöngutæki manna hér á landi lengst af þegar menn fóru ríðandi á milli staða. Menn hafa svo haldið áfram að rækta sterka og trausta hesta. Landnámsmennirnir hafa líkast til ekki flutt með sér marga hesta til Íslands, heldur aðeins þá bestu og þannig hjálpast allt að við þróun þessa einstaklega sterka, þolna og mjúka hests.

Hestar eru hópdýr
Hestar eru hópdýr. Þeir sækjast eftir félagsskap við aðra hesta, þótt einstaka hestar séu til sem eru einfarar. Þeir eru líka flóttadýr og helsta sjálfsvörn fleirra er að taka til fótanna. Af þessu leiðir að hestum er mjög annt um fæturnar á sér og leitast því við að ganga í halarófu (lesta sig) svo og að fylgja stígum og troðningum í landslaginu. Þeim er oft illa við ótraust land sem er deigt eða brothætt, og eins eitthvað sem gæti hreyfst, gefur frá sér holhljóð eða umlykur fæturna. Hrossum sem alin eru upp við frelsi er mjög illa við að vera á húsi því þá eiga þau þess ekki kost að leggja á flótta ef hætta steðjar að. Þau fara því sjaldan í hús af sjálfsdáðum. Hestum er líka annt um að hafa hausinn frjálsan og það getur verið mikilvægt í upphafi tamningar að gefa trippum tækifæri á að hreyfa hausinn til þess að þau fái traust á manninum.

Sjón
Sjónsvið hests er mjög vítt, vegna þess að augun eru staðsett utarlega á hausnum en beint fyrir framan og aftan hausinn er blindur punktur og þá getur hann þurft að hreyfa höfuðið lítillega til að sjá. Til dæmis sjá reistir hestar ekki jörðina beint fyrir framan og þurfa þá að lækka höfuðið á ósléttu landi. Auk þess er sjónsvið hests stillt inn á mismunandi “fókus”, miðhlutinn á stutt færi en efsti og neðsti hlutinn á lengra færi og af þeim sökum geta hestar þurft að hreyfa hausinn töluvert til að ná hlutum, sem þeir sjá, inn í sjónnæmara svæði. Hestar greina hreyfingu mun næmar en menn og geta því greint ýmislegt sem knapinn greinir ekki. Aftur á móti er talið að þeir greini ekki liti, heldur ljósnæmi.

Heyrn
Til að bæta upp frekar dapra sjón hafa hestar mjög næma heyrn. Eyrun eru vel hreyfanleg, þeim er stjórnað af 16 vöðvum og getur hesturinn snúið þeim hvoru í sína áttina. Staða eyrnanna sýnir líka hugarástand hesta. Leggi hann þau t.d. beint aftur er hann óánægður eða í árásarhug. Standi þau beint fram sýna þau mikinn áhuga á einhverjum hlut og eru hestarnir þá oft reistir og spenntir. Röddin getur verið mjög þýðingarmikil í meðferð hrossa. Bæði róandi t.d “hóóóóóooo…” með sefandi rödd, eða hvetjandi. Einnig getur hún falið í sér verkskipun t.d. “brokk”, sem getur reynst vel á spenntum hestum eða þeim sem eiga í einhverju basli.

Lyktnæmni
Hestar eru líka mjög lyktnæmir. Hryssa þekkir afkvæmi sitt á lyktinni og hestar sem hittast og ganga þétt hver upp að öðrum meta það á lyktinni hvaða viðbrögð séu við hæfi. Hestar velja líka fóður eftir lykt og skynja landslag. Finni hestar lykt sem þeir þekkja ekki hnusa þeir af því sem gefur lyktina frá sér, lyfta hausnum og fýla grön, þ.e. loka lyktina inni í nasaholinu til að greina hana. Hestar finna líka lykt af skít og hlandi og stóðhestar geta m.a. fundið hvort meri eigi skítinn. Þeir greina líka á lyktinni í hvernig skapi maðurinn er. Það er vitað að við gefum frá okkur ýmis efni eftir því hvernig okkur líður og hesturinn verður þess fljótt áskynja. Hann spennist upp og verður kvíðinn ef maðurinn er stressaður, spenntur eða æstur en róast og slakar á ef maðurinn er glaður og rósamur. Auðvitað hjálpar meira en lyktin til við þessa skynjun á líðan mannsins en það hefur a.m.k. áhrif á hestinn. Þess vegna borgar sig engan veginn að fara á hestbak sé maður í uppnámi eða vondu skapi.

Bragðskyn
Hestar hafa einnig gott bragðskyn og næmni í munni. Þeir vinsa úr fóður sem ekki er gott, t.d. of beiskt, og hreinsa upp hvert einasta strá sem þeir geta borðað. Þeir skilja iðulega allt rusl eftir. Á sumrin er ekki óalgegnt að sjá beitarsvæði hesta vel nöguð en hverja einustu sóley óáreitta uppistandandi. Bragðskynið er hestinum nauðsynlegt því erfitt getur verið að finna lykt af fáum beiskum stráum í hrúgu af ilmandi heyi. Hross hænast oft að sætu bragði, t.d. brauði, og verður að gæta þess vel að nota það í hófi og aðeins til að hæna að sér stygga hesta eða hrósa hesti fyrir vel unnið verk, en gæta verður þess vel að ofnota það ekki því hestar verða fljótt ágengir og frekir á gotteríið og geta “vaðið yfir” manninn.

Næmni
Hestar hafa mikla tilhneigingu til þess að reka nefið í hluti. Þetta stafar af því að snertinæmið er mest á snoppu og nösum. Snoppuhárin eru einnig mjög mikilvægur þáttur. Knapinn getur nýtt sér mikið snertinæmi í skrokk hestsins til að auka stjórnunarmöguleika sína. T.d. má ýta á herðar til slökunar eða þrýsta fótum að síðum til hvatningar. Sumir hestar eru mjög næmir svo tala má um viðkvæmni við snertingu og kallast það hvumpni. Mörgum hestum er t.d. mjög illa við snertingu í kring um eyru. Öllum hestum má samt kenna að snerting sé ekki hættuleg. Hafi þeir orðið fyrir slæmri reynslu getur það þó verið torvelt og í sumum hestum býr þessi hræðsla alla tíð. Veit ég um dæmi þess að hestur varð fyrir skaða í andliti sem folald og varði sig alla tíð með framfótum (hótaði), nema fyrir einum manni sem hann hleypti að sér. Eftir að hann hafði verið handsamaður var allt í lagi.

Ungur nemur
Atferli hesta er mjög misjafnt og fer að stórum hluta eftir uppeldi fleirra. Hross sem alin eru upp í stóði bera óttablandna virðingu fyrir manninum enda lítt kunnug honum. Hross sem allt sitt líf eru heima við hús, á litlum blettum og/eða á húsi og í sífelldri umgengni við manninn bera minni virðingu fyrir honum, sérstaklega ef þau eru dekruð og mikið klöppuð og kjössuð. Slík hross vaða oftast upp í frekju. Í stóðinu (hrossahópnum) er líka ákveðinn virðingarstigi, sem hefur töluverð áhrif á samskipti innan hópsins. Umhirða, meðferð og tamning hafa líka með atferli og geðslag að gera. Margir hrossabændur hafa folöld á húsi í vikutíma og kemba þau og teyma í nokkur skipti til að venja þau við manninn því svo virðist sem það sitji þeim fast í minni seinna meir þegar kemur að tamningunni.

Misjafnir að gerð
Þá ber að athuga að engir tveir hestar eru eins og ólíkar aðferðir getur þurft að nota á mismunandi einstaklinga. það sem hentar einum hæfir ekki öðrum. Dæmi um ávana sem getur orðið til trafala er þegar menn stíga alltaf sömu megin á bak. Þetta getur orðið til þess að hesturinn bregst við eins og ótaminn þegar stíga á á bak hinum meginn. Hestar eru misgóðir í samskiptum við aðra hesta. Sumir eru sífellt að slást, leggja kollhúfur og reka frá sér. Aðrir kljást og eru “félagslyndari”. Hestar gera líka mannamun. Sumir verða svo hændir að eigendum sínum að þeir hneggja eða kumra þegar viðkomandi kemur í hesthúsið, eða jafnvel hlýða kalli hans úti á túni.
Þá má að lokum geta þess að hestar eru veðurglöggir og snúi hestar í hópi allir rassinum í sömu átt og hími má búast við leiðinda veðri úr þeirri átt sem rassinn snýr í.

Lifið heil
Tigris